Laust starf sóknarprests

12. júlí 2024

Laust starf sóknarprests

Breiðabólstaðarkirkja

Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu við Breiðabólstaðarprestakall í Suðurprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. nóvember n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Odda og Fellsmúlaprestakalli.

Breiðabólstaðarprestakall samanstendur af fimm sóknum:

Stórólfshvolssókn sem er stærst, Breiðabólstaðarsókn, Hlíðarendasókn, Akureyjarsókn og Krosssókn.

Heildarfjöldi íbúa er 1.824, þar af 1.091 í þjóðkirkjunni.

Í prestakallinu eru sex guðshús: Stórólfshvolskirkja á Hvolsvelli, Breiðabólstaðarkirkja, Hlíðarendakirkja, Akureyjarkirkja, Krosskirkja og Voðmúlastaðakapella.

Prestsbústaður er á Breiðabólstað og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 862 6585 eða á netfangið halldorath@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 6. ágúst 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, að liðnum umsóknarfresti.

Hér  er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Breiðabólstaðarprestakall - þarfagreining

Lýsing á prestakallinu og sóknum þess:

Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Odda og Fellsmúlaprestakalli.

Breiðabólstaðarprestakall samanstendur af fimm sóknum:

Stórólfshvolssókn sem er stærst, Breiðabólstaðarsókn, Hlíðarendasókn, Akureyjarsókn og Krosssókn.

Heildarfjöldi íbúa er 1.824, þar af 1.091 í þjóðkirkjunni.

Í prestakallinu eru sex guðshús:

Stórólfshvolskirkja á Hvolsvelli, Breiðabólstaðarkirkja, Hlíðarendakirkja, Akureyjarkirkja, Krosskirkja og Voðmúlastaðakapella.

Prestsbústaður er á Breiðabólstað og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins.

Einnig er möguleiki á starfsaðstöðu í safnaðarheimilinu á Hvolsvelli og í safnaðarheimilinu við Krosskirkju (nefnt Systkinahús).

Prestur hefur aðsetur á prestssetrinu á Breiðabólstað en á því fara nú fram gagngerar endurbætur sem gert er ráð fyrir að ljúki þegar líður á haustið.

Prestsbústaðurinn er rúmgott fjölskylduhús og gert er ráð fyrir að prestur búi þar með fjölskyldu sinni.

Jörðinni fylgir nokkur fullvirðisréttur sem æskilegt er að prestur nýti sér sjálfur eða með samstarfi innan sveitarinnar.

Hvolsvöllur er stærsti byggðarkjarni prestakallsins og þar búa flest sóknarbörnin.

Þar er leikskólinn og grunnskólinn og tónlistarskóli sýslunnar er með aðsetur þar.

Í prestakallinu er landbúnaðarsamfélag með sífellt aukinni og fjölbreyttri ferðaþjónustu í öllu héraðinu auk annarrar þjónustu.

Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa og ferðaþjónusta.

Stórólfshvolskirkja var byggð úr timbri árið 1930 og járnvarin.

Hún tekur 120 manns í sæti.

Árið 1955 var hún endurnýjuð verulega, byggt við hana skrúðhús og sönglofti bætt í hana.

Gréta og Jón Björnsson skreyttu hana að innan við það tækifæri.

Altaristaflan er eftir Þórarin B. Þorláksson og sýnir Jesú og börnin.

Á turninum er ljósakross.

Ýmsar endurbætur hafa verið gerðar á kirkjunni hin síðari ár og er stefnt að lagfæringum á henni að innan fljótlega.

Safnaðarheimili er við kirkjuna sem er vel nýtt fyrir ýmsa starfssemi safnaðarins.

Kirkja hefur verið á Breiðabólstað síðan á 11. öld og þar er prestssetrið.

Núverandi kirkja var byggð 1911 og vígð 1912 og er krosskirkja teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt.

Í henni eru margir merkir gripir.

Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli.

Henni hefur í áranna rás verið vel við haldið.

Safnaðarheimili var byggt árið 2002 og nýlega hefur kirkjugarðurinn verið stækkaður.

Kirkju á Hlíðarenda er þegar getið í máldaga Páls biskups Jónssonar sem skráður var um 1200.

Hlíðarendakirkja var byggð 1898 úr timbri og járnvarin og tekur 150 manns í sæti og hefur henni verið haldið vel við.

Ólafur Túbals, listmálari, frá Múlakoti gerði helgimyndirnar í henni.

Hlíðarendakirkja var aflögð 1802 og sóknin lögð til Teigs en þar og í Eyvindarmúla voru kirkjurnar lagðar niður 1896 og sóknirnar sameinaðar með kirkju að Hlíðarenda.

Akureyjarsókn varð til árið 1912, þegar Voðmúlastaða- og Sigluvíkursóknir voru sameinaðar með kirkju í Akurey.

Kirkjan var byggð úr timbri og vígð 1912.

Eftirmynd af Kristi og barninu eftir Carl Blochs, sem var máluð í kringum 1880, er altaristafla kirkjunnar.

Akureyjarkirkja er smíðuð eftir sömu teikningu og Grindavíkurkirkja frá 1909.

Henni hefur verið haldið vel við á síðari árum sem og kirkjugarðinum.

Kirkjan tekur um 130 manns í sæti.

Krosskirkja sem nú stendur var byggð árið 1850 og er elsta kirkja sýslunnar.

Víðtækar endurbætur á henni hafa farið fram í áranna rás og standa m.a. yfir en verið er að færa kirkjuna í upprunalegt horf.

Altaristaflan er frá 1650.

Árið 2001 var reist safnaðarheimili við kirkjuna.

Voðmúlastaðakapella er innan Krosssóknar og var vígð 1946 eftir kirkjuleysi á staðnum síðan 1912.

Kapellan var byggð fyrir gjafafé og vinnan gefin.

Aðeins einn hlutur er í kapellunni sem var í Voðmúlastaðakirkju og það er kirkjuklukkan.

Organisti er í fullu starfi en hann sinnir bæði Breiðabólstaðar- og Oddaprestakalli.

Tveir kirkjukórar eru starfandi við kirkjurnar í prestakallinu en þeir æfa saman og er gott samstarf þeirra á milli.

Að jafnaði eru um 50 guðsþjónustur á ári í prestakallinu og þjónusta er við hjúkrunar og dvalarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli.

Í vetur var gerð tilraun til að færa kirkjuskólann í miðja viku og fengin aðstaða í skólanum til að mæta þeim börnum sem taka skólabíl.

Sóknarbörn voru mjög ánægð með þessa breytingu og gífurleg fjölgun varð á mætingu.

Samningur er við KFUM og KFUK sem stýrir barna- og unglingastarfi í safnaðarheimili Stórólfshvolskirkju.

Greining á helstu styrkleikum og veikleikum:

Kirkjunum er vel við haldið, sem og öll umhirða kirkjugarða.

Ráðdeild er alls staðar í rekstri.

Sóknarnefndir eru jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi.

Almennt eru góð tengsl kirkjunnar við söfnuðina og velvilji er í samfélaginu til kirkjunnar.

Kórastarf er gott og helgihald er með reglubundnum hætti.

Í minni sóknum er erfiðari rekstragrundvöllur vegna minni sóknargjalda og því þarf að gæta aðhalds í rekstri.

Þá þarf einnig að sinna vel viðhaldi kirknanna sem getur reynst erfitt og kostnaðarsamt og duga sóknargjöldin ekki.

Sóknarnefndir eru kappsamar um að efla messusókn.

Helstu áherslur í starfi:

Megináhersla er á að presturinn hafi breiða og almenna þekkingu á lífi og störfum fólks í dreifbýli og geti sinnt fjölbreyttu safnaðarstarfi, helgihaldi, barnastarfi og sálgæslu með mismiklum áherslum eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni.

Viðkomandi þarf að vera fær um að takast á við óblíð náttúröfl, erfiðar samgöngur og óvænta atburði sem reyna á styrk hans og kjark sem einstaklings þegar slíka atburði ber að höndum.

Vilji er til að standa vörð um og efla enn frekar það starf sem fyrir er í söfnuðunum.

Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli allra sem starfa í kirkjunum og því er nauðsynlegt að nýr prestur hafi áhuga og skýran vilja til samstarfs og samtals um það og hafi frumkvæði að nýjungum í helgihaldi og safnaðarstarfi og sé reiðubúinn að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi í samvinnu við sóknarfólk.

Einnig er lögð áhersla á þekkingu og áhuga á barna- og unglingastarfi og að prestur hafi umsjón með þeim þætti starfsins.

Mikilvægt er að prestur sé þátttakandi í samfélaginu, gleði- og sorgarstundum fólksins sem og þeirra hversdagslega lífi.

Starfið í kirkjunni á að endurspegla tengingu kirkjunnar við samfélagið og að prestur sé sýnilegur og virkur meðal sóknarbarna.

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju
Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu
Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins