Ánægjuleg samvera fyrir fermingarbörn og foreldra

7. febrúar 2024

Ánægjuleg samvera fyrir fermingarbörn og foreldra

Fermingarmyndir af sr. Sigríði Rún og Berglindi.

Síðast liðið mánudagskvöld var mikill viðburður í Egilsstaðakirkju, þegar öll fermingarbörn á Héraði komu saman ásamt foreldrum á fræðslukvöldi.

Á dagskránni var að hrista hópinn saman núna á seinni helmingi fermingarfræðslunnar, syngja saman og draga fram höfuðpunkta í því sem krakkarnir upplifa, reyna og læra í fræðslunni.

Sr. Þorgeir Arason sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli ræddi við hópinn um hvernig messan og samfélagið í kirkjunni er lykilatriði í kristinni trú til að viðhalda og næra hvert annað.

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur í sama prestakalli segir að „farið hafi verið í snöggkeppni í að finna öll "B orðin" sem tengjast messunni og þau reyndust jafnvel fleiri en við héldum.

Komu fermingarbörnin mjög sterk inn í tilnefningum eins og: Biblían, boðorðin, baðið, borðið, bænin, breyting, birta, - og Bella sem er uppáhalds fræðarinn!“

Þar vísar sr. Kristín Þórunn til Berglindar Hönnudóttur sem er svæðisstjóri æskulýðsmála á Austur- og Suðurlandi.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir prestur í Egilsstaðaprestakalli og prófastur í Austurlandsprófastsdæmi talaði um tengsl skírnarinnar við ferminguna, hvað væri líkt og hvað væri ólíkt.

Sr. Sigríður Rún sagði að „í skírninni séu foreldrarnir að velja það besta sem þau vita fyrir börnin sín, því þeirra hlutverk er að leiðbeina og nesta.

Boðskapur kristinnar trúar er besta veganestið sem ég get hugsað mér“ sagði hún og bætti við

„í fermingunni er komið að ykkur að velja að þið viljið fylgja gildum kærleikans og virðingar fyrir hvert öðru, og fá að vera viss um að Guð stendur með ykkur í öllum aðstæðum lífsins".

Þar að auki deildu þær Bella og Sigríður Rún fermingarmyndum af sér sjálfum - sem hafa elst býsna vel!

Að lokum var allri kirkjunni skipt upp í ellefu vinnuhópa þar sem unnið var með klípusögur úr AHA - námsefninu, sem hefur reynst afar vel til að hvetja til samtals og íhugunar um aðstæður lífsins út frá kristinni trú.

Og sr. Kristín Þórunn segir að lokum:

„Samvera sem þessi hefur verið fastur liður í safnaðarstarfinu á Héraði og í undirbúningi ferminganna.

Sú hefð hefur skapast að í stað þess að kaupa utanaðkomandi sérfræðinga á sínu sviði, hefur stundin verið notuð til að halda á djúpið í fermingarfræðslunni sjálfri og það sem snýr að kirkju- og trúarlífi.

Það reynist nefnilega vel að halda sig við það erindi, og virkar vel á fjölskyldurnar, sem kunna að meta það einstaka tækifæri að upplifa í sameiningu það sem fermingarkrakkarnir eru að fást við og njóta samveru í gefandi umhverfi.

 

slg


  • Biblían

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Æskulýðsmál

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall