Prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík

11. desember 2023

Prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík

Biskup ásamt vígsluþega og vígsluvottum-mynd Pétur Markan

Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir vígði í gær, annan sunnudag í aðventu, sr. Laufeyju Brá Jónsdóttur til Setbergsprestakalls í Vesturlandsprófastsdæmi.

Vígsluvottar voru dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, sr. Gunnar Hauksson prófastur í Vestulandsprófastsdæmi, sr. Sigurður Arnarson sóknarprestur í Kársnesprestakalli og sr. Elínborg Sturludóttir prestur í Dómkirkjunni í Reykjavík, en hún þjónaði fyrir altari ásamt biskupi Íslands.

Laufey Brá Jónsdóttir er fædd í Hafnarfirði þann 22. júlí árið 1972.

Hún er menntuð leikkona frá Leiklistarskóla Íslands.

Þá hefur hún einnig meistaragráðu í mannauðsstjórnun og er menntuð markþjálfi auk guðfræðimenntunarinnar.

Síðustu sex ár hefur hún unnið sem ráðgjafi í Kvennaathvarfinu.

Einnig hefur hún unnið sem leikkona á sviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi.

Hún hefur unnið sem leikstjóri og umsjónarkennari, hún hefur skrifað efni fyrir Biskupsstofu og unnið með atvinnuleitendum í hruninu svo eitthvað sé nefnt.

Maður hennar er Jón Ingi Hákonarsson.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Laufeyju Brá nú í morgunsárið og spurði hana um upplifun gærdagsins:

„Þessi dagur var svo stórkoslegur að hann er ólýsanlegur“ sagði hún.

"Þvíík gæfa og þvílíkt ríkidæmi að líta yfir fulla Dómkirkjuna og sjá fólkið mitt, að finna fyrir öllum kærleikanum sem streymdi um kirkjuna á þessari helgu stund, hann var svo sannarlega með okkur.

Ég var með sömu tilfinningu í brjósti og þegar að ég fermdist, sú tilfinning að játast frelsara mínum.

Orðin sem ég mun bera með mér frá vígslunni minni og inn í starfið eru orð frú Agnesar M. Sigurðardóttur þegar hún sagði:

„ við hjálpum ekki fólki af því að það er kristið, við hjálpum fólki vegna þess að við erum kristin“

sem er mesti sannleikur og viska sem að ég hef heyrt.

Ég hlakka til að þjóna í Grundarfirði.

Ég finn fyrir svo miklum velvilja í garð kirkjunnar hjá fólkinu þar, sem ég hlakka til að kynnast og verða hluti af samfélaginu.

Hjarta mitt er barmafullt af auðmýkt, gleði, ljósi og kærleika á þessari stundu“

sagði sr. Laufey Brá Jónsdóttir.


slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Vígsla

  • Biskup

Lágafellskirkja

Barnakór Lágafellskirkju tekur virkan þátt í samfélaginu

26. feb. 2024
....eldri- og yngri barnakór
Kvennakór Ísafjarðar

Kirkjan heldur upp á konudaginn

26. feb. 2024
....sérstök konudagsmessa í Ísafjarðarkirkju