Sumarsöngvar í fangelsi

2. maí 2024

Sumarsöngvar í fangelsi

Anna Sigga, sr. Sigrún og Bylgja Dís

Kirkjan.is sagði nýlega frá því að sr. Sigrún Óskarsdóttir fangaprestur hefði sagt frá páskadegi í fangelsi á áhrifaríkan hátt á fundi presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Það getur greinilega verið líflegt og margt ánægjulegt í þessu starfi eins og öðru starfi sem þjónar kirkjunnar vinna.

Sr. Sigrún sendi fréttaritara kirkjan.is eftirfarandi pistil um ferð sem hún fór í sumarbyrjun milli fangelsa á Suðurlandi og birtist hann hér óbreyttur:

„Fangaprestur fór með fríðu föruneyti og bauð upp á sumarsöngva og helgistund síðast liðinn laugardag.

Fyrsti viðkomustaður var Sogn.

Þar fengum við aldeilis góðar móttökur, og þar ríkti heimilisleg stemning.

Það atvikaðist þannig að fluttar voru nokkrar örhugleiðingar út frá þeim textum sem lesnir voru, prestur, söngkona og fleiri viðstaddir létu þar ekki sitt eftir liggja.

Í blíðskaparveðri fengum við fallega altaristöflu sem blasti við þegar litið var út um stofugluggann, fjöll, tún, fuglar og sjór - sköpun Guðs.

Anna Sigga söngkonan kann að búa til létta stemningu og ótrúlegasta fólk tekur undir eftir hvatningu hennar:

Nú er sumar, gleðjist gumar, Stjörnur og sól og fleiri falleg lög og textar.

Bygja Dís Gunnarsdóttir, sem stundar nám í trúarlegri fylgd (Spiritual Direction) var með í för og leiddi hún okkur í einstaklega áhrifaríkri bæn.

Eftir hádegisverð var okkur ekki til setunnar boðið og haldið var á Litla Hraun.

Þar var fín mæting og áskorun að mæta fólki með mismunandi bakgrunn og ólík tungumál.

Þá er svo gott að geta kveikt bænaljós og sungið.

Við skiljum táknmálið og Guð heyrir, sér og skilur.

Hápunkturinn var þegar sungið var í keðjusöng:

Sá ég spóa...

Það var ýmist brosandi eða hlæjandi hópur sem gekk út og sönglaði: bí, bí, bí, bí.

Fallegt og minnistætt þegar við sameinuðumst í fuglasöngnum!

Að lokum var haldið á Hólmsheiði.

Þar var guðspjallið lesið á íslensku, ensku og pólsku og söngblaðið með ensku textunum var sungið frá upphafi til enda, Love me tender, Amazing grace og fleiri góð lög.

Það voru þakklátar konur sem fóru heim eftir viðburðarríkan dag og enn skein sólin í hjarta og á himni“ segir sr. Sigrún.


slg



Myndir með frétt

  • Biblían

  • Heimsókn

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar