Minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju

12. febrúar 2024

Minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju

Sr. Jónína kveikir á kertum

Minningarstund var haldin í Hafnarfjarðarkirkju í gær, sunnudaginn 11. febrúar.

Þá var þess minnst að 65 ár eru liðin frá hrinu sjóslysa í óveðurstíð sem gekk yfir dagana 30. janúar til 18. febrúar 1959.

Þá fórust alls fjögur skip frá fjórum löndum, Íslandi þar á meðal, í miklu óveðri sem þá gekk yfir.

Þrjú skipanna fórust nærri Grænlandi.

Sérstaklega var því haldið til haga í minningarguðsþjónustunni að 8. eða 9. febrúar fórst Júlí, togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, með 30 mönnum svo eftir stóðu 39 börn föðurlaus.

Við minningarguðsþjónustuna í Hafnarfjarðarkirkju flutti herra Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarp og frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands flutti hugleiðingu.

Prestar kirkjunnar, þær sr. Jónína Ólafsdóttir og sr. Aldís Rut Gísladóttir lásu upp nöfn allra þeirra 30 sem fórust með Júlí, allra þeirra 12 sem fórust með vitaskipinu Hermóði og tendruðu ljós fyrir hvern þeirra.

Sr. Sighvatur Karlsson flutti sjóferðarbæn sr. Odds. V. Gíslasonar.

Viðstaddir athöfnina voru einnig sendiherra Danmerkur, fulltrúi í sendiráði Kanada, sendifulltrúi Grænlands og sendifulltrúi Færeyja.

Þá voru viðstödd hvött til að hugsa hlýlega til þeirra tveggja sjómanna sem fórust í síðustu viku með Færeyska línubátnum Kambi.

Eftir minningarguðsþjónustuna opnaði Magnús Gunnarsson formaður sóknarnefndar formlega tvíþætta sýningu í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Annars vegar þar sem fjölskyldutré sjómannanna sem fórust með Júlí eru gerð skil, en það er tekið saman og unnið af sr. Þorvaldi Karli Helgasyni og hins vegar um sjóslysin, veðrið og aðstæðurnar þegar skipin fórust en sá hluti er unnin af Agli Þórðarsyni, loftskeytamanni.

Aðaláherslan þar er á togarann Júlí en hinum skipunum eru einnig gerð skil.

Að sögn sr. Jónínu Ólafsdóttur sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju þá var atburðarásin þessa dimmu daga snemma árs 1959 þannig að 30. janúar fórst Grænlandsfarið Hans Hedtoft með 95 manns.

Það var flutningaskip sem sérstaklega var byggt til að rjúfa vetrareinangrun Grænlands.

Skipið var í jómfrúarferð sinni og lagði í haf frá Julianehaab á Grænlandi 29. janúar.

Á öðrum degi siglingarinnar rakst skipið á ísjaka austur af Hvarfi og sökk.

Um borð var 40 manna áhöfn og 55 farþegar, Danir og Grænlendingar, þar á meðal fimm börn og níu konur.

Neyðarkall barst frá Hans Hedtoft síðdegis 29. janúar og um stund hélst samband við þýskan togara.

Það rofnaði og þar með var skipið horfið, nema hvað bjarghringur frá Grænlandsfarinu rak á land við Hraun, skammt vestan við Grindavík, nokkrum mánuðum síðar.

Þann 9. febrúar fórst togari frá Nýfundnalandi, Blue Wave, með 16 mönnum.

Þann sama dag fórst Júlí GK með 30 mönnum.

Þessu ótengt er svo fjórða slysið.

Það varð 18. febrúar, en þá fórst vitaskipið Hermóður úti af Stafnesi með 12 mönnum.

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Biskup

Lágafellskirkja

Barnakór Lágafellskirkju tekur virkan þátt í samfélaginu

26. feb. 2024
....eldri- og yngri barnakór
Kvennakór Ísafjarðar

Kirkjan heldur upp á konudaginn

26. feb. 2024
....sérstök konudagsmessa í Ísafjarðarkirkju