Fjölbreytt tónleikaröð framundan

26. janúar 2024

Fjölbreytt tónleikaröð framundan

Fjölbreytt tónleikadagsskrá verður á vegum Hallgrímskirkju í Reykjavík fram á vor undir yfirskriftinni Hallgrímskirkja tónleikar vetur og vor 2024.

Tónleikaröðin hefst sunnudaginn 28. janúar kl. 17:00 með tónleikum í samstarfi við Myrka Músíkdaga þar sem sönghópurinn Cantoque ensemble flytur efnisskrá helgaða kórtónlist Þorkels Sigurbjörnssonar.

Stjórnandi á tónleikunum er Steinar Logi Helgason.

Sjá nánar um Cantoque emsemble og Þorkel sigurbjörnsson tónskáld hér fyrir neðan.

Á hádegistónleikum laugardaginn 3. febrúar kl. 12:00 verða Fjölskyldutónleikar í samstarfi við Orgelkrakka.

Flytjendur eru þær Guðný Einarsdóttir söngmálstjóri þjóðkirkjunnar og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti á Akureyri auk orgelnemenda.

Á hádegistónleikum laugardaginn 2. mars kl. 12:00 flytur Steinar Logi Helgason organisti og kórstjóri við Hallgrímskirkju efnisskrá tengda föstunni eftir Johann Sebastian Bach, Olivier Messiaen og César Franck.

Á Boðunardegi Maríu sunnudaginn 17. mars kl. 17:00 verður sunginn aftansöngur þar sem Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju flytur Ave Maris Stella eftir franska barokktónskáldið Nicolas De Grigny ásamt sönghópnum Cantores Islandiae sem syngja Gregorska hymnan Ave Maris Stella.

Á pálmasunnudag þann 24. mars kl. 17:00 heldur Kór Hallgrímskirkju föstutónleika undir yfirskriftinni Tenebrae Factae Sunt.

Þar hljóma meðal annars verk eftir Poulenc, Messiaen, Pärt, Tavener, Gesualdo og Mäntyjärvi.

Einnig verða frumflutt ný verk eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur og Finn Karlsson sem samin voru sérstaklega fyrir Kór Hallgrímskirkju.

Í dymbilviku laugardaginn 30. mars kl. 17:00 verður flutt Stabat Mater eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt.

Flytjendur eru Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Guja Sandholt messósópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari, Martin Frewer lágfiðluleikari, Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari og Ragnheiður Ingunn Jónsdóttir stjórnandi.

Auk Stabat Mater flytur hópurinn verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Elínu Gunnlaugsdóttur og Tryggva M. Baldvinsson.

Á hádegistónleikum laugardaginn 6. apríl kl. 12:00 koma fram þær Erla Rut Káradóttir organisti Háteigskirkju í Reykjavík og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran.

Sunnudaginn 14. apríl kl. 17:00 verða kórtónleikar þar sem sönghópurinn Hljómeyki fagnar 50 ára starfsafmæli.

Á tónleikunum flytja þau verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir kórinn í gegnum tíðina.

Stjórnandi kórsins er Erla Rut Káradóttir.Á vef Hallgrímskirkju segir meðal annars að „Cantoque Ensemble sé átta til tólf radda atvinnusönghópur sem inniheldur marga af bestu söngvurum landsins, bæði á sviði snemmtónlistar, nútímatónlistar og óperu.

Meðlimir hópsins hafa margir hverjir sungið hlutverk á sviði Íslensku óperunnar og víðar, sungið með hljómsveitum víða um heim og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng sinn.

Cantoque Ensemble var stofnað árið 2017 út frá samstarfi við barokk-hljómsveitirnar Höör Barock og Camerata Öresund þegar þær voru með tónleika á Íslandi, Danmörku og í Svíþjóð.

Tónleikarnir hlutu tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónlistarviðburður ársins 2017.

Árið 2019 hófst samstarf Cantoque Ensemble við Steinar Loga Helgason.

Fyrsta verkefnið með honum var að flytja Jóhannesarpassíu J. S. Bach ásamt Barokkbandinu Brák.“

Þorkell Sigurbjörnsson er eitt af höfuðtónskáldum Íslands.

Verkasafn hans telur vel yfir 300 tónverk og hafa mörg þeirra verið hljóðrituð og gefin út.

Verkasafn Þorkels er afar fjölbreytt en hann samdi hljómsveitarverk, kammerverk, einleikskonserta, barnaóperur, kammeróperu, raf- og tölvutónlist ásamt fjölda kórverka og sálmalaga.

Þorkell nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem tónsmíðar urðu hans aðalnámsgrein.

Þorkell stundaði nám við tónlistardeildir Hameline-háskólans í Minnesota og Illinois-háskóla.

Auk þess sótti hann námskeið í tónsmíðum í Darmstadt í Þýskalandi og Nice í Frakklandi.

Þorkell kom margoft fram sem píanóleikari og var mikilsvirtur kennari, tónlistargagnrýnandi og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu um árabil.

Þorkell var einnig ötull í félagsstörfum; var formaður Tónskáldafélags Íslands um árabil, formaður Musica Nova 1964-67 og forseti Bandalags íslenskra listamanna 1982-86.

Árið 1968 stofnaði hann Íslenska tónverkamiðstöð ásamt fleiri tónskáldum og var stjórnarformaður frá stofnun hennar til ársins 1981.

Þorkell sat í stjórn STEFs um árabil og var einnig framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Listahátíðar í Reykjavík um skeið.

Þorkell var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Hameline-háskólann árið 1999 og var meðlimur Konunglegu sænsku akademíunnar.

 

slg  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

Barnakór 2.png - mynd

Barnakór Fossvogs í Bústaðakirkju með nýju sniði

27. feb. 2024
.....í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs
Lágafellskirkja

Barnakór Lágafellskirkju tekur virkan þátt í samfélaginu

26. feb. 2024
....eldri- og yngri barnakór