50 ára Egilsstaðakirkja böðuð ljósi

15. mars 2024

50 ára Egilsstaðakirkja böðuð ljósi

Egilsstaðakirkja ljósum prýdd

Egilsstaðakirkja mun fagna 50 ára afmæli sínu í sumar.

Afmælinu verður þó fagnað í áföngum.

Að sögn sr. Þorgeirs Arasonar sóknarprests í Egilsstaðaprestakalli var nýr útiljósabúnaður við Egilsstaðakirkju tekinn í notkun að lokinni tónlistarmessu í kirkjunni sunnudagskvöldið, 10. mars kl. 20:00.

“Þetta var um leið fyrsti liðurinn í að fagna 50 ára afmæli kirkjunnar í ár” segir sr. Þorgeir.

„Fyrir rúmu ári tók sóknarnefnd Egilsstaðakirkju ákvörðun um kaup og uppsetningu nýrrar útilýsingar við kirkjuna, sem er jú eitt helsta tákn Egilsstaðabæjar og sést víða að.

Slíkt var löngu tímabært en mörg undanfarin ár hefur kirkjan verið lýst upp í skammdeginu með litlum kösturum sem upphaflega voru aðeins settir upp til bráðabirgða.“

Sr. Þorgeir segir að nýi ljósabúnaðurinn komi frá fyrirtækinu Ligman og samanstandi af 24 kösturum á fjórum staurum hringinn í kringum kirkjuna, auk sérstakra kastara fyrir turninn.

„Birtan af kösturunum er hlý og falleg auk þess sem búnaðurinn býður upp á ýmsa litamöguleika.

Starfsmenn Tréiðjunnar Einis hf í Fellabæ undir forystu Sigurðar Sigurjónssonar og Guðmundar Halldórssonar rafvirkja önnuðust uppsetningu og tengingu búnaðarins, en það reyndist krefjandi og tímafrekt verkefni á klöppinni á Gálgaási.“

Formaður sóknarnefndar Egilsstaðakirkju er Eydís Bjarnadóttir og lýsir hún ánægju sinni með hvernig til hafi tekist:

„Ljósaverkefnið er hluti af þeim framkvæmdum sem verið hafa við kirkjuna undanfarið ár og hafa aðeins verið mögulegar vegna þeirrar fjármögnunar sem Egilsstaðasókn hefur notið frá Jöfnunarsjóði sókna,″ segir Eydís.

Egilsstaðakirkja var vígð 16. júní árið 1974 og fagnar því 50 ára afmæli sínu á þessu ári.

Ljósahátíðin á sunnudag er fyrsti liðurinn í afmælisárinu, en ýmsir viðburðir eru fyrirhugaðir á árinu af þessu tilefni.

Hátíðarmessa með biskupi Íslands verður á vígsluafmælisdaginn, 16. júní næst komandi og sýning á handverki tengdu trú og kirkju verður sett upp í Sláturhúsinu í sumar.

Afmælishátíð barnanna og afmælistónleikar eru svo á döfinni í haust.

Að sögn sr. Þorgeirs var messan síðast liðinn sunnudag fjölsótt, en þar fluttu söngnemendur úr tónlistarskólunum á Egilsstöðum og Fellabæ kafla úr verkinu Stabat mater eftir Pergolesi ásamt annarri tónlist.

Kór Egilsstaðakirkju söng einnig undir stjórn Sándors Kerekes organista, sem einnig lék á sembal.

Virág Kerekesne Meszöly lék á selló og Mairi Louisa McCabe á fiðlu.

Sóknarpresturinn sr. Þorgeir Arason predikaði og þjónaði fyrir altari.

Sveinn Jónsson verkfræðingur, sem hefur allt frá upphafi haft umsjón með verkefninu fyrir hönd sóknarnefndar kynnti nýju ljósin við lok messunnar, en kirkjukórinn söng lagið
Ég horfi eftir lífsins ljósi eftir heimamanninn Hrein Halldórsson.

Söfnuðurinn fór svo út á bílaplan kirkjunnar og söng við gítarleik organistans lagið  Amen – Innst í mínu hjarta skal ljósið lýsa bjart meðan Sveinn tendraði ljósin ásamt Jónasi Þór Jóhannssyni, meðhjálpara og fyrrverandi sóknarnefndarformanni.

"Almenn ánægja var með lýsinguna og ýmsa litamöguleika hennar, sem safnaðarfólk fékk að virða fyrir sér“

segir sr. Þorgeir að lokum.

 

slg


  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar