Sjaldheyrð tónlist

28. maí 2024

Sjaldheyrð tónlist

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti - mynd: hsh

Laugardaginn 1. júní næst komandi verða 45 mínútna tónleikar í Hallgrímskirkju kl. 12:00 á hádegi með glæsilegri tónlist eftir tékkneska tónskáldið Petr Eben.

Tónlist hans er sjaldheyrð á Íslandi, en Lenka Mátéová organisti fékk styrk úr tónlistarsjóði til verkefnisins.

Lenka, sem er okkur Íslendingum að góðu kunnug er frá fyrrum Tékkóslóvakíu, en hefur búið á Íslandi frá árinu 1990.

Yfirskrift tónleikanna er:
Petr Eben - Pílagrímur í völundarhúsi veraldar og í paradís tónlistarinnar.

Efnisskráin er eftirfarandi:

1. Motto ostinato úr Nedelní hudba (Sunday Music)

2. The Song of Ruth

3. Landscapes of Patmos


Fram koma Lenka Mátéová organisti, Hanna Dóra Sturludóttir sópran og Frank Aarnink, sem leikur á slagverk.

Á vef Hallgrímskirkju má finna eftirfarandi upplýsingar um listafólkið:

Lenka Mátéová er fædd í Tékkóslóvakíu.

Hún lauk kantorsprófi frá Konservatóríunni í Kromeriz og mastersnámi við Tónlistarakademíuna í Prag.

Á námsárunum vann hún til margra verðlauna í heimalandi sínu og hún hefur leikið einleik víða í Evrópu.

Lenka hefur starfað á Íslandi frá árinu 1990, fyrst á Stöðvarfirði, svo árin 1993-2007 sem kantor við Fella- og Hólakirkju og árin 2007 – 2024 við Kópavogskirkju, þar sem hún vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjunna.

Hún hefur einnig tekið þátt í kammer- og kórtónleikum hér á landi og komið fram sem einleikari.

Auk starfa sinna við kirkjur hefur Lenka kennt orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar og verið meðleikari með Karlakór Reykjavíkur, Drengjakór Reykjavíkur, Mótettukór, Hljómeyki og Samkór Kópavogs.

Hún hefur spilað með þeim á tónleikum, í upptökum fyrir sjónvarp, útvarp og á hljómdiska.

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og hefur átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim.

Fjöldi þeirra hlutverka sem hún hefur sungið eru nú um 60 talsins.

Hanna Dóra hefur komið reglulega fram á ljóðatónleikum, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fjölmörgum tónleikum og síðastliðin ár hefur hún sungið ýmis hlutverk í sýningum Íslensku óperunnar.

Má þar helst nefna titilhlutverkið í Carmen, Eboli prinsessu í Don Carlo, Donnu Elviru í Don Giovanni, Brothers eftir Daniel Bjarnason og Marcellinu í Brúðkaupi Figarós.

Árið 2014 hlaut Hanna Dóra Íslensku tónlistarverðlaunin og fylgdi þeim nafnbótin „Söngkona ársins“ fyrir túlkun hennar á Eboli prinsessu.

Hanna Dóra leggur sérstaka áherslu á flutning nýrrar tónlistar og hefur unnið náið með Snorra Sigfúsi Birgissyni tónskáldi undanfarin ár.

Hún vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu og hlaut tilnefningu til Grímunnar sem söngvari ársins 2021.

Hanna Dóra er aðjunkt og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Frank Aarnink er fæddur í Hollandi og flutti til Íslands árið 2001.

Hann er páku- og slagverksleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur einnig leikið á pákur með Kammersveit Reykjavíkur, meðal annars í tónleikaferð þeirra til Rússlands með Vladimir Ashkenazy auk þess að spila með Íslensku óperunni, Caput Ensemble og fleira.

Í Hollandi lék hann á pákur með Fílharmóníunni í Rotterdam, Radio Filharmonic, Sinfóníu- og kammersveitum, Metropole hljómsveitinni, Hollensku kammersveitinni og hljómsveitunum í Arnhem og Maastricht.

Hann hefur einnig leikið á slagverk í mörgum hljómsveitum, þar á meðal Konunglegu Concertgebouw-hljómsveitinni.

Frank flytur einnig mikið af barokktónlist.

Hann hefur hljóðritað allar Bach kantöturnar með Holland Boys Choir.

Hann hefur einnig leikið með Barokksveitinni í Freiburg, Alþjóðlegu barokksveit Hallgrímskirkju og Gabrieli Consort and Players.

Árið 2007 stofnaði hann Duo Harpverk ásamt Katie Buckley hörpuleikara.

Hingað til hafa þau pantað yfir 150 verk fyrir slagverk og hörpu.

Þau hafa tekið upp tvær plötur, The Greenhouse Sessions og Offshoots.

Katie og Frank frumfluttu einnig Poltroons in Paradise eftir Stewart Copeland, konsert fyrir hörpu og slagverk, með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Mörg tónskáld skrifa tónlist fyrir Frank og hafa þau mikinn áhuga á glæsilegu hljóðfærasafni hans.

Hann er mjög fjölhæfur og leikur á mörg óvenjuleg hljóðfæri eins og cimbalom, sög, theremin og litla Shamisen.

Árið 2007 var Frank tilnefndur „Tónlistarmaður ársins“ á Íslensku tónlistarverðlaununum.


Myndir af tónlistarfólkinu og tónskáldinu eru hér fyrir neðan í þessari röð:

Lenka Mátéová, Hanna Dóra Sturludóttir, Frank Aarnink og loks tónskáldið Petr Eben.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð