Segja þarf sögurnar af daglegu kirkjustarfi hátt og skýrt

19. júlí 2024

Segja þarf sögurnar af daglegu kirkjustarfi hátt og skýrt

Heimir Hannesson

Heimir Hannesson hóf störf á Biskupsstofu 1. júlí síðastliðinn og er þar verkefnaráðinn til eins árs, sem samskiptastjóri þjóðkirkjunnar.

Fréttaritari kirkjan.is innti hann eftir því hvernig nýja starfið leggist í hann.

„Þetta leggst alveg rosalega vel í mig, og mér finnst þetta allt fara vel af stað“

segir Heimir um fyrstu dagana í starfi.

„Þjóðkirkjan er svo miklu meira en bara kirkjan, og ég gerði mér engan veginn grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fer fram innan hennar veggja á hverjum degi.

Mér til varnar, held ég að það séu alls ekkert allir sem geri sér almennilega grein fyrir því“ segir Heimir.

„Ég hreinlega fullyrði að það er enginn vinnustaður sem setur viðhald fasteigna, útgáfu sálmabóka, skipulag móttöku erlendra gesta og messuhald í Skálholti á dagskrá eins og sama starfsmannafundarins“ bætir hann við.

„Þessa dagana er unnið að því að setja þjóðkirkjunni raunhæf og mælanleg markmið á sviði samskipta og að smíða svo leiðarvísi að þeim markmiðum.

„Þessi heimur samskipta er svo síbreytilegur“ segir Heimir.

„Aðferðir sem við til dæmis sáum notaðar á samfélagsmiðlum fyrir nokkrum árum eru úreltar í dag, þó samfélagsmiðlarnir séu þeir sömu.

Fjölmiðlar breytast og hvernig almenningur sér og nýtir sér fjölmiðla breytist.

Það er því í senn eðlilegt og nauðsynlegt að samskiptamál séu rýnd og endurskoðuð reglulega.

Aðspurður um verkefnin framundan segir hann þau bæði fjölbreytt og krefjandi.

„Kirkjan er stofnun sem mér finnst eiga alveg svakalega mikið inni, og það hefur verið „lenska“ í samfélaginu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum að einblína á vandamálin.

Í tilfelli Þjóðkirkjunnar hefur það þýtt að þau fjölmörgu góðu verkefni sem hún vinnur að á hverjum degi verða stundum undir.“

Heimir segir að úr hafi orðið gjá á milli þeirra sem nýta sér þjónustu kirkjunnar og gera það ekki.

„Við höfum séð á könnunum að mikill meirihluti þeirra sem þekkja starf kirkjunnar, starfa þar sem sjálfboðaliðar eða nýta sér á einhvern hátt þjónustu hennar, segjast hafa mjög jákvætt viðhorf gagnvart Þjóðkirkjunni.

Kannanir hafa á sama tíma sýnt að þau sem þekkja lítið til innra starfs Þjóðkirkjunnar og nýta sér það ekki eða lítið, þau eru neikvæðari gagnvart henni.

Úr þessari jöfnu er ekki flókið að leysa“ segir Heimir.

Hann segir að sameiginlegt verkefni allra sem standa með Þjóðkirkjunni næstu misseri verði því að leyfa henni að blómstra.

„Við þurfum að vera montnari af því sem við erum að gera.

Við eigum það alveg inni að monta okkur.

Þegar fólk segir að kirkjur séu tómar allt árið, þá eigum við að segja nei, það er bara ekki rétt.

Kirkjur landsins eru fullar af fólki að fagna með brúðhjónum, og syrgja látna ættingja og ástvini.

Þær eru fullar af fermingarbörnum í fermingarfræðslu og eldri borgurum og það eru helgistundir og djúpslökun og prjónaklúbbar og sorgarhópar og sunnudagaskólar og svona gæti ég lengi talið.

Sálgæslu- og fjölskylduþjónustan.

Hjálparstarf kirkjunnar og þátttaka okkar í mannúðaraðstoð erlendis í gegnum Lútherska heimssambandið.

Á vegum kirkjunnar þjónar prestur fatlaðra, prestur fanga, prestur heyrnarlausra, prestur innflytjenda sjúkrahúsprestar og fleiri.

Ég get ekki séð að önnur trúfélög, ríki eða sveitarfélög séu að slást um að taka þessi verkefni frá okkur.

Eftir nokkrar vikur í starfi er ég farinn að sjá þetta sem mitt höfuðmarkmið:

Að búa um hnútana þannig að sögurnar sem verða til í daglegu starfi kirkjunnar séu sagðar, hátt og skýrt.

Heimir er giftur Helgu Margréti Marzellíusardóttur, kórstjóra og tónskáldi, og búa þau í Reykjavík með stelpunum sínum Margréti og Hrefnu.

Heimir nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi við Waseda háskóla í Tókýó og George Washington University í Washingtonborg Bandaríkjanna.

Heimir hefur komið víða við síðan þá.

Hann hefur starfað sem blaðamaður, unnið í ýmiss konar kosningabaráttu og annast samskipta og almannatengsl fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

 

En afhverju þjóðkirkjan?

„Fyrst og síðast þykir mér mikilvægt að þjóðkirkjunni vegni vel í samfélaginu okkar.

Að um hana ríki sátt og friður og að hún sinni sínum nauðsynlegu samfélagslegu verkefnum á fullum afköstum.

Ég held að ég hefði orðið alveg frábær prestur, en afleitur guðfræðingur.

Þegar mér svo gefst tækifæri til þess að aðstoða þjóðkirkjuna á ögn veraldlegri nótum með því að gera það sem ég kann að gera, þá stökk ég á það boð án þess að hugsa mig um“

segir Heimir.

„Svo er reyndar alveg rosalega erfitt að segja nei við nýja biskupinn okkar“ bætir hann við að lokum, ögn glettinn og á við sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur nýkjörinn biskup Íslands, sem vígð verður þann 1. september næstkomandi í Hallgrímskirkju í Reykjavík.


slg







  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Lútherska heimssambandið

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

Diddú og Bergþór

Síðustu hádegistónleikar í Bleikum október

29. okt. 2024
...Diddú og Bergþór Pálsson
Nokkur mættu í Valgerðartísku á fyrirlesturinn

Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

29. okt. 2024
...fyrirlestur um Valgerði Jónsdóttur og Hallgrímsmessa
Forsíða vegna kynningar.jpg - mynd

Skírnarguðfræði Lúthers

29. okt. 2024
...lúthersk skírnarguðfræði á Íslandi