Aðventuhátíð á Skagaströnd og helgihald um jól

7. desember 2023

Aðventuhátíð á Skagaströnd og helgihald um jól

Hólaneskirkja

Húnavatnsprestakall er eitt þeirra prestakalla þar sem eru mjög margar sóknir.

Þann 1. maí árið 2022 voru Breiðabólsstaðarprestakall, Melstaðarprestakall, Skagastrandarprestakall og Þingeyraklaustursprestakall sameinuð í eitt prestakall, Húnavatnsprestakall.

Í prestakallinu eru 18 sóknir.

Sóknarprestur er sr. Magnús Magnússon og prestar eru þær sr. Bryndís Valbjarnardóttir og sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir.

Sr. Bryndís býr á Skagaströnd og segir hún að sameiginleg aðventuhátíð Bergsstaða-, Bólstaðarhlíðar-, Holtastaða-, Höskuldstaða-, Hofs-, og Höfðasóknar hafi verið haldin í Hólaneskirkju á Skagaströnd fyrsta sunnudag í aðventu þann 3. desember.

„Kór Hólaneskirkju söng yndisfögur jólalög, fermingarbörn báru inn ljós í kirkjuna og tendruðu á aðventukransinum.

Einnig leiddu þau okkur í fallegum bænum.

Sr. Stína Gísladóttir, pastor emerítus, sem þjónað hefur í öllum fyrrnefndum sóknum flutti hjartnæma hugleiðingu, sem viðstaddir tóku með sér út í kvöldið og geyma í huga sér“

segir sr. Bryndís.

Í ræðu sinni sagði sr. Stína meðal annars:

”Aðventa bernsku minnar var fyllt birtu, friði og eftirvæntingu.

Hvern sunnudag aðventunnar var kveikt á einu nýju kerti á aðventukransinum og mamma eða pabbi lásu sögu við kertaljós og við lærðum aðventu- og jólasálma og sungum.

Stundin var friðarstund.

Mamma var dönsk og sagði okkur ýmislegt úr æsku sinni.

Fjölskyldan bjó í litlum sveitaskóla þar sem pabbi hennar var skólastjóri.

Þar var aðventu-jólahátíð við jólatré með kertaljósum, sem hófst með því að öll skólabörnin gengu inn í salinn með logandi kerti og sungu sálm eftir Brorson:

Her kommer Jesus dine små.

Sálmurinn er um fæðingu Jesú og umfaðmandi kærleika hans og að við öll erum börn hans.

Sérstaklega hefur mér þótt vænt um erindið sem minnir á kærleikskraft skírnarinnar“

sagði sr. Stína meðal annars.


Að lokum má geta þess að sérstök aðventustund verður með níu til tíu ára börnum og tíu til tólf ára börnum í Hólaneskirkju í dag, þann 7. desember Kl. 16.00.

Aðventuhátíð verður síðan á Dvalarheimilinu Sæborg þann 13. desember klukkan 19:30.

Einnig verður þar sunnudagaskóli þann 17. desember klukkan 14:00.

Helgihald um jólahátíðina verður í Hólaneskirkju á aðfangadag klukkan 17:00 og í Hofskirkju á jóladag klukkan 14:00.

Síðan verður sú nýbreytni að það verður helgistund í Húnaveri þann 27. desember klukkan 14:30 og í framhaldi af því verður jólaball.

 

slg



Myndir með frétt

  • Eldri borgarar

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Barnastarf

477730743_3904126276524324_423667161409772734_n.jpg - mynd

Gleðilega páska

20. apr. 2025
Þjóðkirkjan óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Sr. Sigurður Jónsson

Sr. Sigurður Jónsson valinn sóknarprestur

19. apr. 2025
...í Laugardalsprestakalli
Sr. Jón Ómar

Sr. Jón Ómar ráðinn

16. apr. 2025
...prestur við Neskirkju