Fjölmenni í hestamessu

21. ágúst 2023

Fjölmenni í hestamessu

Full kirkja á Hrepphólum

Kirkjan.is hefur sagt frá því í sumar að sumarstarf kirkjunnar er með töluvert öðru sniði en vetrarstarfið.

Þá er oft messað í fámennum sóknum þar sem ef til vill er messað aðeins nokkrum sinnum á ári.

Þá er sumarið tilvalinn tími til að messa.

Jafnvel hefur verið messað á þó nokkrum stöðum í eyðibyggðum.

Í Hrepphólasókn sem er fyrir neðan Flúðir í Hrunamannhreppi búa rúmlega 130 manns.

Þar var haldin hestamessa sunnudaginn 20. ágúst í blíðskaparveðri.

Tæplega fimmtíu knapar komu ríðandi til hestamannamessunnar.

Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson sóknarprestur í Hruna sagði fréttaritara kirkjan.is að hópreið hefði lagt upp frá prestssetrinu í Hruna og haldið sem leið lá yfir Stóru-Laxá.

Og hann heldur áfram:

„Eftir reið yfir ána var komið við í Hlíð þar sem fleira reiðfólk bættist í hópinn.

Enn fleiri bættust svo í hópinn við svonefndan ,,skattstiga” áður en aftur var farið yfir Laxá og undir Hólahnúkana og að Hrepphólum.

Þá var þar mætt fleira fólk á hestum sem komið höfðu aðra leið til kirkju.

Messa hófst síðan kl. 14:00 og var kirkjan þéttsetin, en hundar fengu pláss í forkirkju og heyra mátti stöku gelt undir ræðu prest og vakti það kátínu kirkjugesta.

Að messu lokinni bauð sóknarnefnd Hrepphólasóknar í veglegt messukaffi sem viðstaddir kunnu vel að meta.

Sat fólk úti í garði og naut himneskrar blíðu, kaffibrauðs af bestu gerð og ljúfrar samveru“

sagði sr. Óskar Hafsteinn að lokum.

 

Á vef Minjastofnunar  má finna eftirfarandi upplýsingar um Hrepphólakirkju:


Hrepphólakirkja er byggð upp úr kirkju sem reist var í Hrepphólum 1903 eftir teikningum Rögnvalds Ólafssonar arkitekts, en kirkjan fauk 1908.

Við endurbygginguna 1909 var kirkjuskipið stytt um eina alin og gluggum fækkað um einn á hvorri hlið og kórinn styttur um ¾ alin, turni og umbúnaði glugga var breytt og dregið úr skrauti innandyra.

Yfirsmiður endurbyggingar var Samúel Jónsson forsmiður.

Hrepphólakirkja er timburhús, 8,24 m að lengd og 6,34 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,81 m að lengd og 3,78 m á breidd.

Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur burstsettur turn á breiðum stalli.

Hljómop með hlera er á framhlið turns.

Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum.

Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli.

Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á hvorri hlið kórs, allir með tveimur bogarömmum.

Á framstafni eru þrír gluggar, miðglugginn samskonar og aðrir gluggar kirkjunnar en hinir tveir minni hálfgluggar.

Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogadreginn skorinn tréskjöldur.

Yfir þvera kirkju er forkirkja, stúkuð af framkirkju með þili.

Norðan megin í henni er stigi upp á söngloft.

Á milliþili eru dyr að framkirkju og fyrir þeim vængjahurðir.

Inn af þeim er gangur og beggja vegna hans kirkjubekkir.

Kórgólf er hafið upp yfir kirkjugólf um tvö þrep.

Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju.

Veggir forkirkju eru klæddir strikuðum panelborðum en veggir framkirkju og kórs eru klæddir reitaþiljum neðanvert en plötuklæddir að ofan.

Milliþilið er hins vegar klætt málningarpappír að neðan.

Í kirkjunni eru súlur skreyttar með útskornu korintísku súluhöfði.

Yfir öllu kirkjuskipinu stafna á milli er reitaskipt hvelfing og önnur minni yfir kór og undir þeim strikasyllur.

Sjá mynd af Hrepphólakirkju hér fyrir neðan, auk margra skemmtilegra mynda frá hestamessunni.

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Kirkjustaðir

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði