Söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju

2. maí 2024

Söngvahátíð barnanna í Hallgrímskirkju

Á sumardaginn fyrsta var lokahnykkur Söngvahátíðar barnanna sem haldin var á Akureyri og í Reykjavík og fréttir hafa áður verið fluttar af á kirkjan.is.

Söngvahátíð barnanna er hátíð barnakóra við kirkjur og var haldin í fyrsta skipti árið 2004.

Það var Hörður Áskelsson þáverandi söngmálastjóri sem stóð að fyrstu hátíðunum í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju.

Hátíðin hefur verið haldin nánast óslitið síðan þá og hafði Margrét Bóasdóttir fyrrum söngmálastjóri veg og vanda að skipulaginu undanfarin ár.

Í ár var það Guðný Einarsdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar sem skipulagði hátíðahöldin í samvinnu við gestgjafakirkjurnar, Akureyrarkirkju og Hallgrímskirkju.

Að sögn Guðnýjar tók starfsfólk og sjálfboðaliðar frá kirkjunum virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd og var virkilega vel staðið að öllu á báðum stöðum.

Klukkan 11:00 var útvarpað messu á RÚV þar sem eldri og yngri barnakórar Akureyrarkirkju, Perlukór Háteigskirkju og Barna- og æskulýðskór Glerárkirkju sungu undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, Margrétar Árnadóttur og Erlu Rutar Káradóttur.

Meðleik á píanó og orgel önnuðust Erla Rut og Sigrún Magna, Pétur Ingólfsson lék á bassa og Katrín Karlinna Sigmundsdóttir lék á flautu.

Börn úr kórunum lásu bænir og ritningarlestra og prestur var sr. Jóhanna Gísladóttir.

Í Hallgrímskirkju tóku 11 kórar þátt í hátíðahöldunum ásamt kórstjórum sínum.

Það voru Barnakórinn við Tjörnina undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur, Gradualekór Langholtskirkju, Graduale Futuri og Graduale Liberi undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur og Bjargar Þórsdóttur, Barnakór Lágafellssóknar undir stjórn Valgerðar Jónsdóttur, Barnakór Seltjarnarneskirkju undir stjórn Maríu Konráðsdóttur og Þorsteins Freys Sigurðssonar, Barnakór Hjallakirkju undir stjórn Gróu Hreinsdóttur, Stúlknakór Neskirkju undir stjórn Steingríms Þórhallssonar, Barnakór Hafnarfjarðarkirkju undir stjórn Brynhildar Auðbjargardóttur, Barna- og unglingagospelkór Lindakirkju undir stjórn Áslaugar Helgu Hálfdánardóttur og Hjördísar Önnu Matthíasdóttur og Barnakór Vídalínskirkju undir stjórn Ingvars Alfreðssonar og Davíðs Sigurgeirssonar, en þeir Davíð og Ingvar sáu einnig um meðleik á tónleikunum sem haldnir voru í lok dags.

Sérstakur gestur tónleikanna var Íris Rós en lokalag tónleikanna var lag eftir Írisi Rós, Komandi kynslóðir, sem sungið var í Krakkaskaupinu árið 2023.

Auk kórstjóranna fylgdi börnunum stór hópur af sjálfboðaliðum og foreldrum sem sáu til þess að öllum liði vel og hefðu gaman allan daginn og var framlag þeirra frábært í alla staði.

Guðný segir „óhætt að segja að dagurinn hafi heppnast mjög vel og gleðin hafi skinið úr hverju andliti í himnesku veðrinu sem lék við þátttakendur.

Dagurinn endaði á því að kórarnir sem töldu um 200 börn héldu tónleika og sungu sig inn í hjörtu rúmlega 620 áheyrenda.

Gleðin var augljóslega mikil, bæði meðal áheyrenda og barnanna.

Um morguninn mættu börnin í kirkjuna og undirbjuggu tónleikana ásamt stjórnendum sínum.

Þeim var svo boðið upp á pizzu og djús, en einnig fengu öll börnin að leika sér úti með sápukúlur, krítar, sippubönd og bolta og að taka þátt í listasmiðju þar sem búinn var til sálmafoss úr blöðum úr gömlum sálmabókum.

Sálmafossinn stóð uppi það sem eftir var dags í kirkjunni.

Um 70 börn á Söngvahátíð barnanna á Akureyri hófu verkefnið nokkrum dögum áður en bætt var við fossinn í Reykjavík af þátttakendunum þar og varð hann á endanum þrefalt stærri og virkilega glæsilegur eins og sjá má á myndunum" sagði Guðný Einarsdóttir að lokum.

Myndirnar sem fylgja fréttinni tóku María Elísabet Halldórsdóttir og Sólbjörg Björnsdóttir.

 

slg



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju