Velheppnuð messuferð

25. júní 2024

Velheppnuð messuferð

Sunna Karen organisti og Magni Hreinn gítarleikari

Sumarstarf kirkjunnar er afar fjölbreytt eins og fram hefur komið í mörgum fréttum á kirkjan.is.

Messuhald í eyðibyggðum er áhugavert og í fyrra sagði kirkjan.is frá messuhaldi á Þönglabakka, í Loðmundarfirði, Aðalvík og víðar.

Laugardaginn 22. júní var messuferð til Aðalvíkur.

Siglt var með Sjóferðum frá Sundahöfn á Ísafirði og sem leið lá norður fyrir Rit.

Skipstjóri í ferðinni var Stígur Berg Sophusson.

Þegar í land var komið var gengið fram að Stað.

Sr. Magnús Erlingsson sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli og prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi segir að messan í Staðarkirkju hafi tekist vel og þéttsetið hafi verið á bekkjunum.

„Ég lagði út frá orðum Jesú í fjallræðunni um flísina í auga náungans og bjálkann í eigin auga.

Organisti var Sunna Karen Einarsdóttir og var vel tekið undir allan sálmasöng.

Magni Hreinn Jónsson lék forspil á gítar“ segir sr. Magnús og bætir við:

„Að messu lokinni buðu átthagafélögin upp á kirkjukaffi í gamla prestssetrinu, en það líkt og kirkjan, hefur verið gert upp og er í prýðilegu standi.

Um kvöldið var svo haldið harmónikkuball í samkomuhúsinu.

Það voru því þreyttir ferðalangar, sem komu heim til hafnar á Ísafirði eftir miðnættið en í farteskinu höfðu þeir með sér minningar um vel heppnaða messuferð“

segir sr. Magnús að lokum.

 

Á íslenska ferðavefnum  segir meðal annars um Aðalvík:

„Aðalvík er á Hornströndum, næst norðan við Ísafjarðardjúp, milli Rits og Straumness.

Hún er 6-7 km breið en lítið eitt lengri.

Fjöllin á báða bóga eru sæbrött en nokkurt undirlendi er fyrir botni víkurinnar með sendinni strönd.

Það er klofið af fjallarönum, sem skipta því í þrennt og er torvelt að fara þar á milli á landi.

Yzt að sunnan er lítill dalur, Skáladalur.

Þar var fyrrum útræði og verstöð.

Upp af Aðalvík ganga fjórir dalir, syðstur er Staðardalur.

Fyrir neðan hann er Sæból.

Þar var vísir til þorps með um 70 íbúum, þegar flest var.

Inni í dalnum var prestssetrið Staður.

Ennþá standa allmörg hús í þessum yfirgefnu byggðum, sem afkomendur íbúanna halda við og nota á sumrin.

Lendingar eru erfiðar í Aðalvík, enda fyrir opnu hafi, en skammt var til fiskimiða.

Víða er þar grösugt og góðar engjar en mjög hefur öllum gróðri farið þar fram síðan byggðin eyddist.

Aðalvík er nú öll í eyði og hefur svo verið síðan 1952.“


slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Biblían

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju