Mikill baráttuandi á kvennaþinginu

11. september 2023

Mikill baráttuandi á kvennaþinginu

113 konur sækja Kvennþing LWF

Heimsþing Lútherska Heimssambandsins verður sett í Kraków í Póllandi miðvikudaginn 13. september.

Nú er komið að lokum Kvennaþingsins og Ungmennaþingsins sem haldin eru í aðdraganda Heimsþingsins.

Tilgangur þessara þinga er að koma til skila hvatningu og áskorunum til hins eiginlega Heimsþings.

Í fyrsta skipti í sögu sambandsins er haldið karlaþing og er það haldið í dag, 11. september.

Tilgangur þess er að íhuga og deila með hver öðrum meginefni þingsins sem er Einn líkami, einn andi, ein von.

Kvennþingið sitja tvær konur frá Íslandi þær dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor í trúfræði við Háskóla Íslands og einn af fulltrúum Íslands á Heimsþinginu og Magnea Sverrisdóttir djákni, verkefnastjóri samkirkjumála á Biskupsstofu og ráðgjafi stjórnar Lútherska Heimssambandsins.

Á þinginu sitja 113 konur frá öllum heimshornum.

Þar er fjölbreytt helgihald og umræðuefnin margvísleg.

Vígsla kvenna hefur verið samþykkt í 79% aðildarkirkna sambandsins, því er mikil áhersla lögð á umræður um kynjajafnrétti og þar geta íslenskar konur svo sannarlega lagt sitt af mörkum.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við dr. Arnfríði og sagði hún að

„fyrsti dagur kvennaþingsins, sem haldið er í Wroclaw í Póllandi hafi byrjað með einstaklega fallegri guðsþjónustu.

Söngurinn var yndislegur og engu líkt að heyra fulla kirkju af konum frá öllum heimshornum taka undir.

Þjónustan var að mestu leyti í höndum pólskra kvenpresta, en tveir biskupar voru með stutt ávörp í upphafi guðsþjónustunnar.

Lútherska kirkjan í Póllandi vígði fyrstu konurnar til prestsþjónustu á síðasta ári og það var því sérstaklega gleðilegt að fá að njóta þjónustu þeirra.

Kona hefur ennþá ekki verið vígð til biskupsþjónustu, en annar biskupinn sagði í ávarpi sínu frá því hvernig hann hefði breyst frá því að vera andstæðingur prestvígslu kvenna, sem hann frá barnæsku hefði heyrt að væri ekki samkvæmt vilja Guðs.

Á fundinum sem haldinn var í beinu framhaldi af guðsþjónustunni sögðu pólsku konurnar frá reynslu sinni af því að starfa innan kirkjunnar, bæði áður og eftir að þeim var veittur aðgangur að hinni vígðu þjónustu“

og dr. Arnfríður bætti við:

„Það var mjög áhrifamikið þegar kona frá lúthersku kirkjunni í Madagaskar, sem vígir ekki konur, þakkaði pólsku konunum fyrir hvatninguna sem þær hefðu veitt sér til að halda áfram baráttunni fyrir prestvígslu í sinni heimakirkju.

Það eru forréttindi að fá að heyra af slíkum vitnisburði og upplifa hvernig samstaðan í hópnum vekur til umhugsunar og hvetur til góðra verka“

sagði dr. Arnfríður að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá hópmynd af öllum konunum og mynd af dr. Arnfríði í ræðustól.

 

slg


Myndir með frétt

Einn líkami, einn andi, ein von
  • Kirkjustarf

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Alþjóðastarf

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð