Fjörutíu ár frá endurreisn kirkjunnar að Knappsstöðum

19. júlí 2024

Fjörutíu ár frá endurreisn kirkjunnar að Knappsstöðum

Knappsstaðakirkja- mynd Halldór Gunnar Hallfdanarson

Eins og kirkjan.is hefur greint frá í sumar er sumarstarf kirkjunnar með öðru sniði en vetrarstarfið.

Það sem helst einkennir sumarstarfið er að þá er oft messað í litlum kirkjum sem annars er messað í aðeins einu sinni á ári.

Hin árlega Knappsstaðamessa var haldin um síðustu helgi.

Hún er að sögn Halldórs Gunnars Halfdanarsonar bónda á Molastöðum í Fljótum og sóknarnefndarformanns í Barðssókn, „löngu orðin að hefð sem við í Fljótum höldum fast í.“

Kirkja hefur verið á Knappsstöðum frá því mjög snemma á öldum og þar sátu prestar sóknarinnar.

Knappsstaðabrauð þótti þó alltaf með rýrari brauðum, enda er Stífla snjóþung og þótti harðbýl þótt sumarfagurt hafi verið þar áður en Skeiðsfossvirkjun sökkti stórum hluta sveitarinnar undir vatn.

 

„Að venju kemst einungis hluti gesta inn í litlu Knappsstaðakirkju“ segir Halldór á facebook síðunni Skín við sólu, „en úti í kirkjugarði sitja margir og spjalla og að messu lokinni er boðið upp á kaffi, en heimilin í sveitinni leggja fram kaffibrauð og fá allir sem að því stóðu kærar þakkir.

Sumir gestana komu á hestbaki til messunnar sem er órjúfanlegur hluti af þessari hefð.“

Sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur í Skagafjarðarprestakalli og prófastur í Húnavatns og Skagafjarðarprófastsdæmi prédikaði og þjónaði fyrir altari og naut aðstoðar Sigurbjargar Rögnvaldsdóttur meðhjálpara og kirkjuvarðar á Sauðárkróki.

Rögnvaldur Valbergsson lék undir á hið forna orgel kirkjunnar.

Og Halldór heldur áfram:

„Í ár eru 40 ár liðin frá endurreisn kirkjunnar og við skulum gefa henni Gunnu í Helgustöðum orðið:

"Guðbjörg Indriðadóttir var aðalhvatamaður að því að við boðuðum til fundar 19. júní 1984 á Ketilási þar sem áhugamannafélag um varðveislu Knappstaðakirkju var stofnað.

Þar var Ríkharður Jónsson fundarstjóri og 24 mættu á þennan fyrsta fund og fyrsta stjórn félagsins var kosin þar þ.e. Hjördís Indriðadóttir, Guðrún Hanna Halldórsdóttir og Guðbjörg Indriðadóttir.

Meðstjórnendur voru kosnir, Sigurlína Kristinsdóttir, Ásgrímur Sigurbjörnsson og RíkharðurJónsson.

Stofnfélagar voru 24 fundargestir og 3 sem báðu símleiðis um að vera skráðir stofnfélagar."

Það er ljóst að framtak þessara Fljótakvenna varð til þess að bjarga Knappsstaðakirkju en hún var orðin illa farin fyrir 40 árum og upp komu hugmyndir um að flytja hana á Löngumýri í Skagafirði.

Knappsstaðakirkja er líklega elsta timburkirkja landsins, reist upphaflega árið 1834, en sóknin var sameinuð Barðssókn árið 1880.

Knappsstaðir fóru í eyði árið 1974.

Til að heiðra minningu Guðbjargar Indriðadóttur er messan yfirleitt haldin annan sunnudag í júli, en Guðbjörg fæddist 10. júlí árið 1941 en lést árið 1986.“

 

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá messunni og hve glatt var á hjalla meðal kirkjufólks í kirkjugarðinum.

Það var Halldór Gunnar Halfdanarson sem tók allar myndirnar.


slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar