Kirkjuleiðangur á æskulýðsdegi

5. mars 2024

Kirkjuleiðangur á æskulýðsdegi

Æskulýðsdagurinn í Lágfellskirkju

Eins og sagt var frá á kirkjan.is í gær þá var Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar haldinn hátíðlegur víða um land sunnudaginn 3. mars.

Anna Elísabet Gestsdóttir djákni og svæðisstjóri æskulýðsmála í Reykjvaíkurprófastsdæmum eystra og vestra og Kjalarnedprófastsdæmi lagði land undir fót á æskulýðsdaginn og vildi reyna að minnsta kosti að ná að hlusta á eða vera í guðsþjónustum í öllum þremur prófastsdæmunum, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og vestra og Kjalarnessprófastsdæmi og það tókst!

Þema dagsins var Hendur Guðs á jörðu.

Það er að sögn Önnu Elísabetar metnaðarfullt og fallegt verkefni unnið af Kristnýju Rós Gústafsdóttur djákna og sr. Aldísi Rut Gísladóttur presti í Hafnarfjarðarkirkju.

„Það skein í gegn um guðsþjónusturnar“ segir Anna Elísabet.

„Frásagan af því hvernig Miriam, systir Móses náði að tengja fjölskyldu sína við dóttur hins grimma faraós, mikilvægi skírnarinnar og traustið á trú, von og kærleika voru gerð góð skil á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í ár“ segir Anna Elísabet og heldur ferðasögunni áfram:

„Árbæjarkirkja var fyrsti áfangastaðurinn og þar var full kirkja af fjölskyldum barna og fermingarbarna.

Yngri barna starfið var með leikþátt um Miriam, Rebbi og Mýsla voru á sínum stað og fræddu okkur um mikilvægi skírnarinnar fyrir okkur, sem eru kristin.

Hildur María Torfadóttir nýkrýndur sigurvegari fyrir hönd Frístundamiðstöðvarinnar Brúarinnar, og verður fulltrúi hennar á Samfés, söng einsöng.

Messan var fimlega leidd af Ingunni Björk Jónsdóttur djákna og sr. Þór Haukssyni sóknarpresti í Árbæjarprestakalli.

Eftir guðsþjónustuna var boðið upp á smiðjur, þar sem hægt var að búa til sínar eigin lyklakippur með myndum, sem minntu á mikilvægi kærleikans og fleira föndur.

Því var einnig hvíslað að mér að síðustu kirkjugestirnir fóru um kl. 14:30, þar sem fólk átti gæðastundir með sinni eigin fjölskyldu í samfélagi við aðrar fjölskyldur.

Hversu dýrmætt er það?“

spyr Anna Elísabet og segir að þetta hafi verið skemmtileg samvera í alla staði í Árbæjarkirkju.

Og áfram heldur ferðasagan:

„Næst lá leiðin upp í Lágafellskirkju og við tók hópur af börnum, sem voru að ljúka námskeiði í Æði-flæði.

Allt iðaði af gleði og Valgerður barnakórstjóri var að hita upp barnakórinn, sem söng um trú, von og kærleika.

Þar er sigur hins góða á jörð.

Vinningshafi hæfileikakeppninnar á æskulýðsmóti ÆSKH í Vatnaskógi, Adríel Hrafn Stefánsson söng frumsamið lag.

Í báðum messunum sáu börnin um fasta messuliði eins og að lesa texta bibliunnar og bænirnar.

Sr. Arndís Bernharðsdóttir Linn, sóknarprestur í Mosfellsprestakalli blessaði söfnuðinn í lok messunnar.

Í safnaðarheimilinu buðu fermingarbörnin til vöfflumessukaffis til styrktar munaðarlausum börnum í Úganda.

Fyrir æskulýðsdaginn voru æskulýðsfulltrúarnir Bogi og Sólveig búin að undirbúa daginn með börnunum, með áletruðum bolum um trú, von og kærleika, föndur ýmis konar með túlkun barnanna um það hvernig þau geti verið hendur Guðs á jörðinni.

Yndisleg og gefandi stund í Lágafellskirkju.

Á leiðinni heim ákvað ég að koma við í Ástjarnarkirkju og þar voru fermingarbörnin tilbúin að halda upp á æskulýðsdaginn með lestri, þakkargjörð og bænum um betri heim.

Sr.  Arnór Bjarki Blomsterberg sóknarprestur í Tjarnaprestakalli vitnaði í orð Jesú um að leyfa börnunum að koma til sín því við sköpum Guðs ríki á jörðinni í gegnum börnin.

Hann talaði einnig um kærleikann sem gjöf Guðs til okkar allra, og það er eitthvað sem við getum þakkað fyrir alla daga.

Þú mikli Guð, ert með oss á jörðu,  var meðal annars sungið og má með sanni segja að messan í Ástjarnarkirkju var í hægum og notalegum púls.

Eftir messuna var boðið upp á súpu í brauði og kirkjugestir gáfu sér góðan tíma í kvöldmáltíðarsamfélagið.

Eftir kvöldmessuna á leiðinni heim var vel við hæfi að hlusta á útvarpsmessuna í Langholtskirkju.

Það var hreinn unaður að hlusta á Krúttakórinn, Graduale Liberi, Graduale Futuri og Gradualekór Langholtskirkju.

Börnin lásu texta úr biblíunni og báðu bænir með söfnuðinum.

Sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir prestur í Laugardalsprestakalli minnti okkur á skírnina og hversu dýrmæt hún er fyrir okkar kristna samfélag um allan heim.

Hún minnir okkur á ást Guðs sem umvefur okkur allar stundir lífsins.

Það var virkilega notalegt að enda æskulýðsdaginn á útvarpsmessu í Langholtskirkju.

Það sem var sér í lagi einkennandi varðandi allar þessar messur var fjölbreytileikinn í Þjóðkirkjunni og einnig hversu fallegt það er að sjá og upplifa metnað hjá kirkjustarfsfólki, sjálfboðaliðum og þátttöku safnaðanna almennt.

Dagur er að kveldi kominn.

Takk fyrir mig!“

segir ánægður svæðisstjóri æskulýðsmála í Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra og Kjalarnessprófastsdæmi Anna Elísabet Gestsdóttir djákni að lokum.

Myndirnar hér fyrir neðan eru frá öllum þremur guðsþjónustunum.

Anna Elísabet tók allar myndirnar auk forsíðumyndarinnar.

 

slg


Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Biblían

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju