Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

29. apríl 2024

Lokahátíð barnastarfs Akureyrarkirkju 2024

Fyrir helgi sagði kirkjan.is  frá Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík.

Sonja Kro æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju sagði fréttaritara nánar frá söngvahátíðinni og lokahátíð barnastarfsins við kirkjuna.

Hún sagði:

„Ó, blessuð vertu sumarsól - ómaði í lok skemmtilegrar lokahátíðar í Akureyrarkirkju sunnudaginn 21. apríl.

Þrír kórar enduðu stundina ásamt frábærum hljóðfæraleikurum.

Þetta var svo sannarlega fjölbreytt og skemmtileg stund og vel sótt af bæjarbúum.

Yngri og Eldri barnakórar kirkjunnar fengu að láta ljós sitt skína, en einnig kom gestakór úr Reykjavík, Perlukór Háteigskirkju.

Stjórnandi þeirra er Erla Rut Káradóttir.

Deginum áður höfðu kórarnir, ásamt barna- og æskulýðskór Glerárkirkju, tekið upp útvarpsmessu sem var flutt á RUV á sumardaginn fyrsta.

Flautunemendur úr Tónlistarskóla Akureyrar léku fyrir okkur, það voru þær Katrín Karlinna Sigmundsdóttir og Ronja Björk.

Útgöngulagið lék Gréta Petrína Zimsen á orgelið, en hún stundar orgelnám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.

Hákon Geir Snorrason gítarnemandi úr Tónlistarskóla Akureyrar söng frumsamið lag sitt, Svigrúm við undirleik Ívars Helgasonar, gítarleikara.

Ylfa Kristinsdóttir söng lagið Komandi kynslóðir ásamt Ívari Helgasyni og öllum kórunum þremur.

Allt voru þetta framúrskarandi tónlistaratriði sem kirkjugestir nutu.

Í svona messum er einmitt kjörið að börnin fái að skína sem skærast og njóta sín“ segir Sonja.

Biblíusagan er alltaf á sínum stað og Sonja vitnar í sr. Hildi Eir Bolladóttur sóknarprest í Akureyrarprestakalli þegar hún segir:

"Við gefum engan afslátt af biblíusögum" en það var sr. Hildur sem sagði hana, sem að þessu sinni var freistingarfrásögnin.

Og Sonja heldur áfram:

„Ívar Helgason var svo með eitt skemmtilegt músalag sem hann flutti með leikrænum tilþrifum eins og honum er einum lagið svo kirkjugestir veltust um úr hlátri.

Í það minnsta börnin sem komu sér beint fyrir framan hann.

Ég sagði svo örlítið frá vetrinum í barnastarfinu og þakkaði fyrir góðan vetur og frábæran tíma með öllum krökkunum“ heldur Sonja áfram, en hún var síðar í messunni kvödd með lófaklappi, því næsta vetur mun hún færa sig til í starfi og hætta störfum við Akureyrarkirkju.

Hún sagði að þetta væru búin að vera frábær ár í kirkjunni og alger forréttindi að vinna á slíkum stað sem Akureyrarkirkja er.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti sagði einnig örlítið frá barnakórastarfinu, og meðal annars frá Danmerkurferðinni  sem farin verður í maí.

Voru öll börn hvött til að halda áfram að mæta í starfið.

Eftir stundina í kirkjunni var öllum boðið að gæða sér á grilluðum pylsum.

Eins var boðið upp á að læra stepdans hjá Ívari Helgasyni, sem kennir í Steps - dansskólanum.

Að sögn Sonju var góður hópur sem skellti sér í sporin hans og lærðu grunnskrefin í step dansi.

Klukkan 13.00 hófst Orgelkrakkaævæintýri í kirkjunni en það byggir á frumsömdu ævintýri eftir þá Guðmund Einar og Hákon Geir.

Ævintýrið tengdi saman orgelverk sem orgelnemendur á barnsaldri fluttu fyrir kirkjugesti.

Notast er við þekkt tónverk, brúður og ýmsa skemmtilega leikmuni.

Sigrún Magna og Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar stýra þessu starfi og stjórnuðu einnig þessari stund í kirkjunni sem þótti takast afar vel.

Þetta atriði var hluti af Barnamenningarhátíð Akureyrar, þar sem hinar ýmsu uppákomur fyrir börn eru um allan bæ, allan aprílmánuð.

Að lokum segir Sonja:

„Það er sannarlega margt og mikið að gerast í barnastarfi Akureyrarkirkju og bjóðum við ávallt ný börn og ungmenni velkomin í hópinn.

Við erum þakklát og stolt af börnunum og megi Guð blessa okkur áfram veginn."

 

Hér má finna fleiri myndir frá hátíðinni.

 

slg


  • Barnastarf

  • Biblían

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar