Samvera á aðventu fyrir syrgjendur

27. nóvember 2023

Samvera á aðventu fyrir syrgjendur

„Jólin eru um margt viðkvæmur tími þar sem áhersla er lögð á samveru með fjölskyldu og þeim sem standa fólki næst.

Það reynir á að halda jól í skugga sorgar, þegar fjölskyldumeðlim, vin eða vinkonu vantar í hópinn og söknuðurinn verður jafnvel áþreifanlegri en ella.

Áherslan á gleðina í kringum jólahátíðina getur jafnframt reynst yfirþyrmandi þegar tilfinningar sorgarinnar hafa yfirtekið dagana og lífið allt.“

segir sr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

Því hefur samvera á aðventu fyrir syrgjendur verið haldin reglulega í yfir tuttugu ár.

Að sögn sr. Guðlaugar Helgu þá má má rekja upphaf hennar til þess að heilbrigðisstarfsfólk benti yfirstjórn þjóðkirkjunnar á mikilvægi þess að styðja í aðdraganda jólahátíðar við fólk sem væri að takast á við ástvinamissi og fór þess á leit að komið yrði á fót virku stuðningsúrræði.

„Í framhaldi af því var ákveðið að bjóða til sérstakrar samveru á þessum árstíma þar sem fólk gæti fengið vettvang fyrir sorg sína.

Þjóðkirkjan og Landspítalinn hafa frá upphafi verið í hópi þeirra stofnana og félagasamtaka sem staðið hafa að samverunni“

segir sr. Guðlaug Helga.

Samveran hefur frá upphafi verið mjög vel sótt og strax á fyrstu árum hennar kom í ljós að fólk upplifði mikinn stuðning í því að safnast saman með öðrum sem voru að takast á við sambærilega reynslu.

“Í gegnum árin hefur fólk haft orð á því að það hafi verið hjálplegt að koma til kirkju áður en aðfangadagskvöld myndi ganga í garð.

Umgjörð samverunnar byggir á að öll þau sem sækja hana megi finna umhyggju, hlýju og samkennd þar sem leitast er við að skapa öruggt umhverfi og vettvang þar sem leyfilegt er að sýna tilfinningar, syrgja og sakna.

Tónlistin hefur skipað stóran sess.

Áhersla hefur verið lögð á að syngja saman jólalög og jólasálma og einnig að hlýða á fallegan tónlistarflutning en þess má geta að um árabil studdi Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur við samveruna með söng sínum.

Sérstök minningarstund er haldin þar sem fólki gefst kostur á að tendra ljós til minningar um látna ástvini sína og hugsa til þeirra.

Minningarstundin er mjög áhrifarík og birta kertaljósanna verður með einhverjum óskiljanlegum hætti svo umvefjandi og hlý"

segir sr. Guðlaug Helga að lokum.

Samveran í ár verður í Háteigskirkju þann 30. nóvember 2023 kl. 20:00.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir flytur nokkur lög við undirleik Hjartar Ingva Jóhannessonar.

Nanna Briem framkvæmdastjóri geðþjónustu Landspítala les ljóð.

Sr. Ingólfur Hartvigsson, sjúkrahúsprestur flytur hugvekju.

Kordía, kór Háteigskirkju, flytur fallega tónlist undir stjórn Erlu Rutar Káradóttur.

Kirkjugestum gefst færi á að tendra kertaljós á minningarstund.

Sr. Hjördís Perla Rafnsdóttir, sjúkrahúsprestur stýrir samverunni.

Samveran verður táknmálstúlkuð.

Léttar veitingar eftir samveruna.

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kærleiksþjónusta

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju