Hádegisfyrirlestrar í Hallgrímskirkju í Reykjavík

12. febrúar 2024

Hádegisfyrirlestrar í Hallgrímskirkju í Reykjavík

Vetrarmynd af Hallgrímskirkju í Reykjavík

Nú standa yfir hádegisfyrirlestrar í Hallgrímskirkju.

Efnið næstu þriðjudaga er um Hallgrímur Pétursson.

Á morgun, þriðjudaginn 13. febrúar verður fyrirlestur Þorsteins Helgasonar fyrrum prófessors sem hann nefnir Kirkjuvit barna í bréfaskóla Hallgríms Péturssonar.

Í kynningu á erindinu segir:

Á sautjándu öld voru prentaðar bækur til að mennta börn og ungmenni, einkum katekismar sem fjölluðu um undirstöðuatriði kristindómsins.

Miðlun á fræðslu og skemmtun fór hins vegar fram í miklum mæli á annan hátt, einkum munnlega og í söng í kirkju og heimahúsum.

Henni til stuðnings voru handskrifaðir textar sem gengu manna á meðal og voru afritaðir og lærðir utan að og sungnir þar sem margir voru í bundnu máli.

Fátt hefur varðveist af slíkum blöðum enda nytjaefni sem eyddist og týndist.

Eitt gat forðað þeim frá glatkistunni, að textarnir væru eignaðir nafnkunnum mönnum.

Svo er með fræðsluljóðið Kirkjuvit barna sem hefur víðast fyrirsögnina „Barnaspurningar um kirkjusiði og seremoníur ungdóminum til fróðleiks og öðrum einföldum“.

Ljóðið er nytjatexti handa afmörkuðum hópi eins og segir í lokin í sumum afritum:

„Sendi ég stökurnar sóknarfólki mínu.“

Þetta ljóð er víðast talið eftir Hallgrím Pétursson en í viðbæti við Postillusálma séra Jóns Magnússonar í Laufási segir skrifarinn, Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, fullum fetum að það sé eftir Jón.

Viðfangsefni fræðsluljóðsins er kirkjan, hvaða hlutverki hún gegnir, hvað altari og kerti hafa að gera í kirkju, hvaða siðir og reglur eru viðhafðar, hvernig hvíldardagurinn kom til, hvaða hátíðisdagar eru haldnir og af hvaða ástæðu, hvaða söngvar eru sungnir í messu, hvað laglaus eiga að gera þegar sungið er og margt fleira.

Formáli og eftirmáli virðist stílaðir á fullorðið fólk en meginmálið, í spurningum og svörum, er ætlað börnum.

Kvæðið er fræðsla sem ekki gerir skýlausa kröfu um bóklæsi heldur ósk um að nema bundinn texta og líklega helst í söng:

„Kynntu þér utanbókar kórsönginn væna…“

Kvæðið vekur spurningar um inntak læsis, um framsetningu námsefnis, um trúarlegan og uppeldislegan boðskap og lýsingar í ljóðinu, um stöðu þess sem bókmennta og höfundarverk, um fyrirmyndir og hliðstæður og um samspil hins munnlega, skrifaða, prentaða og sungna.

Kvæðið má lesa hér.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Fræðsla

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall