Passíusálmarnir í Hallgrímskirkju

21. mars 2024

Passíusálmarnir í Hallgrímskirkju

Sr. Irma Sjöfn, Svanhildur, Margrét, Einar og Steinunnun-mynd Hilmar Þ. Hilmarsson

Fastur liður í lífi margra á föstudaginn langa er að fara til kirkju og hlusta á upplestur Passíusálma Hallgríms Péturssonar.

Passíusálmalestur hefur verið óslitinn hluti af menningu okkar allt frá því að þeir komu út á Hólum árið 1666.

Þá voru þeir lesnir við húslestur á föstunni allt þar til Ríkisútvarpið hóf lestur á þeim á fjórða áratugnum.

Eftir að útvarpsrásum fjölgaði og minni hlustun varð á Passíusálmana í útvarpi var farið að lesa þá alla upp í kirkjum landsins á föstudaginn langa.

Það var um sama leyti og Hallgrímskirkja var vígð, en hún var vígð haustið 1986.

Passíusálmarnir verða að vanda fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa þann 29. mars og hefst flutningurinn klukkan 13.00.

Lesarar verða fimm að tölu, þau Einar Örn Thorlacius, sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir, sem hefur umsjón með flutningnum.

Samsetning flytjendahópsins er hugsuð sem vísun til þess hvernig Passíusálmarnir héldu innreið sína í þjóðlíf Íslendinga.

Líta má á karllesarann sem fulltrúa skáldsins, en konurnar sem fulltrúa fyrir þær fjórar konur sem Hallgrímur sendi fyrstu eiginhandarritin af Passíusálmunum.

Þær hétu Ragnhildur Árnadóttir frá Ytra-Hólmi, Helga Árnadóttir í Hítardal, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti.

Hallgrímur gerði þessar konur að fyrstu kynningarfulltrúum sínum fyrir skáldverkið.

Í kynningu á upplestrinum í Hallgrímskirkju segir Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur:

„Passíusálmarnir eru eitt notadrýgsta og mikilvægasta verk íslenskrar bókmenntasögu.

Þeir urðu helsta íhugunar- og huggunarrit þjóðarinnar nánast frá því þeir tóku að birtast í uppskriftum og á prenti á seinni hluta 17. aldar og fram undir okkar daga.

Passíusálmarnir urðu tæki Íslendinga til að eiga samtal við sál sína.

Passíusálmarnir eru dramatískt, trúarlegt skáldverk, samið af sjaldgæfri leikni og valdi á viðfangsefninu, bæði að innihaldi og fjölbreytni í bragarháttum.

Þeir voru ortir til flutnings við tiltækar aðstæður og hafa sem slíkir lengi freistað tónlistarfólks sem og flytjenda talaðs máls.

Á þriðja ári eftir vígslu Hallgrímskirkju voru Passíusálmarnir í fyrsta sinn fluttir þar í heild sinni á föstudaginn langa.

Frumkvæði að þeim flutningi hafði Eyvindur Erlendsson leikari og leikstjóri og lagði þar með grunninn að þeirri hefð sem hefur staðið nær óslitið síðan.

Hefðin hefur svo breiðst út til annarra kirkna víða um landið.

Það er fyrir löngu orðin mikilvæg venja í lífi fjölda manns að hlýða á flutning Passíusálmanna á föstudaginn langa.

Fólk flykkist í Hallgrímskirkju eða aðrar kirkjur sem bjóða upp á lestur sálmanna og situr þar um lengri eða skemmri tíma.

Nokkrir kjósa að hlusta á verkið frá upphafi til enda.

Passíusálmarnir eru tilboð um andlegt ferðalag með höfuðskáld okkar Íslendinga Hallgrím Pétursson sem leiðsögumann.

Í ár er þess minnst að 350 ár eru liðin frá andláti skáldsins.

Af því tilefni er meira lagt í flutning sálmanna í Hallgrímskirkju en venja er.

Kammerkvartett syngur á milli þátta nokkur af gömlu lögunum í raddsetningum Smára Ólasonar tónlistarfræðings (1946-2923).

Og sálmaforleikir eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og Arngerði Maríu Árnadóttur verða frumfluttir.

Organistar eru Björn Steinar Sólbergsson og Steinar Logi Helgason, sem jafnframt er söngstjóri.

Í Hallgrímskirkju stendur smágert verk eftir Einar Jónsson myndhöggvara sem túlkar síðustu stundirnar í lífi Hallgríms.

Hann rís upp til hálfs á sjúkrabeði sínum og við hlið hans situr kona hans, Guðríður Símonardóttir, og les fyrir mann sinn á sóttarsænginni.

Væntanlega úr Passíusálmunum.

Að baki hjónunum stendur verndarengill með útbreidda vængi.“

Á meðfylgjandi mynd standa flytjendur Passíusálmanna umhverfis þetta hógværa litla verk.

Frá vinstri sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, Svanhildur Óskarssdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Einar Örn Thorlacius og Steinunn Jóhannesdóttir.

Ljósmyndari var Hilmar Þorsteinn Hilmarsson.

Flutningur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa þann 29. mars hefst kl. 13.00 og lýkur um það bil 18.30.

Umsjónarmaður með flutningum, Steinunn Jóhannesdóttir, er rithöfundur, leikkona og leikstjóri.

Hún hefur oft áður stjórnað flutningi Passíusálmanna, bæði í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, Hallgrímskirkju í Saurbæ og víðar.

Steinunn flutti Passíusálmana í Ríkisútvarpinu árið 2021.

Margrét Eggertsdóttir flytur Passíusálmana á Rás 1 þessa föstuna í endurflutningi frá 2006.

Upptakan fór fram í framhaldi af því að hún varði doktorsritgerð sína um Barokkskáldið Hallgrím Pétursson 2005.

Svanhildur Óskarsdóttir las Passíusálmana 1998.

 

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar