Mikil áhersla lögð á samkirkjumál og samtal milli trúarbragða

11. september 2023

Mikil áhersla lögð á samkirkjumál og samtal milli trúarbragða

Einn líkami, einn andi, ein von

Yfir þúsund þátttakendur verða á Heimsþingi Lútherska Heimssambsins sem haldið er í Kraków í Póllandi 13.-19. september.

Heimsþingið er æðsta stofnun sambandsins og það kýs næsta forseta og stjórn, sem leggja línurnar fyrir næstu ár.

Aðalefnið Einn líkami, einn andi ein von leggur áherslu á mikilvægi þess að kirkjurnar boði einingu í samfélaginu til að græða sundrungu og vaxandi skautun (polarization).

Þau sem flytja ræður munu ræða um áskoranir samtímans og spyrja hvernig kirkjurnar geti flutt boð um von og verið um leið trúverðugur vitnisburður um fagnaðarerindið í hinum ólíku aðstæðum heimsins.

Framkvæmdastjóri Lútherska Heimssambandsins dr. Anne Burghardt segir:

„Heimsþingið í Kraków kallar saman fulltrúa kirkna frá 99 löndum frá öllum heimshornum.

Þúsund þátttakendur frá afar ólíkum aðstæðum koma saman og fá að upplifa hvað það merkir að vera „eitt í Kristi“.

Við íhugum og biðjum, deilum hvert með öðru reynslu okkar með það að markmiði að sjá hvert andinn leiðir kirkjurnar okkar og hvernig við erum kölluð til að vera sendiboðar vonar í heiminum.“

Gestgjafar þingsins í ár er lútherska kirkjan í Póllandi, sem kennd er við Ágsborgarjátninguna.

Biskup hennar er Jerzy Samiec.

Þetta er í annað sinn sem Heimsþingið er haldið í Austur-Evrópu, en þingið var haldið í Budapest í Ungverjalandi árið 1984.

Lútherska kirkjan er í miklum minnihluta í Póllandi sem er aðallega kaþólskt land.

Lútherska kirkjan í Póllandi er stofnfélagi í Lútherska Heimssambandinu og eru meðlimir hennar um 61.000.

Eftir að Rússar réðust inn í nágrannaríkið Úkraínu, hefur pólska kirkjan unnið með mörgum öðrum kirkjum og stofnunum að því að mæta þörfum hundruð þúsunda flóttafólks frá landinu.

Samiec biskup býður fulltrúa kirknanna hjartanlega velkomna til Póllands og segir að kirkjan í Póllandi hafi beðið fyrir aðildarkirkjum Lútherska Heimssambandins á hverjum sunnudegi síðast liðið ár.

„Markmiðið“ segir hann „var að læra meira um bræður og systur frá öllum heimshornum, en umfram allt að byggja upp samfélag í Kristi sem er fullt af kærleika, virðingu og skilningi“

og hann bætti við:

„ég er yfir mig glaður þegar ég býð alla þátttakendur velkomna til Póllands og bið þess að samveran megi hafa djúp áhrif á okkur öll.“

 

Heimsþingið verður sett í ráðstefnumiðstöðinni ICE í Kraków með guðsþjónustu þar sem hin 34 gamla sr. Danelle Dokman frá lúthersku kirkjunni í Suriname predikar.

Aðalræðuna flytur tékkneski presturinn, rithöfundurinn og prófessorinn sr. Tomás Halík, sem er þekktur fyrir baráttu sína fyrir trúfrelsi og samtali á milli trúarbragða.

Meðal þess sem gert verður á meðan á þinginu stendur er heimsókn í Auschwitz-Birkenau.

Boðið verður upp á bænastund og íhugun í lok heimsóknarinnar.

Á lokadegi þingsins verður undirrituð sameinginleg yfirlýsing með kaþólsku kirkjunni og öðrum kirkjudeildum sem hafa undirritað yfirlýsingu um kenninguna um réttlætingu af trú.

Fulltrúar á annan tug kirkna og samtaka verða viðstödd þingið í Kraków til að undirstrika mikilvægi samstöðu bæði hvað varðar guðfræði, mannúðarmál, og kærleiksþjónustu.

Daglegt helgihald er mikilvægur hluti af störfum þingsins og sunnudaginn 17. september munu þátttakendur á þinginu sækja guðsþjónustur í söfnuðum víðs vegar um suðurhluta Póllands svo og í Tékklandi og Slóvakíu og eiga þar samfélag við lútherskt fólk í þessum löndum.

Myndirnar hér fyrir neðan eru af dr. Anne Burghardt, sr. Danielle Dokman og dr. Tomás Halík.

slg



Myndir með frétt

Dr. Anne Burghardt framkvæmdastjóri LWF
Dr. Tomás Halík
  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Þing

  • Þjóðkirkjan

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð