Tónskóli þjóðkirkjunnar starfar á þremur stöðum á landinu

22. maí 2024

Tónskóli þjóðkirkjunnar starfar á þremur stöðum á landinu

Fimmtudaginn 16. maí var Tónskóla þjóðkirkjunnar slitið við hátíðlega athöfn í húsakynnum skólans í Hjallakirkju í Kópavogi.

Í vetur stunduðu 20 nemendur nám við skólann, þar af einn á Akureyri og einn á Egilsstöðum.

Guðný Einarsdóttir, skólastjóri skólans fór yfir starf skólans í vetur en starfsárið hefur verið mjög viðburðarríkt.

Haldin voru nokkur mjög vel sótt námskeið í endurmenntunardeild skólans, nemendur tóku þátt í tónleikahaldi og teknar voru upp tvær útvarpsmessur sem nemendurnir sáu um tónlistarflutninginn í.

Við skólaslitin léku tveir nemendur skólans á orgel, þau Gréta Petrína Zimsen og Kristján Hrannar Pálsson sem bæði luku áfangaprófum í vor. 

Að því loknu hlýddu viðstaddir á söng Hrafnkels Karlssonar útskriftarnema.

Tveir nemendur luku prófi af námsbrautum skólans.

Það voru þeir Árni Heiðar Karlsson sem lauk kirkjuorganistaprófi og Hrafnkell Karlsson sem lauk prófi af kórstjórnar- og söngbraut.

Kristján Hrannar Pálsson lauk framhaldsprófi í orgelleik.

Að sögn Guðnýjar Einarsdóttur „eru spennandi tímar framundan í starfi skólans, en á skólaslitunum var sagt frá fyrirhugðum flutningum skólans í Fella- og Hólakirkju þar sem honum býðst betri aðstaða til kennslu og undir bókasafnið.

Jafnframt var sagt frá endurskoðun námskrár og námsframboðs við skólann sem í framtíðinni verður aðlagað enn betur að umhverfi almenns tónlistarnáms.“

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri:

Laufey Helga Geirsdóttir, fulltrúi á skrifstofu og söngkennari, Guðný Einarsdóttir skólastjóri, Gréta Petrína Zimsen, biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir, Kristján Hrannar Pálsson, Hrafnkell Karlsson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir formaður kirkjutónlistarráðs.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Leikmenn

  • List og kirkja

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Biskup

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð