Í páfagarði

24. júní 2024

Í páfagarði

Sendinefnd LH með páfa

Fyrsti stjórnarfundur nýrrar stjórnar Lútherska heimssambandsins fór fram fyrr í þessum mánuði.

Kirkjan.is sagði frá ályktunum  sem þar voru samþykktar.

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands er varaforseti sambandsins og sótti stjórnarfundinn ásamt Magneu Sverrisdóttur, djákna, verkefnastjóra samkirkjumála á biskupsstofu og ráðgjafa sambandsins.

Dr. Arnfríður prédikaði við messu sem haldin var í tengslum við stjórnarfundinn.

Eftir að honum lauk fór sendinefnd á fund páfa í Róm og var dr. Arnfríður í þeirri sendinefnd.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við dr. Arnfríði og spurði hana:

Hvernig kom það til að fulltrúar Lútherska heimssambandins færu til Rómar?

Dr. Arnfríður sagði:

„Það var ákveðið að nýkjörnir leiðtogar sambandsins færu til Rómar til að funda með fulltrúum rómversk kaþólsku kirkjunnar í framhaldi af stjórnarfundi sambandsins í Genf um miðjan júní.

Ásamt Henrik Stubkjær, forseta LH, og Anne Burghardt, aðalritara, voru í sendinefndinni varaforsetar og yfirmenn á skrifstofu sambandsins í Genf.

Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna nýja stjórn LH fyrir leiðtogum í Róm og ræða um framhald samkirkjulegs samtals á milli fulltrúa lúthersku og rómversk kaþólsku kirkjunnar.

Fyrsti fundurinn var með Kurt Koch kardinála, sem er yfirmaður samkirkjumála í páfagarði.

Fundurinn með Koch fór fram í Vatikaninu 19. júní, en þar var rætt um helstu áfanga í samræðum kirkjudeildanna á síðustu áratugum og mikilvægi áframhaldandi samtals á komandi árum.

Síðar um daginn var fundað með Alistair Dutton, nýskipuðum aðalritara rómversk kaþólsku hjálparsamtakanna Caritas Internationalis, en LH á í nánu samstarfi við samtökin í hjálparstarfi sínu um allan heim.“

Hvernig fór fundurinn með Frans páfa fram?

„Árla morguns 20. júní fór sendinefndin á fund Frans páfa.

Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að árétta vilja LH til að halda áfram samtalinu við fulltrúa rómversk kaþólsku kirkjunnar.

Forseti sambandsins, Henrik Stubkjær, biskup í dönsku kirkjunni, ávarpaði páfa og lagði áherslu á það sem kirkjudeildirnar eiga sameiginlegt og mikilvægi þess að á næsta ári hæfist nýr kafli í samtali kirkjudeildanna sem vonandi skilaði niðurstöðum fyrir 2030, þegar haldið verður upp á 500 ára afmæli Ágsborgarjátningarinnar.

Stubkjær minnti á að upphaflega væri Ágsborgarjátningin skrifuð í samkirkjulegum tilgangi til að varðveita einingu innan Vesturkirkjunnar.

Því væri mikilvægt að byggja á þessari samkirkjulegu áherslu í áframhaldandi samtali.

Frans páfi hóf sitt ávarp á því að minnast þess að á næsta ári verða 1700 ár liðin frá fyrsta samkirkjulega kirkjuþinginu sem haldið var í Níkeu, þar sem lagður var grunnur að texta Níkeujátningarinnar.

Því næst minnti hann á 25 ára afmæli sameiginlegrar yfirlýsingar lúthersku og rómversk kaþólsku kirkjunnar um kenninguna um réttlætingu af trú Joint Declaration on the Doctrine of Justification sem var undirrituð í Ágsborg, Þýskalandi, 31. október 1999.

Yfirlýsinguna má finna hér.

Hann hvatti til þess að hennar væri minnst sem vitnisburðar um þær sameiginlegu rætur sem við eigum í trú á eina skírn til fyrirgefningar syndanna (Níkeujátningin) og getum því haldið örugg áfram veginn sem „pílagrímar vonarinnar”.

Að ávörpum loknum var páfa færð gjöf sem börn í Kraków í Úkraínu bjuggu til, lítill blómavasi sem búinn hafði verið til úr sprengjuhylki með marglitum blómum og táknar einlæga von barnanna um frið.

Það var ljóst að páfi var djúpt snortinn þegar hann tók við gjöfinni.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af byssukúlunni með blómum og mynd af Frans páfa með gjöfina.

Páfi óskaði eftir því að við færum að lokum saman með faðirvorið, hvert á sínu móðurmáli.

 

Hvað fannst þér koma út úr fundinum?

„Fyrst og fremst fannst mér mikilvægt að báðir aðilar væru sammála um mikilvægi samtalsins og þeirra áfanga sem sem náðst hafa, en einnig um nauðsyn þess að við höldum áfram að tala saman.

Það skiptir sköpum í svona samtali að leggja áherslu á það sem við eigum sameiginlegt eins og kom sterkt fram í máli beggja aðila.

Framundan eru tímamót sem gefa dýrmæt tækifæri til að halda upp á það sem við getum sameinast um.

Samtalið er lykill að áframhaldandi samskiptum og þó að við sjáum ekki fram á að verða sammála um allt, þá er nauðsynlegt að ágreiningsatriðin verði ekki til að koma í veg fyrir að við sameinumst um kjarnaatriði kristinnar trúar og getum fagnað einingunni mitt í margbreytileikanum“

sagði dr. Arnfríður að lokum.

 

slg


Myndir með frétt

  • Erlend frétt

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Trúin

  • Úkraína

  • Viðburður

  • Alþjóðastarf

Sr. Sigfús Jón Árnason

Andlát

29. jún. 2024
...sr. Sigfús Jón Árnason látinn
Biskup og fylgdarlið við hraunjaðarinn

Merkilegt hvað fólk heldur mikilli ró, styrk og bjartsýni

28. jún. 2024
...segir biskup Íslands um ferð sína til Grindavíkur
Sr. Sally Azar

Góður gestur frá landinu helga

28. jún. 2024
...á kirkjudögunum