Laust starf

28. maí 2024

Laust starf

Grafarvogskirkja

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Grafarvogsprestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021- 2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Sóknarmörk Grafarvogssóknar eru Elliðaár að vestan, Vesturlandsvegur að sunnan að borgarmörkum við Blikastaði.

Í Grafarvogssókn er ein sóknarkirkja, Grafarvogskirkja og Kirkjusel í Borgum í Spöng.

Kirkjan er vinsæl athafnakirkja, góð aðstaða er fyrir hvers konar samkomuhald og nálægð við Gufuneskirkjugarð er mikill kostur.

Skrifstofur presta, djákna og organista eru í Grafarvogskirkju auk þess sem prestar og djákni deila sameiginlegri skrifstofu og viðtalsaðstöðu í Kirkjuselinu.

Fjórir vígðir þjónar starfa við kirkjuna, þrír prestar og einn djákni.

Auk þess eru tveir organistar, tveir kirkjuverðir, ritari, æskulýðsfulltrúi og leiðtogar í föstu starfi.

Við kirkjuna eru starfræktir þrír kórar, Kór Grafarvogskirkju, Vox Populi og Barnakór Grafarvogs sem er rekinn í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs.

Sóknin tilheyrir Reykjavíkurprófastdæmi eystra og samstarfssvæði er með Grafarholts- og Árbæjarsöfnuði.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 892 2901 eða á netfangið bryndis.el@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknar frestur er til miðnættis 11. júní 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Grafarvogsprestakall – þarfagreining

Sóknarlýsing:

Sóknarmörk Grafarvogssóknar eru Elliðaár að vestan, Vesturlandsvegur að sunnan að borgarmörkum við Blikastaði.

Í sókninni bjuggu þann 1.12.2023, 18.614 einstaklingar og eru 60% þeirra í þjóðkirkjunni. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040 er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúðahverfa innan sóknarmarka á næstu árum.

Þar má m.a. nefna stækkun Húsahverfis og uppbyggingu á Keldnalandi.

Uppbygging er þegar hafin í Bryggjuhverfi, Gufunesi og í Höfðahverfi.

Reiknað er með að fjöldi íbúða á þessum svæðum gæti orðið 6.456 árið 2040 og að íbúafjöldi í sókninni geti allt að tvöfaldast.

Í Grafarvogi eru starfræktir, fjórtán leikskólar, sjö grunnskólar, einn framhaldsskóli, eitt hjúkrunarheimili, nokkur sambýli og vinnustaðir fyrir fólk með fötlun.

Tvær heilsugæslustöðvar eru í sókninni og Austurmiðstöð, þjónustumiðstöð Reykjavíkur.

Gott samstarf er á milli Grafarvogskirkju og stofnana og vinnustaða hverfisins, þar með talið skólanna.

 

Starfið í Grafarvogssókn.

Í Grafarvogssókn er ein sóknarkirkja, Grafarvogskirkja og Kirkjusel í Borgum í Spöng.

Kirkjan er vinsæl athafnakirkja, góð aðstaða er fyrir hvers konar samkomuhald og nálægð við Gufuneskirkjugarð er mikill kostur.

Skrifstofur presta, djákna og organista eru í Grafarvogskirkju auk þess sem prestar og djákni deila sameiginlegri skrifstofu og viðtalsaðstöðu í Kirkjuselinu.

Sóknin tilheyrir Reykjavíkurprófastdæmi eystra og samstarfssvæði er með Grafarholts- og Árbæjarsöfnuði.

Fjórir vígðir þjónar starfa við kirkjuna, þrír prestar og einn djákni.

Auk þess eru tveir organistar, tveir kirkjuverðir, ritari, æskulýðsfulltrúi og leiðtogar í föstu starfi.

Við kirkjuna eru starfræktir þrír kórar, Kór Grafarvogskirkju, Vox Populi og Barnakór Grafarvogs sem er rekinn í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs.

Í Grafarvogssókn er framsækinn söfnuður sem leggur áherslu á fjölbreytni og nýjungar í kirkjustarfi.

Í Grafarvogssöfnuði er reglulegt helgihald hvern helgan dag.

Á veturna er messað hvern sunnudag bæði í Grafarvogskirkju og í Kirkjuselinu.

Guðsþjónustur eru á stórhátíðum á hjúkrunarheimilinu Eir.

Helgistundir eru vikulega, bæði í Kirkjuseli og kirkju og mánaðarlega á hjúkrunarheimilinu.

Öflugt starf eldri borgara er í Grafarvogskirkju yfir vetrartímann, vikulegar samverustundir auk ferða vor og haust.

Barna- og æskulýðsstarf er reglulegt yfir vetrarmánuðina.

Samverustundir fyrir alla aldurshópa eru vikulega, sunnudagaskóli hvern sunnudag og á sumrin eru starfrækt ævintýranámskeið fyrir 6 - 9 ára börn.

Í Grafarvogskirkju er afar fjölbreytt hópastarf, djúpslökun, prjónaklúbbur, Birta - sorgarsamtök, hittast mánaðarlega, auk fræðslukvölda og annarra viðburða.

Að hverjum leitum við?

Við leitum að framsæknum presti og framsýnum einstaklingi með leiðtogahæfileika og færni í mannlegum samskiptum.

Við leitum að einstaklingi sem hefur brennandi áhuga á að styrkja enn frekar það góða starf sem er í söfnuðinum.

Söfnuðurinn mun á næstu árum leggja mikla áherslu á að efla barna- og æskulýðsstarf.

Það er því mikilvægt að viðkomandi hafi reynslu og þekkingu á slíku starfi og sé tilbúinn að taka þátt í þeirri vinnu með samstarfsfólki.

Viðkomandi þarf að hafa hæfileika til að miðla boðskap kirkjunnar á fjölbreyttan og skapandi hátt, þekkja vel til samfélagsmiðla og geta nýtt sér þá í starfi.

Viðkomandi er hluti af teymi fjögurra vígðra þjóna kirkjunnar auk annars starfsfólks og sjálfboðaliða.

Mikil áhersla er lögð á jákvæðni, frumkvæði og lausnamiðuð vinnubrögð.

Viðkomandi þarf að hafa til að bera ríka samstarfshæfileika og getu til að takast á við krefjandi verkefni.

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Sendinefnd LH með páfa

Í páfagarði

24. jún. 2024
...viðtal við dr. Arnfríði Guðmundsdóttur varaforseta Lútherska heimssambandsins
Sr. Hildur Eir blessar börnin

Kærleikurinn hlustar eftir hjartslætti okkar

24. jún. 2024
... spyr okkur ekki um afrek heldur hlustar eftir hjartslætti okkar, gleði sorgum, vonum og þrám.
Sr. Kristín Þórunn og Torvald æfa tónið fyrir messuna

Sumarstarf kirkjunnar er afar fjölbreytt

24. jún. 2024
...skógarmessa í sumarblíðu