Æskulýðsdagurinn haldinn hátíðlegur um allt land

4. mars 2024

Æskulýðsdagurinn haldinn hátíðlegur um allt land

Altari Dalvíkurkirkju

Æskulýðsdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í kirkjum landsins síðan 1959 og er með miklum glæsibrag víða um land.

Mikil undirbúningsvinna er víða með fermingarbörnum, krökkum úr TTT starfi, unglingastarfi og með unglinga- og barnakórum.

Æskulýðsdagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land í gær sunnudaginn 3. mars, en hann er að öllu jöfnu haldinn fyrsta sunnudaginn í mars.

Á samfélagsmiðlum er víða sagt frá hátíðahöldunum.

Sr. Erla Björk Jónsdóttir prestur í Dalvíkurprestakalli segir að fermingarbörnin á Dalvík hafi leitt fjölskyldumessu morgunsins.

“Ég er svo stolt af þeim og þessari stund sem var algerlega frábær.

Gísli Rúnar Gylfason sem er pabbi einnar fermingarstúlkunnar greip í gítarinn og rifjaði upp gamla takta sem æskulýðsleiðtogi sjálfur og Lára Ósk Hlynsdóttir söng eins og engill að venju“

segir sr. Erla Björk.


Fjölmenni var í æskulýðsguðsþjónustu í Neskirkju í Reykjavík í gær.

Stúlknakór kirkjunnar fór á kostum undir stjórn organistans Steingríms Þórhallssonar og leiðtogarnir í barna- og æskulýðsstarfinu stóðu sig með miklum sóma.

Æskulýðsdagurinn var einnig haldinn hátíðlegur í Bústaðakirkju í Reykjavík.

Börn og æskulýður voru í fyrirrúmi í allri dagskrá dagsins.

Klukkan 11:00 fór fram hefðbundin barnamessa, með barnasálmunum, bænum, leik og gleði.

Fermingarbörnin aðstoðuðu og séra Eva Björk Valdimarsdóttir prestur í Fossvogsprestakalli leiddi stundina ásamt leiðtogum.

Jónas Þórir lék á flygil.

Klukkan 13:00 lék Skólahljómsveit Austurbæjar nokkur lög, undir stjórn Snorra Heimissonar.

Barnakór Fossvogs söng undir stjórn Auðar Guðjohnsens og Sævars Helga Jóhannssonar.

Ketill Ágústsson söng lag Bubba Morthens, Þessi fallegi dagur, og lék sjálfur undir á gítar.

Svo leiddi hann einnig sunnudagaskólalögin, ásamt Jónasi Þóri.

Fermingarbörnin lásu ritningarlestra og bænir, sem þau höfðu undirbúið sjálf.

Bænarefni og bænir voru gerðar í fermingarfræðslutímanum í liðinni viku.

Sr. Eva Björk flutti hugvekju og þjónaði ásamt messuþjónum, fermingarbörnum og leiðtogum.

 

Á sunnudaginn var æskulýðsdagurinn haldinn hátíðlegur í Garða- og Saurbæjarprestakalli.

Tvær messur og sunnudagaskóli voru þann dag.

Önnur messan var í Leirárkirkju kl. 11:00 og hin í Vinaminni kl. 20:00.

Sunnudagaskólinn var einnig á sínum stað í Akraneskirkju kl. 11:00, en umsjón með honum hafa Aníta Eir og Jóhanna Elísa.

Messan í Leirárkirkju var kl. 11:00.

Kór Saurbæjarprestakalls söng og sr. Þóra Björg Sigurðardóttir prestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli þjónaði.

Kirkjukaffi var að messu lokinni.

Æskulýðsmessa var síðan í Vinaminni kl. 20:00.

Þar lásu fermingarbörn bænir, Idol-stjörnurnar Björgvin og Jóna Margrét sungu, Kór Akraneskirkju söng og sr. Þóra Björg þjónaði.

Þess má geta að lokum að miklu fleiri kirkjur héldu daginn hátíðlegan og má sjá bæði fréttir og myndir af þeim viðburðum á heimsíðum kirknanna og á samfélagsmiðlum.

 

slg




  • Barnastarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju