Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

1. júlí 2024

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragaðafræðideild Háskóla Íslands, er varaforseti Lútherska heimssambandsins.

Hún er einnig fulltrúi í stjórn Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins (World Service) á tímabilinu 2023–2030.

Hún skrifar eftirfarandi pistil til birtingar á kirkjan.is.

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins

Annar af tveimur árlegum fundum í stjórn hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins (World Service) var haldinn í Sviss, á sama tíma og stjórnarfundur sambandsins stóð þar yfir um miðjan júní s.l.

Hjálparstarfið var sett á stofn árið 1952 til að sinna mannúðar og þróunarstarfi á vegum sambandsins.

Starfið er umfangsmikið, en það fer fram í 26 löndum, í Afríku, Asíu, Mið-Austurlöndum, Evrópu, Suður-Ameríku og Karabíahafinu.

Árið 2023 nutu alls 2,6 milljón einstaklinga aðstoðar á vegum hjálparstarfsins, en stærstur hluti þeirra sem starfa á vegum þess er heimafólk.

45% þeirra sem þáðu aðstoð voru yngri en 18 ára.

Þess má geta að Hjálparstarf íslensku þjóðkirkjunnar er í samstarfi við LH í verkefnum sínum erlendis.

Í hjálparstarfi LH er lögð áhersla á langtíma aðstoð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar sem leitast er við að valdefla fólk sem býr við hörmulegar aðstæður, oftar en ekki á stríðshrjáðum landsvæðum.

Hér er um að ræða fólk sem hefur hrakist frá heimilum sínum og er á flótta, annað hvort í heimalandi sínu eða á framandi slóðum.

Hjálparstarf LH er á meðal tíu stærstu samstarfsaðila Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og annar stærsti samstarfsaðilinn sem starfar á trúarlegum grundvelli.

Sem dæmi má nefna að eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur verið rekið öflugt hjálparstarf í Úkraínu og Póllandi, í samvinnu við lútherskar kirkjur, bæði heimakirkjur og kirkjur í nágrannalöndunum.

Umfangsmesti pósturinn í hjálparstarfi LH hefur frá upphafi verið í Jerúsalem, en starfið þar hófst árið 1948 á meðal flóttafólks frá Palestínu.

Augusta Victoria spítalinn er á Olíufjallinu í austur Jerúsalem og er í eigu sambandsins sem hefur rekið hann frá 1950.

Spítalinn hefur á undanförnum árum m.a. sérhæft sig í krabbameinslækningum.

Auk þjónustu innan spítalans hefur hjálparstarf LH staðið fyrir margvíslegri heilbrigðis- og félagsþjónustu fyrir íbúa á Vesturbakkanum og á Gaza.

Síðan í október á síðasta ári hefur þetta starf verið í uppnámi.

Starfsemin á Augusta Victoria spítalanum hefur síðustu mánuðuna ekki verið svipur hjá sjón þar sem fólkið sem áður sótti þjónustu þangað hefur ekki komist leiðar sinnar.

Hið sama er að segja um starfsfólk spítalans sem býr á Gaza og á Vesturbakkanum.

Yfirmaður spítalans, dr. Fadi Atrash, kom í heimsókn til Genfar í byrjun mars á þessu ári.

Hann hafði þetta að segja um ástandið heima fyrir:

"Við höfum ekki bara áhyggjur af fólkinu sem særist í þessu stríði, heldur líka af fólkinu sem er nú þegar mjög veikt.

Þannig geta 8000 krabbameinssjúklingar ekki fengið viðeigandi þjónustu.

700 einstaklingar sem hafa verið greindir með krabbamein á síðustu fjórum mánuðum hafa ekki haft aðgang að læknisþjónustu."

https://lutheranworld.org/news/humanity-risk-warns-avh-ceo-fadi-atrash

Ástandið er skelfilegt og erfitt að ímynda sér hver þróunin verður á næstu mánuðum og árum.

Ljóst er að það verður áfram rík þörf fyrir hjálparstarf á þessum slóðum eins og það sem LH hefur staðið fyrir síðustu 75 árin.

Ný stefna hjálparstarfsins var samþykkt af stjórn LH á fundi hennar í júní og gildir fram til næsta heimsþings sambandins árið 2030.

Yfirskrift stefnunnar er „For hope and a Future“ og byggir á texta úr spádómsbók Jeremía 29.11, þar sem segir:

„...fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð".

Í stefnunni er lögð áhersla á heildræna nálgun, mannréttindi og mannlega reisn, sem og kynja- og loftslagsréttlæti.

Starf hjálparsamtaka var sérstaklega krefjandi árið 2023 og þörf á neyðaraðstoð um víða veröld hefur sjaldan verið meiri.

Því miður er ekkert sem bendir til þess að ástandið batni á yfirstandandi ári.

Það er á brattann að sækja varðandi fjármagn og hætturnar sem starfsfólk hjálparsamtaka býr við verða sífellt alvarlegri.

En hjálparstarfið heldur áfram og daglega fær fjöldi fólks aðstoð, sem veitir von um framtíð.

Ég vil hvetja lesendur til að kynna sér viðamikið hjálparstarf Lútherska heimssambandsins á heimasíðu  þess.

 

slg


Myndir með frétt

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir varaforseti LWF
  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Fundur

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Lútherska heimssambandið

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Alþjóðastarf

Sr. Erla Björk Jónsdóttir

Vel mætt í bænastundir

30. jún. 2024
...í Dalvíkurkirkju
Sr. Guðrún kveður

Húsfyllir við kveðjumessuna

30. jún. 2024
...sr. Guðrún kveður Grafarvogssöfnuð