Víða leynast sjálfboðaliðar í kirkjulegu starfi

4. júní 2024

Víða leynast sjálfboðaliðar í kirkjulegu starfi

Jarle Reiersen

Kristniboðssambandið gefur reglulega út Kristniboðsfréttir, blað sem segir frá því sem er að gerast á kristniboðsakrinum, en auk þess frá starfi sambandsins hér heima.

Nýlega birtist þar viðtal við Jarle Reiersen dýralækni, sem sr. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri sambandsins tók.

Hann hefur gefið leyfi til að birta viðtalið á kirkjan.is og fer það hér á eftir:

„Kristniboðssambandið, eða réttara sagt sjálfboðaliðar á vegum þess, hefur safnað og selt notuð frímerki í bráðum fjóra áratugi.

Megnið af tímanum hefur Jarle Reiersen séð um þetta verkefni sem gjarnan er kynnt undir kjörorðunum:

Hendum ekki verðmætum.

Verkefnið hefur bólgnað út og nú er einnig safnað gamalli og erlendri mynt og seðlum, sérmerktum pennum þó svo blekið sé búið og ótrúlegustu hlutum sem safnarar falast eftir.

En salan á frímerkjum, mynt og seðlum var óvenjugóð í fyrra og ástæða til að grennslast fyrir um ástæður þess og fleira tengt frímerkjasöfnuninni á tímum þegar frímerkjanotkun dregst saman með hverju ári sem líður.

Talsmaður Kristniboðsfrétta hafði samband við Jarle til að fræðast aðeins meira um málið og manninn að baki.

Jarle er norskur, menntaður dýralæknir, og hefur búið hér á landi ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 1993.

Hann hefur starfað hjá ríkisstofnunum og fyrirtækjum á sviði matvælaöryggis og dýraverndar en vinnur nú hjá Matvælastofnun.

Aðspurður hvenær hann hafi tekið við verkefninu og hvernig það hafi komið til segir Jarle að hann sé búinn að sinna þessu frá 1999 eða í 25 ár.

„Þetta var upprunalega í höndum feðganna Hilmars Þórhallssonar og Friðriks Hilmarssonar Zimsen og megnið var selt beint til eins aðila í Danmörku.

Ég var áhugamaður um frímerkjasöfnun og var í sambandi við Hilmar og bauð fram aðstoð og hjálp.

Svo fór að ég var beðinn fyrir 25 árum að taka við verkefninu og gerði það með gleði, Hilmar var orðinn heilsulítill og þörf á breytingu.

Þeir Friðrik lögðu góðan grunn, komu verkefninu af stað.

Salan var þá um 200 þúsund krónur á verðlagi þess tíma.

Í fyrra seldum við frímerki, mynt og seðla fyrir næstum 5 milljónir.“

 

Og hvað gerðir þú er þú tókst við verkefninu?

„Mér var umhugað að fá sem mest út úr frímerkjunum og sagði við tengiliðinn úti að nú yrðu breytingar, ég hafði sem frímerkjasafnari ýmis sambönd og leiðir til að fá meira inn fyrir kristniboðið.

Hann var ekki kátur með það sem er skiljanlegt þegar menn missa hagstæð viðskipti.

Ég hafði smáreynslu, hafði selt nokkur frímerkjasöfn fyrir einstaklinga.

Ég nýtti mér sem sé nýjar leiðir og fór m.a. að bjóða safnara að kaupa hérlendis og einnig selja á netinu með aðstoð eBay.

Seinni árin hefur salan breyst, nú eru sölusíður á Facebook þar sem auðvelt er að koma frímerkjum í verð, sem og seðlum/mynt.

Annars vegar eru þetta sérstök og dýr frímerki sem seljast stök og hins vegar frímerki sem klippt eru af umslaginu og safnað í poka og seld eftir þyngd.“

 

Nú er fólki sagt að best sé að fá umslögin með frímerkjunum á, eru þau svo klippt af?

„Já, ástæða þess að ég vil fá umslögin ef frímerkin eru enn á þeim er að stundum eru sérstakir stimplar sem safnarar eru að sækjast eftir og fæst meira fyrir þá ef ekki er búið að klippa frímerkin af.

Annars klippum við megnið af frímerkjunum af eftir settum reglum.

Þar höfum við notið aðstoðar sjálfboðaliða og þörf fyrir fleiri.

Ef einhver getur hugsað sér að aðstoða við það þá tökum við því fagnandi.

Fyrst fá menn smánámskeið hjá mér eða Kalla á Basarnum því þetta þarf að gera rétt og uppfylla ákveðin gæðaviðmið.

Aftur snýst þetta um verðmæti.“

 

En fleira var gert til að efla þetta verkefni?


„Já, við höfðum samband við Íslandspóst og var samþykkt að taka á móti frímerkjum á öllum póststöðvum og síðan að senda þær til okkar í janúar.

Það er enn í gangi en við höfum ekki auglýst það mikið síðustu árin.

Þegar mest var fengum við 50 kassa eftir janúarsöfnun á pósthúsunum, en nú frekar fá.“

 

Þess má geta að nýverið sótti starfsfólk skrifstofunnar fjóra kassa af frímerkjum á pósthúsið í Síðumúla, sumt hafði safnast þar og annað verið sent.

 

Nú var salan óvenjumikil í fyrra, hvernig stendur á því þegar frímerkjanotkun fer minnkandi?

„Samfélagið hefur breyst mikið á þessum 25 árum, nú senda fáir bréf, flest samskipti eru rafræn, á netinu, skeyti, skilaboð, bréf og gögn send.

Og með aðstoð netsins er miklu auðveldara að hringja nánast hvar sem er og hvert sem er.

Á móti kemur að upplag, t.d. íslensku frímerkjanna, er minna en var áður.

Þess vegna verða þau eftirsóknarverðari og dýrmætari en frímerkin sem eru 40–60 ára gömul.

Stundum fáum við frímerkjasöfn og þau gefa vel af sér; reyndar fer það eftir því hvernig þau eru.

Aðalástæða þess að við seldum mikið í fyrra er sú að okkur tókst að selja meira af gömlum lager ef svo má segja sem safnaðist upp á COVID-tímanum.

Þá var niðursveifla í þessu sem okkur tókst að vinna upp að miklu leyti.

Auk þess berst minna af frímerkjum en áður, en eins og ég benti líka á eru þau nýju oft verðmætari en þau gömlu.“

 

Að halda þetta út og leggja alla þessa vinnu í þetta, hvað gefur það þér?

„Ég er frímerkjasafnari sjálfur, þetta er mitt áhugasvið.

Þetta er besta leiðin fyrir mig til að slaka á.

Ég gleymi stað og stund og næ að gleyma öllu stressi og áhyggjum.

Þetta er eiginlega sálræn þerapía eða meðferð í daglegu amstri og stressi.

Og svo er gott að þetta rennur til mikilvægra verkefna úti í heimi og verður öðrum til blessunar.

Þetta er minn stuðningur eða mín þátttaka í kristniboðsstarfinu, sem fylgir mikil blessun.

Og þessi góða sala í fyrra var mikið gleðiefni og gerði að verkum að fjárhagshalli síðasta árs hjá SÍK varð minni en ella.“

 

Og þú þekkir það af eigin raun?

„Já, ég bjó á námsárunum um tíma á stúdentaheimilinu á Fjellhaug í Osló og kynntist þar nemendum kristniboðsskólans sem er á sama stað.

Ég eignaðist þar góða vini og það leiddi til þess að ég heimsótti Pókot í Keníu árið 1989.

Þar fékk ég að sjá starfið með eigin augum og kynnast lífi og starfi kristniboðanna.“

 

Og eitthvað að lokum?

„Já, ég minni á seðla og mynt fyrri ára og eins frá útlöndum, bæði gamalt og nýtt.

Sigurjón Gunnarsson tók að sér að sinna þeirri deild.

Erlendir peningar eru þá seldir til fólks sem er að fara til útlanda eða seldir söfnurum.“

Að lokum segir sr. Ragnar:

"Jarle á mikið hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið allan þennan tíma.

Tekið er á móti frímerkjum, mynt og seðlum á Basarnum, Austurveri, Háaleitisbraut 68, kl. 12-18 mánudaga til fimmtudaga og föstudaga 12-17."

 

slg


  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Leikmenn

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar