Kirkjan heldur upp á konudaginn

26. febrúar 2024

Kirkjan heldur upp á konudaginn

Kvennakór Ísafjarðar

Konudagurinn var í gær við upphaf Góu.

Þá hafa margir þann sið að gleðja konur á hvern þann hátt sem þeim líkar best.

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að sérstakar konudagsmessur eru haldnar í kirkjum landsins.

Í útvarpsguðsþjónustu gærdagsins, sem var frá Vídalínskirkju, var stundin helguð deginum þar sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikkona sá um hugleiðingu og sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli þjónaði fyrir altari.

Konudagurinn var líka haldinn hátíðlegur í Ísafjarðarkirkju.

Að sögn sr. Magnúsar Erlingssonar, sóknarprests í Ísafjarðarprestakalli og prófasts í Vestfjarðaprófastsdæmi þá var

„öll tónlistin í messunni samin af konum og flutt af konum.

Judith Pamela Tobin organisti Ísafjarðarkirkju lék tónlist eftir Maríu Theresu von Paradis og Monicu Dominique.

Kór Ísafjarðarkirkju söng sálma eftir þær Margréti Scheving, Ragnheiði Gröndal, Báru Grímsdóttur og Kristínu Ernu Blöndal.

Kvennakór Ísafjarðar fluttu tvö sönglög, sem heimakonur sömdu.

Þær sungu “María meyjan skæra” eftir Rúnu Esradóttur og “Um vor” eftir Svanhildi Garðarsdóttir.

Stjórnandi Kvennakórsins er Bergþór Pálsson skólastjóri Tónlistaskóla Ísafjarðar.

Dr. Catherine Chambers, sem kennir við Háskólasetur Vestfjarða, var með hugleiðingu um stöðu kvenna, víðsýni og mikilvægi þess að vinna saman.

Catherine flutti hugvekjuna á íslensku en hún hefur átt heima á Ísafirði undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni.

Eftir messuna var boðið upp á kaffi og kökur í safnaðarheimilinu, en sóknarpresturinn hafði skorað á karlana í söfuðinum að baka fyrir konurnar.

Tóku allmargir karlar áskoruninni og var messukaffið hið veglegasta.

Tveir karlar tóku sig meira að segja til og lögðu litlar greinar ofan á útbreiddar servíettur, sem voru á hverju borði.

Kirkjuvörðurinn, hún Matthildur Ásta Hauksdóttir hellti upp á gott kaffi en hún er einnig grafari og kirkjugarðsvörður Ísfirðinga“

sagði sr. Magnús að lokum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall