Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apríl 2024

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur Víðisson prestur í Fossvogsprestakalli hefur verið skipaður prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. júní 2024.

Hann tekur við af sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur sóknarpresti í Hátegskirkju, en hún hefur gegnt prófastsstörfum frá 1. apríl 2015.

Sr. Þorvaldur er fæddur í Reykjavík árið 1973.

Hann er sonur hjónanna Jóhönnu Ásdísar Þorvaldsdóttur, sérkennara og Vilmundar Víðis Sigurðssonar, stýrimanns og kennara.

Sr. Þorvaldur ólst upp í vesturbæ Kópavogs, hann var skiptinemi í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum 1990-1991 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1994.

Hann lagði stund á píanónám í Tónlistarskóla Kópavogs og æfði knattspyrnu með Breiðabliki upp alla flokka.

Árið 2001 lauk Þorvaldur kandídatsprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og starfaði sem æskulýðsfulltrúi Dómkirkjunnar til ársins 2002.

Það ár vígðist hann til Landakirkju í Vestmannaeyjum þar sem hann starfaði í fjögur ár.

Frá árinu 2006 til ársins 2010 starfaði hann sem miðborgarprestur Dómkirkjunnar.

Árið 2011 leysti hann af í Neskirkju til skamms tíma, áður en hann flutti með fjölskyldu sína til Noregs þar sem hann starfaði sem sóknarprestur hjá norsku kirkjunni á Hitra í Þrændalögum á árunum 2011 og 2012.

Frá 1. október 2012 starfaði sr. Þorvaldur sem biskupsritari.

Hann lauk námi í Sáttamiðlaraskólanum árið 2021.

Það ár, eða þann 1. september 2021 var hann ráðinn sóknarprestur Fossvogsprestakalls.

Frá 1. október 2023 hefur hann síðan þjónað sem prestur í Fossvogsprestakalli, en þar hefur verið innleidd sú nýjung að prestar prestakallsins skipta með sér sóknarprestsskyldunum á tveggja ára fresti.

Sr. Þorvaldur hefur þýtt tvær bækur sem Skálholtsútgáfan hefur gefið út, annars vegar Hvað er Biblían, hvernig ævaforn ljóð, bréf og sögur, geta gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður, eftir Rob Bell og hins vegar Sanntrúaði villutrúarmaðurinn og aðrar torræðar sögur, eftir Peter Rollins.

Á síðasta ári gaf Skálholtsútgáfan út bók hans Vonin, akkeri fyrir sálina.

Eiginkona sr. Þorvaldar er Sólveig Huld Guðmundsdóttir félagsráðgjafi hjá Kópavogsbæ og eiga þau þrjú börn, Jón Víði sem fæddur er 1996, Ásdísi Magdalenu sem fædd er 2002 og Fróða Kristinn sem fæddur er 2008.

slg


  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Þjóðkirkjan

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju