Kosning hefst á morgun

10. apríl 2024

Kosning hefst á morgun

Fundurinn vsr fjölsóttur

Kosning til embættis biskups Íslands hefst kl. 12:00 á hádegi á morgun fimmtudaginn 11. apríl og stendur til kl. 12:00 þriðjudaginn 16. apríl kl. 12:00.

Síðasti kynningarfundurinn var í gær í Lindartungu í Vesturlandsprófastsdæmi.

Þar kynntu biskupsefnin sig og málefni sín.

Fundurinn var afar vel sóttur.

Húsfyllir var og þurftu sumir að standa.

Eftir kynninguna var opnað fyrir spurningar, en prófasturinn sr. Gunnar Eiríkur Hauksson stýrði fundinum.

Hér skal leitast við að gera grein fyrir nokkrum af þeim spurningum sem bornar voru upp og svörum biskupskandídatanna.

Fyrsta spurningin var á þessa leið:

Hvaða tilfinningu hafið þið gagnvart sameiningu sókna og mynduð þið beita ykkur fyrir því að aðstoða við það?

Sr. Guðmundur Karl sagði að það væri kostur fyrir fleiri presta að vinna saman því þannig komi bestu hugmyndirnar.

Hann vill beita sér fyrir því að bæta þjónustu kirkjunnar og segir mikilvægt að við hjálpumst að við að finna leiðir.

Sr. Guðrún sagði að sameining sókna væri ekki á borði biskups, en þó hefði biskup alltaf áhrifavald.

Óskin um sameiningu sókna þarf að koma frá söfnuðunum sjálfum.

Síðan aðstoðar biskupsstofa við þær sameiningar.

Sagði hún að sameiningum sókna myndi fjölga í framtíðinni, en fólk vill ekki gera það fyrr en í lengstu lög af því að heimakirkjan skiptir fólk máli.

Sr. Elínborg sagði að reginmunur væri að sameiningu sókna og prestakalla.

Biskupafundur leggur til sameiningu prestakalla, en ósk um sameiningu sókna kemur frá söfnuðunum.

Spurningarnar sem vakna við sameiningu sókna er til dæmis:

Hvernig verður með kirkjuna mína og viðhald hennar?

Við verðum að horfast í augu við það að þeim fer fækkandi sem greiða sóknargjöld og við verðum að skoða alvarlega hvaða kirkjum við ætlum að hlú að og þessar breytingar geta verið sársaukafullar.

Það getur ekki verið á ábyrgð fámennra sókna að halda við friðuðum byggingum, en það er sjálfsagt að aðstoða við sameiningar ef frumkvæðið kemur frá grasrótinni.

Önnur spurningin var um afstöðu þeirra til erfiðra mála sem upp haf komið í kirkjunni.

Sr. Guðrún sagði að mikið hefði þokast í rétta átt varðandi ofbeldismál og betur er tekið á starfsmannamálum en áður.

Hún bætti við að staða presta hafi breyst því nú séu þeir ekki lengur embættismenn heldur starfsmenn kirkjunnar.

Kirkjan hefur nú aukna ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu, en það eru tvö ár síðan þetta breyttist.

Lagði hún áherslu á að kirkjan þurfi að vera með mjög góð mannauðsstefnu og þurfi að hlú að sínu starfsfólki.

Kirkjan á að vera nútíma vinnustaður þar sem hugsað er vel um starfsfólkið.

Það er eitt af hlutverkum biskups að sjá til þess að fólki líði vel.

Sr. Elínborg sagði að það væri eitt af hlutverkum biskups að gæta að einingu kirkjunnar.

Við tökum nærri okkur þegar erfið mál koma upp innan kirkjunnar.

Hlutverk biskups er meðal annars að hlú að friði í kirkjunni bæði inn á við og út á við.

Kirkjan á að vera boðberi friðar.

Við þurfum að sýna að kirkjan sé trúverðug þannig að fólk sem hefur sagt sig úr kirkjunni geti snúið aftur heim.

Ég vil vera biskup sem elur á friði.

Við þurfum að snúa bökum saman til að koma fagnaðarerindinu á framfæri.

Sr. Guðmundur Karl sagði að fjölmiðlar virðist aðeins hafa áhuga á því neikvæða.

Það er mikilvægt að við tökum á vanda af kærleika.

Þessi erfiðu mál sem upp hafa komið endurspegla ekki það sem kirkjan stendur fyrir.

Við þurfum að miðla okkar rétta andliti.

Þá var spurt um álit þeirra á sölu prestsbústaða.

Sr. Elínborg sagði að kirkjan ætti eignir til þess að tryggja þjónustu um allt land.

Fólk vilji hafa prestana í návígi.

Prestar sem fara út á land þurfi öruggt húsnæði.

Það þjónar hagsmunum kirkjunnar að hún eigi eigið hús.

Að hennar mati var það röng ákvörðun að selja eignir í þorpum.

Það er hagsmunamál fyrir byggðir landsins að hafa prestinn á staðnum og að sjálfsögðu eiga prestar að borga eðlilega leigu.

Sr. Guðmundur Karl sagði að það væri mikilvægt að tryggja búsetu um allt land.

Það er ekki árennilegt fyrir ungt fólk að þurfa að fjárfersta í fasteign úti á landi.

Að hans mati hefur verið farið of geyst í að selja prestsbústaði.

Sr. Guðrún sagði að sala á prestsbústöðum hafi fylgt sameiningarþróuninni.

Við þurfum að huga að því að prestar búa við ólíkar aðstæður í landinu, og nú stöndum við frammi fyrir því að erfiðara verður að fá fólk til starfa á ákveðna staði.

Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig við getum bætt aðstæður þar sem fáir vilja vera.

Þá var spurt um það sem virðist brenna á öllum, en það er varðandi það hvernig biskup geti beitt sér fyrir því að sóknirnar fái meira fjármagn.

Sr. Guðmundur Karl sagði að Jöfnunarsjóður sókna þyrfti að standa betur með litlum söfnuðum.

Sr. Guðrún sagði að ríkið eigi að skila réttum sóknargjöldum.

Það er grundvallaratriði fyrir því að kirkjustarfið virki.

En síðan þurfi að fjölga í kirkjunni.

Kirkjan þarf að vera aðlaðandi svo við fáum fólk til liðs við okkur.

Sr. Elínborg sagði að við þyrftum að sækja sóknargjöldin til hins opinbera.

Sagðin hún að prestar væru í lykilhlutverki til að fá fólk til að ganga í þjóðkirkjuna.

Sagði hún að biskup verði að berjast fyrir því sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra lofaði við setningu kirkjuþings í haust að hún vildi endurskoða sóknargjöldin.

Sagði hún að þegar hún kom í Dómkirkjuna fyrir fimm árum þá hafi vangoldin sóknargjöld síðustu 10 ára hafi verið um 100 milljónir.

Biskup þarf að tengjast stjórnmálamönnum og kalla eftir þessu.

Sagðist hún hafa tröllatrú á því að við getum sótt þetta því líf safnaðanna sé undir.


slg



Myndir með frétt

  • Kosningar

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Þjóðkirkjan

  • Fundur

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar