Vel heppnaður kirkjudagur í Kjalarnessprófastsdæmi

29. janúar 2024

Vel heppnaður kirkjudagur í Kjalarnessprófastsdæmi

Frá kirkjudegi í Keflavíkurkirkju

Kirkjudagur Kjalarnessprófastsdæmis var haldinn í fyrsta skiptið nú á laugardaginn þann 27. janúar í Keflavíkurkirkju.

Markmið Kirkjudagsins var að efla starfsfólk og sjálfboðaliða í störfum sínum á vettvangi safnaða prófastsdæmisins með fræðslu, kynningu og samfélagi.

Um leið að auka samvinnu og stuðla að nýsköpun í kirkjustarfi.

Á dagskrá kirkjudagsins voru málstofur, fyrirlestur, messa og móttaka ásamt því að fjölmargir aðilar kynntu starfsemi sína.

Dagskráin var þátttakendum að kostnaðarlausu.

Í kynningarbæklingi um kirkjudaginn segir sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnessprófastsdæmis meðal annars:

„Við vorum minnt á það í nýársávarpi dr. Önnu Burghardt framkvæmdastjóra Lútherska Heimssambandsins hvert erindi okkar í kirkjunni er, en þar vitnaði hún í Fyrra Korintubréf 16:14 þar sem segir ,,auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið”.

Kirkjan og erindi hennar hefur ekki breyst í aldanna rás þó að starfsumhverfi hennar hafi vissulega breyst í gegnum tíðina.

Til þess að brýna okkur í þessu hlutverki okkar sem kirkju komum við saman og lærum af hvort öðru og uppbyggjumst í trú og samfélaginu við hvert annað.“

Kirkjudagurinn hófst með morgunkaffi og síðan var helgistund.

Þá var kynnt aðgerðaráætlun um að efla kynningu á starfi kirkjunnar.

Þrjár málstofur voru á kirkjudeginum.

Í þeirri fyrstu kynnti Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar nýju sálmabókina, sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og sr. Bolli Pétur Bollason, prestur í Ástjarnarprestakalli leiddu umræður um að mæta fólki í erfiðleikum og áföllum.

Var sú málstofa með hagnýtum leiðbeiningum um hvernig við mætum fólki á erfiðum stundum í lífinu.

Sr. Laufey Brá Jónsdóttir, leikkona og sóknarprestur í Setbergsprestakalli var með kirkjuhópefli og ræddi hún um það hvernig hægt sé að nota kirkjuhúsið sem stað fyrir hópefli og dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademias ræddi um hvernig hægt er að efla teymisvinnu í sóknarnefndum sem byggir á sameiginlegum skilningi á nefndarstarfinu og hlutverki sóknarnefndarfólks.


Í annarri málstofunni var Guðný Einarsdóttir, söngmálastjóri með nýja íslenska sálma og raddsetningu.

Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson og sr. Aldís Rut Gísldóttir, prestur í Hafnarfjarðarkirkju ræddu um sálgæslu barna og unglinga.

Sr. Laufey Brá Jónsdóttir ræddi um hvernig við förum með texta og kenndi æfingar og aðferðir sem fá textann til að lifna við í flutningi hvers og eins.

Loks var fjallað almennt um kirkjugarða.

Umsjón með því höfðu Smári Sigurðsson, formaður Kirkjugarðsambands Íslands, og Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs.

Í þriðju málstofunni var messa undirbúin og sálmar æfðir í umsjá Guðnýjar Einarsdóttur.

Þá ræddu sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sr. Bolli Pétur Bollason og sr. Aldís Rut Gísldóttir um verkefni sorgarinnar.

Þá var rætt um markaðssókn í kirkjustarfi – fjárfesting eða sóun?

Fjallað var um mögulegar leiðir í kynningarmálum.

Umsjón með þessu hafði Leópold Sveinsson, framkvæmdarstjóri Garðasóknar og fyrrum ráðgjafi á markaðs- og auglýsingastofum.

Auk málstofanna var á kirkjudeginum haldinn einn fyrirlestur.

Bar hann yfirskriftina: Jákvæð og hvetjandi samskipti.

Pálmar Ragnarsson, fyrirlesari og körfuboltaþjálfari fjallaði á skemmtilegan hátt um það hvernig við getum náð því besta úr fólkinu í kringum okkur með góðum samskiptum.

Á kirkjudeginum voru einnig fjölbreyttir kynningarbásar.

Kynnt var Akademías, vettvangur fyrir menntun og þjálfun framtíðarinnar, Hjálparstarf kirkjunnar, KFUM og KFUK, Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi, Svæðisstjóri æskulýðsmála, Vinavoðir,sem er hópur sem hittist og prjónar/heklar bænasjöl og trefla, Þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar og þá aðallega hlutverk fræðslusviðs, ÆSKÞ og ÆSKH.

Kirkjudeginum lauk með messu og móttöku í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju.


slg


Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Ráðstefna

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónlist

  • Æskulýðsmál

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall