Sr. Aldís Rut ráðin

28. júní 2024

Sr. Aldís Rut ráðin

Sr. Aldís Rut Gísladóttir

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir presti til þjónustu við Grafarvogsprestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Umsóknarfrestur var til miðnættis 11. júní.

Prestakallið

Sóknarmörk Grafarvogssóknar eru Elliðaár að vestan, Vesturlandsvegur að sunnan að borgarmörkum við Blikastaði.

Í Grafarvogssókn er ein sóknarkirkja, Grafarvogskirkja og Kirkjusel í Borgum í Spöng.

Valnefnd valdi sr. Aldísi Rut Gísladóttur, prest í Hafnarfjarðarkirkju, til starfsins.

Sr. Aldís Rut er fædd á Sauðárkróki 5. febrúar 1989.

Hún er alin upp í Glaumbæ í Skagafirði, yngst fjögurra systkina, en hún er dóttir sr. Gísla Gunnarssonar vígslubiskups á Hólum og Þuríðar Kristjönu Þorbergsdóttur, sjúkraliða.

Hún lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands árið 2017 og útskrifaðist með ágætiseinkunn.

Sama ár lauk hún yogakennaranámi.

Auk þess er hún með diplómagráðu í sálgæslu sem og mastersgráðu í guðfræði og fléttaði hún þar saman tvö áhugamál í mastersritgerðinni þar sem hún fjallaði um sálgæsluna og Gamla testamentið.

Einnig hóf hún nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf árið 2021.

Sr. Aldís Rut vígðist í Hóladómkirkju árið 2019 sem prestur við Langholtskirkju í Reykjavík og starfaði þar til ársins 2022, en þá hóf hún störf við Hafnarfjarðarkirkju í afleysingu og var fastráðin þar í febrúar 2023.

Hún hefur unnið frá unga aldri innan kirkjunnar og samhliða háskólanámi í guðfræði var hún í kirkjustarfi.

Hún er gift Ívari Björnssyni, bílasmið og eru þau búsett í Grafarvogi.

Þau eiga þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku.

Fréttaritari kirkjan.is spurði sr. Aldísi Rut hver væru hennar helstu áhugamál í kirkjustarfi?

„Ég hef mikinn áhuga á helgihaldinu, sit í handbókarnefnd og legg mikla áherslu á að hafa helgihald fjölbreytt og málfar sem höfðar til allra.

Ég hef einnig mikinn áhuga á starfi með foreldrum og ungum börnum þeirra, hef lengi verið með foreldramorgna og tel að það sé starf sem við getum eflt mjög mikið.

Í nýrri fræðslustefnu þjóðkirkjunnar er mikið fjallað um geðrækt og geðheilbrigði og finnst mér frábært að við séum að leggja áherslu á það.

Við höfum einstakt tækifæri til að nálgast fólk á viðkvæmum, krefjandi, oft erfiðum en einnig gleðilegum tíma þegar fólk er með ung börn og ættum við að hlúa vel að þeim hópi.

Ég hef mikinn áhuga á fermingarstarfinu sem og barnastarfi og eins hef ég mikinn áhuga á sálgæslu, yoga og djúpslökun og hef leitt kyrrðardaga í Hafnarfjarðarkirkju ásamt Bylgju Dís Gunnarsdóttur samskipta- og æskulýðsfulltrúa og hafa þeir dagar heppnast einstaklega vel og verið vel sóttir“

segir sr. Aldís Rut Gísladóttir nýráðinn prestur við Grafarvogsprestakall.

 

slg


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

Kór Saurbæjarprestakalls

Fáir staðir sem hæfa betur undir hátíðarhöldin

22. okt. 2024
...hátíð á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd
Menningarvika í Neskirkju.jpg - mynd

Mikil menningarvika í Neskirkju

22. okt. 2024
...Neskirkja minnist Hallgríms Péturssonar
Biskup með sóknarnefnd Þórshafnarkirkju-mynd Heimir Hannesson

Biskup Íslands í kirkjuafmæli á Þórshöfn

21. okt. 2024
...söfnuðurinn hélt upp á 25 ára afmæli kirkjunnar