Laust starf prests

3. október 2023

Laust starf prests

Langamýri-kirkjumiðstöð í Skagafjarðarprestkalli

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Skagafjarðarprestakall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst en eigi síðar en 1. febrúar n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Skagafjarðarprestakall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi varð til hinn 1. janúar 2023 við sameiningu Glaumbæjar-, Miklabæjar-, Hofsóss- og Hóla- og Sauðárkróksprestakalls.

Þrír prestar eru í prestakallinu, tveir prestar og einn sóknarprestur.

Prestar prestakallsins hafa komið sér saman um að starf sóknarprests sé hreyfanlegt og gegni hver prestur því um tveggja ára skeið hverju sinni.

Skrifstofuaðstaða prestanna er á prestssetrinu í Glaumbæ og á safnaðarheimilinu á Sauðárkróki.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 862 4123 eða á netfangið dalla@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknar frestur er til miðnættis 16. október 2023.

Sækja ber rafrænt um starfið hér  á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.


Skagafjarðarprestakall – þarfagreining - starfssvæði

Skagafjarðarprestakall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi varð til hinn 1. janúar 2023 við sameiningu Glaumbæjar-, Miklabæjar-, Hofsóss- og Hóla- og Sauðárkróksprestakalls.

Prestsembætti eru þrjú, eitt sóknarprestsembætti og tvö prestsembætti.

Prestar hafa komið sér saman um að embætti sóknarprests sé hreyfanlegt og gegni hver prestur því um tveggja ára skeið hverju sinni.

Samsetning, þéttbýli, dreifbýli

Skagafjörður er öflugt landbúnaðarhérað með fjórum þéttbýliskjörnum, það eru Sauðárkrókur, Hofsós, Hólar og Varmahlíð.

Mannlíf er gott, auðugt félagslíf og sönglíf og möguleiki er á fjölbreyttri íþrótta- og tómstundaiðkun fyrir alla aldurshópa.

Atvinnustig er hátt og íbúum hefur á undanförnum árum farið fjölgandi.

Skagafjarðarprestakall er eitt sveitarfélag.

Ferðamannastaðir eru fjölmargir í prestakallinu og má þar nefna að kirkjustaðirnir Víðimýri, Glaumbær og Hólar eru afar fjölsóttir.

Íbúafjöldi miðað við 1. desember 2022 er 4.360, meðlimir þjóðkirkjunnar eru 3.456 og gjaldendur 2.800.

Erlendir ríkisborgarar eru um 430.

Samstarf, vinnufyrirkomulag, vaktsími

Barnastarf, sunnudagaskóli og TTT- starf fer fram á þremur stöðum á Sauðárkróki, Löngumýri og Hofsósi.

Fermingarbörn fara í Vatnaskóg og hafa prestar samvinnu um fermingarstörfin.

Þá skipta þeir með sér athöfnum og guðsþjónustum á kirkjum.

Hver prestur hefur heimsóknarþjónustu og sinnir helgihaldi fjóra mánuði á ári á HSN Sauðárkróki.

Vaktsíma skipta prestar með sér viku í senn og leysa hvern annan af í sumar- og helgarleyfum.

Prestssetur er ekki i boði.

Skrifstofuaðstaða fyrir prestana er á prestssetrinu á Glaumbæ og í safnaðarheimilinu á Sauðárkróki.

Starfsmenn, organistar, kirkjuverðir

Organistar eru fjórir í Skagafirði.

Við Sauðárkrókskirkju starfa tveir kirkjuverðir, og þar er staðsettur líkbíll sem sóknir prestakallsins keyptu saman.

Á Skagaströnd er rekin Útfaraþjónustan Hugsjón sem leita má til á Norðurlandi vestra.

Kirkjur

Kirkjur í prestakallinu eru Ketukirkja, Hvammskirkja, Sauðárkrókskirkja, Sjávarborgarkrikja, Rípurkirkja, Reynistaðarkirkja, Glaumbæjarkirkja, kapella á Löngumýri, Víðimýrarkirkja, Reykjakirkja, Mælifellskirkja, Goðdalakirkja, Ábæjarkirkja, Silfrastaðakirkja, Miklabæjarkirkja, Flugumýrarkirkja, Hofsstaðakirkja, Viðvíkurkirkja, Hóladómkirkja, bænahúsið í Gröf, Hofsóskirkja, Fellskirkja, Barðskirkja, Knappstaðakirkja.

Í Ábæjarkirkju, Knappstaðakirkju, Sjávarborgarkirkju og í bænahúsinu í Gröf er messað einu sinni á sumri.

Unnið er að endurbótum á Silfrastaðakirkju og verður ekki messað þar fyrr en að þeim loknum.

Sóknarnefndir eru 19 talsins.

Í Sauðárkrókskirkju er messað tvisvar í mánuði, á öðrum kirkjum eftir skipulagi og skipta prestar guðsþjónustum með sér.

Safnaðarheimili eru í Miklabæjarkirkju, Hofsstaðakirkju og við Sauðárkrókskirkju.

Á Löngumýri er kirkjumiðstöð, kapella, gistirými og aðstaða til fundarhalda.

Þar er forstöðumaður og starfsfólk.

Flestir prestafundir fara þar fram og eru þeir að jafnaði haldnir á þriggja vikna fresti yfir veturinn.

Stofnanir, skólar, heilsugæslustöð

Í prestakallinu er framsækið skólasamfélag, fimm leikskólar og þrír grunnskólar; Árskóli á Sauðárkróki, Varmahlíðarskóli í Varmahlíð og Grunnskólinn austan Vatna á Hofsósi og á Hólum.

Tónlistarskóli Skagafjarðar hefur aðalsetur á Sauðárkróki en hefur starfsstöðvar í öllum grunnskólum sveitarfélagsins.

Þá eru í sveitarfélaginu Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki og Háskólinn á Hólum.

Farskóli er starfræktur á Sauðárkróki.

Á Sauðárkróki er Heilbrigðisstofnun Norðurlands, HSN, og undir sama þaki er dvalarheimili aldraðra.

Sérstök þekking eða hæfni prests

Prestur þarf að hafa góða reynslu og þekkingu á starfi kirkjunnar og vera reiðubúinn að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi og helgihaldi og hafa frumkvæði að nýjungum í starfinu í góðri samvinnu við prestana sem fyrir eru, annað starfsfólk og sjálfboðaliða sem að starfinu koma.

Helstu áherslur sóknarnefnda

Sóknarnefndir vilja leggja áherslu á að nýr prestur hafi áhuga og skýran vilja til samstarfs og mæti fólki af næmni og hlýju.

Hann hafi þekkingu og reynslu af sálgæslu, sinni barna- og æskulýðsstarfi sem og þjónustu og starfi fyrir eldri borgara.

Nauðsynlegt er að viðkomandi sýni sjálfstæð vinnubrögð, hafi frumkvæði, góða samskiptahæfileika og hæfni á sem flestum sviðum þess margbreytilega starfs sem prestþjónusta í prestakallinu felur í sér.

Miklu máli skiptir að nýr prestur verði þátttakandi í samfélaginu, gleði- og sorgarstundum fólksins sem og í hversdagslegu lífi þess.

Framtíðarsýn

Sóknarnefndir sjá mikla þörf fyrir endurnýjun í starfinu, að ná til yngra fólks til að starfa í sóknarnefndum, ganga í kirkjukórana og koma í guðsþjónustur.

Brýnt er að tala Guðs orð við unga fólkið og að gera starf kirkjunnar því aðgengilegt.

Prestaköllin í Skagafirði voru sameinuð í eitt 1. janúar s.l.

Það kemur því í hlut starfandi presta að móta framtíðarsýn prestakallsins, að kirkjan verði lifandi og laði til sín fólkið í samfélaginu.

Umsóknarfrestur til 16. október 2023.


slg



  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Starf

  • Auglýsing

  • Sjálfboðaliðar

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju