Brýnt að íslenska þjóðkirkjan sé hluti af alþjóðasamtökum

5. september 2023

Brýnt að íslenska þjóðkirkjan sé hluti af alþjóðasamtökum

Einn líkami, einn andi, ein von

Heimsþing Lútherska Heimssambandsins hefst í næstu viku.

Kirkjan.is mun leitast við að gera því eins góð skil og unnt er, því þátttaka þjóðkirkjunnar í þessum mikilvægu samtökum er afar mikilvæg.

Hún gefur okkur möguleika á að taka þátt í hjálparstarfi um allan heim, en það er aðalverkefni samtakanna fyrir utan að berjast fyrir mannréttindum, jafnrétti allra kynja og gefa ungu fólki rödd innan kirkjunnar.

Á vegum samtakanna starfa einnig ráðgjafar á sviði guðfræði og kirkjuskilnings.

Þingið sem nú fer fram í Kraków í Póllandi ber yfirskriftina One body, one spirit, one hope eða Einn líkami, einn andi, ein von.

Íslenska sendinefndin hittist á Þjónustumiðstöð kirkjunnar í Grensáskirkju í síðustu viku, en Ísland á þrjá fulltrúa með atkvæðisrétt.

Fyrir íslensku sendinefndinni fer biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, en auk hennar fara með atkvæðisrétt dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor í trúfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og sr. Árni Þór Þórsson sóknarprestur í Vík í Mýrdal.

Auk þeirra sitja þingið Magnea Sverrisdóttir djákni og verkefnastjóri samkirkjumála á Biskupsstofu og ráðgjafi núverandi stjórnar LWF og sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir sóknarprestur á Vopnafirði og fráfarandi stjórnarkona í Lútherska Heimssambandinu.

Fréttaritari kirkjan.is sat undirbúningsfund íslensku sendinefndarinnar og spurði sr. Þuríði Björgu:

Nú hefur þú setið í stjórn LWF í sex ár. Í hverju hefur starf þitt verið fólgið?

„Ég hef setið í stjórn Lútherska Heimssambandsins í sex ár núna fyrir hönd þjóðkirkjunnar, en í því felast hefðbundin stjórnarstörf, að samþykkja áætlanir, hafa yfirlit og eftirlit með verkefnum og að taka þátt í að móta sambandið.

Þetta hafa að mörgu leyti verið óhefðbundin ár vegna heimsfaraldurs sem svo sannarlega setti strik í reikninginn og hafði áhrif á reksturinn.

Það þurfti að bregðast snöggt við og breyta áætlunum, verkefni voru sett á bið og önnur sett í forgang.

Áherslan fór því að miklu leyti á að bregðast við þessum nýju og breyttu aðstæðum, neyðaraðstoð þar sem á þurfti að halda og síðan að byggja aðildakirkjur upp eftir faraldurinn.

Margar kirkjur komu illa út úr faraldrinum fjárhagslega þar sem þær reiða sig algjörlega á pening sem safnast í guðsþjónustum, sem vegna faraldursins lágu niðri.“

Hver hefur verið aðaláhersla sambandsins s.l. 6 ár?

„Í framhaldi af heimsfaraldri braust svo út stríð í Úkraínu sem þurfti einnig að bregðast við með aukinni neyðaraðstoð, svo það var margt óvænt sem kom uppá þessi ár.

Lútherska Heimssambandið leggur mikla áherslu á aðstoð við aðildarkirkjur sínar einmitt þegar svona stendur á og því er vel til þess fallið að aðstoða bæði með fjármagni og verkefnum sem stuðla að uppbyggingu.

Að öðru leyti hafa þessi ár verið hefðbundin, langmest fjármagn fer í neyðaraðstoð og önnur verkefni í kærleiksþjónustu.

Guðfræði, skólastyrkir til guðfræðimenntunar, samskipti við önnur trúfélög og jafnréttis- og umhverfismál eru einnig alltaf áhersluatriði sambandsins.“

Hvað hefur þú lært á þessum árum?

„Það hefur verið gríðarleg reynsla að fá að sinna þessu verkefni seinustu sex árin.

Það hefur galopnað augu mín fyrir hinum lútherska heimi.

Það er öllum hollt að átta sig á því að við erum ekki eyland hér á Íslandi, við tilheyrum stærra samhengi og tökum þátt í að styðja og styrkja systkini okkar úti í heimi.

Það hefur komið á óvart að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum, sem aðhyllist sömu trú og gildi en kemur frá gjörólíkum menningarheimum.

Það hefur verið skóli sem hefur kennt mér mikið.“

Finnst þér mikilvægt að Þjóðkirkjan starfi í alþjóðasamtökum og af hverju?

„Þjóðkirkjan getur verið stollt af því að tilheyra Lútherska Heimssambandinu og ætti að halda því á lofti að við einmitt tilheyrum stærra samhengi.“


Hvað tekur nú við þegar þú hverfur úr stjórninni? Muntu sinna einhverjum verkefnum á vegum LWF?

„Nú mun ég skila af mér þessu verkefni og dr. Arnfríður Guðmundsdóttir mun taka við af mér í stjórn.

Ég er gríðarlega ánægð með að fá hana inn þar sem guðfræðin verður eitt aðal áhersluefni sambandsins næstu árin.

Í Arnfríði höfum við öfluga manneskju sem mun geta miðlað af þekkingu sinni og reynslu.

Samkirkjumál eru orðin hluti af minni vinnu og tilveru og ég mun áfram leitast við að sinna þeim að því leyti sem mér verður treyst fyrir.

Ég mun áfram fylgjast vel með því sem fram fer hjá Lútherska Heimssambandinu og deila með öðrum.

Margt getum við lært af systurkirkjum okkar og það er gott að eiga tengsl og geta leitað í reynslu út fyrir landssteinana þegar við stöndum frammi fyrir breytingum.

Þetta verður sérstaklega gott veganesti á komandi árum á kirkjuþingi og ég vona að ég geti miðlað af því sem ég hef lært seinustu sex árin.“

 

Lútherska Heimssambandið hefur lagt mjög ríka áherslu á að kirkjurnar sendi að minnsta kosti 40% konur og 40% karla á þingið eins og regla er í öllum aðildarkirkjunum.

Auk þess eru engin undanbrögð frá því að a.m.k. 20% fulltrúanna sé ungt fólk undir 35 ára aldri.

Það skilyrði uppfyllir sr. Árni Þór Þórsson sóknarprestur í Vík í Mýrdal, en hann er aðeins 27 ára gamall.

Fréttaritari kirkjan.is spurði hann um það hvernig það leggist í hann að sækja 13. Heimsþing Lútherska Heimssambandsins?

„Það leggst vel í mig.

Það er heiður að fá að vera hluti af Heimsþingi Lútherska Heimssambandsins ég verð  að viðurkenna að þar sem þetta er svo stór viðburður, að það er smá kvíði í mér en um leið mikil spenna.“

Hvað finnst þér áhugaverðast við efni þingsins?

„Ég tel að áhugaverðasta efni þingsins hljóti að vera stríðið í Úkraínu og viðbrögð þingsins gagnvart því.

Það er mikilvægt að þingið standi saman og hafi skýra afstöðu varðandi þann málaflokk.“

Hvernig heldur þú að það nýtist þér í starfi að sækja þetta þing?

„Þetta er mjög mikil reynsla fyrir mig sem ungan prest að fá að fara þangað út og hitta fullt af fólki með ólíka stöðu og bakgrunn.

Þetta er tækifæri fyrir mig til að skapa nýjar tengingar og heyra afstöðu fólks frá ólíkum menningarheimum.“

 

Finnst þér mikilvægt að íslenska Þjóðkirkjan sé þátttakandi í alþjóðasamtökum á borð við Lútherska Heimssambandið?

„Ég tel að það sé mikilvægt að íslenska Þjóðkirkjan sé hluti af þinginu vegna þess að það er mikilvægt að allar lútherskar kirkjur hafi rödd og hafi vettvang til að nota þá rödd.“

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir tekur við af sr. Þuríði Björgu í stjórninni og því var upplagt að spyrja hana:

Hvernig leggst það í þig að sækja 13. Heimsþing Lútherska Heimssambandsins?

„Það leggst mjög vel í mig.

Mér finnst mikil forréttindi að fá að taka þátt í þeim stóra og merkilega atburði sem heimsþingið er og er full tilhlökkunar að fá verða vitni að því þegar fulltrúar lútherskra kirkna frá öllum heimsálfum hittast og stilla saman strengi sína.

Ég tel að það sé mikilvægt að fara með opnum huga og með það að markmiði að hlusta og læra af fólki sem þjónar kirkjum í aðstæðum sem eru mjög ólíkar okkar.“

Hvað finnst þér áhugaverðast við efni þingsins?

„Mér finnst áherslan á eininguna vera það sem stendur upp úr.

Vegna þess að bakgrunnur fólksins sem kemur saman á þinginu er svo ólíkur skiptir það öllu máli að lyfta upp því sem sameinar okkur.

Við þurfum ekki öll að vera eins til þess að geta unnið saman og verið saman.

Það er alltof auðvelt að missa sjónar á þessu.

Ég er líka mjög spennt fyrir því að taka þátt í kvennaþingi sem verður haldið dagana á undan heimsþinginu.

Hlutverk kvennaþingsins er að undirbúa skilaboð fyrir fulltrúa heimsþingsins.

Nú eru tíu ár liðin síðan stefna heimssambandsins í málefnum sem varða kynjajafnrétti kom út, The LWF Gender Justice Policy, og það er á dagskránni að fara í gegnum þá stefnu og vega og meta hverju hún hefur komið til leiðar og hvað er nauðsynlegt að uppfæra og hverju er þörf á að breyta.“

Nú ferð þú inn í stjórn LWF í stað sr. Þuríðar Bjargar. Hvað munt þú leggja mesta áherslu á þar?

„Ég mun leggja mitt af mörkum í umræðunni sem stendur fyrir dyrum um guðfræðimenntun og byggja þar á langri reynslu minni í háskólanum.

Það er margt sem kallar á endurskoðun á hefðbundinni guðfræðimenntun og nýjar áherslur í þeim efnum.

Umhverfismálin og loftslagsbreytingar hafa lengi verið fyrirferðamikil í rannsóknum mínum og ég hlakka til að fá að taka þátt í umræðunni um þau mál.

Í því samhengi finnst mér mikilvægt að áhersla sé lögð á áhrifin sem hlýnandi loftslag hefur á þau sem standa höllum fæti í samfélögum sem þegar eru farin að finna mjög fyrir breytingunum, en oftar en ekki koma þær verst niður á konum og börnum.“

Finnst þér mikilvægt að íslenska Þjóðkirkjan sé þátttakandi í alþjóðasamtökum á borð við LWF?

„Já, mér finnst það mjög brýnt.

Það er ákveðin hætta á að við gleymum stóra samhenginu sem við tilheyrum ef við tökum ekki virkan þátt í samstarfi við aðrar lútherskar kirkjur og að sjálfsögðu við aðrar kirkjudeildir líka, eins og t.d. innan Heimsráðs kirkna (World Council of Churches).

Við megum ekki einangrast og hugsa bara um okkar heimahaga, því þá verðum við sjálfhverf og þröngsýn.

Tilgangurinn með þessum stóru samtökum eins og Lútherska heimssambandinu og Heimsráði kirkna var einmitt að vinna gegn einangrun og auka samtal og samvinnu.

Það var brýnt um miðja 20. öldina og er kannski ennþá brýnna á okkar tímum“

sagði dr. Arnfríður að lokum.

Myndir hér fyrir neðan eru frá vinstri: dr. Arnfríður, sr. Þuríður Björg, sr. Árni Þór

 

slg


Myndir með frétt

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir varaforseti LWF
  • Biskup

  • Guðfræði

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Úkraína

  • Umhverfismál og kirkja

  • Viðburður

  • Alþjóðastarf

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði