Eydís Ösp vígð djákni í Hóladómkirkju

20. nóvember 2023

Eydís Ösp vígð djákni í Hóladómkirkju

Eydís Ösp nývígður djákni ásamt vígsluvottum

Eydís Ösp Eyþórsdóttir var vígð djákni í Hóladómkirkju í gær þann 19. nóvember, en þá var um leið minnst þess að 260 ár eru liðin frá vígslu kirkjunnar.

Hóladómkirkja var vígð 20. nóvember árið 1763 og er ein elsta kirkja landsins.

Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum vígði Eydísi Ösp, en þetta var fyrsta djáknavígsla hans.

Hann tók við embætti fyrir rúmu ári.

Kirkjukór Hóladómkirkju söng og organisti var Jóhann Bjarnason.

Vígsluvottar voru sr. Dalla Þórðardóttir prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, sr. Magnús Gunnarsson héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, sr. Helga Bragadóttir prestur í Glerárkirkju, sr. Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur í Dalvíkurprestakalli, sr. Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, Ragnheiður Sverrisdóttir djákni og sr. Halla Rut Stefánsdóttir sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, en hún þjónaði fyrir altari, ásamt vígslubiskupi.

Eydís Ösp hefur starfað um hríð í Glerárkirkju og heldur starfi sínu þar áfram.

Fréttaritri kirkjan.is hafði samband við Eydísi og spurði hana um hvernig dagurinn hefði gengið.

„Ég var svo heppin að vígsluvottarnir mínir voru allir lausir.

Að auki voru tveir af þremur bræðrum mínum ásamt fjölskyldum viðstaddir, foreldrar mínir, börnin mín, eiginmaður minn og tengdafjölskylda öll á staðnum.

Dagurinn var bjartur og fallegur, dálítið kaldur en kyrrt veður.

Við mættum snemma til sr. Gísla, fórum yfir daginn og athöfnina og undirbjuggum okkur þar sem þurfti.

Athöfnin var hreint út sagt yndisleg í alla staði, alveg ómetnalegt að fá að upplifa svona viðburð umkringd fólkinu mínu.

Eftir athöfnina þá var boðið í dýrindis kaffihlaðborð á Kaffi Hólar þar sem við nutum góðra veitinga og félagsskapar hvers annars.“

 

Hver verða helstu verkefni þín í Glerárkirkju?

„Mín helstu verkefni í kirkjunni eru umsjón með barnastarfi, sunnudagaskóla, fjölskyldumessum, foreldramorgnum í samstarfi við Akureyrarkirkju, æskulýðsstarfi í samstarfi við KFUM og KFUM á Akureyri auk annarra verkefna.“

Eftir nám í Valsárskóla á Svalbarðsströnd þá lá leið Eydísar á félagsfræðibraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Síðan hóf hún nám við Háskóla Íslands í félagsráðgjöf árið 2009.

Þaðan útskrifaðist hún árið 2015 með BA próf í félagsráðgjöf og viðbótardiplómu í djáknafræðum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Á námsárunum sínum starfaði hún sem stuðningsfulltrúi í Foldaskóla og sem stuðningsaðili á sambýli.

Síðan flutti hún norður í Hörgárdal og starfaði hjá KFUM og KFUK á Akureyri sem svæðisstjóri árin 2017 – 2020 en hóf svo störf í Glerárkirkju í september 2020.

Eydís Ösp Eyþórsdóttir er fædd á Akureyri þann 16. janúar árið 1986 og ólst upp á Svalbarðseyri.

Hún er gift Hjalta Steinþórssyni vélarverkfræðingi og eiga þau fjögur börn, Helenu Örnu, Arnstein Ými, Skírni Sigursvein og Jónatan Jaka.

Auk þess eiga þau hundana Skugga og Fjalla.

Þau búa í Stóra-Dunhaga í Hörgárdal.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá vígslunni og tvær fallegar loftmyndir af Hólum í Hjaltadal.

Myndirnar tóku Gunnhildur Gísladóttir, Hjalti Steinþórsson eiginmaður Eydísar og Helga Stefanía Þórsdóttir móðir hennar.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Vígsla

  • Vígslubiskup

  • Kirkjustaðir

Sr. Arna Ýrr, Kristín, sr. Aldís Rut og sr. Bryndís Malla

Tveir prestar settir í embætti

09. sep. 2024
...í Grafarvogskirkju
Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir

Sr. Þuríður Björg ráðin

04. sep. 2024
...í Hafnarfjarðarprestakall
Auglýsing- Guðný.png - mynd

Hausttónleikaröð tekur við af sumartónleikaröð

04. sep. 2024
...opnun á sýningunni Hallgrímshorfur