Prófastafundur í Grensáskirkju

18. janúar 2024

Prófastafundur í Grensáskirkju

Prófastafundur var haldinn í Grensáskirkju 16.-17. janúar.

Biskup Íslands kallar prófasta landsins til fundar einu sinni á ári, nú hin síðari ár í janúar.

Á þann fund mæta einnig vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum.

Prófastar landsins eru níu talsins, sex í Skálholtsumdæmi og þrír í Hólaumdæmi.

Samkvæmt starfsreglum um prófasta hafa prófastar í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæmunum, embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda.

Þau eru tilsjónarmenn og ráðgjafar þessara aðila.

Prófastar sjá til þess að sóknarbörn njóti þeirrar prestsþjónustu sem þeim ber.

Þau skipuleggja afleysingaþjónustu vegna vikulegs frídags, skammvinnra veikinda og sumarleyfa presta í prófastsdæmunum.

Þau annast um viðveruskyldu og skipulag bakvakta, m.a. í ljósi viðbragðsáætlunar kirkjunnar við hópslysum.

Prófastarnir eru trúnaðarmenn biskups og ráðgjafar í kirkjulegum málum.

Þau fylgjast með því að réttur kirkjunnar sé virtur í hvívetna og eru, sem fulltrúar biskups Íslands í prófastsdæmunum, leiðtogar og verkstjórar vígðra þjóna í prófastsdæmunum.

Prófastar fylgja eftir stefnumörkun og samþykktum kirkjuþings er varðar kirkjulegt starf í prófastsdæmunum.

Prófastar eru í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni þess, gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.

Próföstunum er skylt að mæta á árlegan prófastafund er biskup Íslands boðar.

Í upphafi fundarins þriðjudaginn 16. janúar ræddi biskup Íslands við prófasta sína um það sem efst hefur verið á baugi í kirkjunni frá síðasta prófastafundi og skerpti á hluverki prófasta.

Þá var rætt um kirkjutónlistarmál og söngmálastjóri þjóðkirkjunnar mætti á fundinn til að ræða þau mál.

Víða út um land vantar organista og var meðal annars rætt um hvernig má bregðast við þeirri stöðu.

Þá gáfu prófastarnir og vígslubiskuparnir skýrslu um það sem efst hefur verið á baugi í prófastsdæmunum og biskupsdæmunum.

Þá var rætt um viðbragðaáætlun þjóðkirkjunnar og námskeið fyrir sóknarnefndir á netinu var kynnt.

Viðbragðsáætlunin var kynnt af Ástu Ágústsdóttur formanni hópslysanefndar og djákna í Kársnesprestakalli.

Sr. Stefán Már Gunnlaugsson héraðsprestur í Kjalarnesprófastsdæmi kynnti fyrir próföstum könnun sem lögð hefur verið fyrir foreldra fermingarbarna í Kjalarnesprófastsdæmi.

Þá voru til umræðu mál frá kirkjuþingi er snerta prófasta og störf þeirra.

Að lokum sagði Pétur Markan biskupsritari frá fyrirhuguðum Kirkjudögum sem haldnir verða í Reykjavík í lok ágúst.

Skipulag kynningarfunda fyrir komandi biskupskosningar var rætt og verða kynningarfundir í hverju prófastsdæmi eins og var fyrir síðustu biskupskosningar.

 

slg


  • Fundur

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Vígslubiskup

  • Biskup

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð