"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júlí 2024

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

Málþingið var fjölsótt

Tvö málþing voru haldin í Skálholti í dag þann 20. júlí við upphaf Skálholtshátíðar.

Málþingin voru á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.

Hlutverk Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar er að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi.

Málþing um frið og von fyrir botni Miðjarðarhafs var í morgun milli kl. 10:00 og 12:00 og eftir hádegi var málstofa um dr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Fyrirlesarar voru dr. Munther Isaac, prestur lúthersku kirkjunnar í Betlehem og dr. Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor við Williams háskóla í Massachusettes í Bandaríkjunum auk viðbragða frá frá Ólöfu Ragnarsdóttur fréttamanni á RÚV, sem bjó um tíma í Palestínu og þekkir vel til aðstæðna þar.

Erindi dr. Munther Isaacs var því miður í fjarfundi, en íslensk stjórnvöld lögðu sitt að mörkum til að fá vegabréfsáritun fyrir hann, en það fékkst því miður ekki.

Dr. Munther Isaac er þekktur fyrir sterka og mikla baráttu fyrir réttindum Palestínumanna, sem hann segir að hafi verið fótum troðin af Ísrael allt frá árinu 1948 og jafnvel lengur.

Hann sagði að það sem einkenndi afstöðu Ísrael væi heimsvaldastefna, kynþáttafordómar og trúarbragðahroki.

Benti hann meðal annars á ritningargreinar í Gamla testamentinu þar sem hvatt er til átaka gegn nágrönnum sínum, þar sem Guð hafi kallað Ísrael hina útvöldu þjóð.

Hann sagði að því miður gæti hann ekki boðað von um frið, en hann sagði að þrautsegja Palestínumanna væri það sem héldi þeim á lífi.

Hann hikaði ekki við að tala um að það sem væri að gerast á Gaza núna væri þjóðarmorð og gagnrýndi vestrænar þjóðir fyrir að styðja við Ísrael og þá sérstaklega Bandaríkin.

Dæmi sem hann tók var átakanlegt:

Hann sagði að ef byssumaður réðist inn í skóla með 100 börnum í Texas þá myndi lögreglan ekki sprengja upp skólann til að ráða byssumanninn af dögum.

En það er það sem Ísrael er að gera á Gaza.

Þeir ráðast á skóla og sjúkrahús í þeirri von að þar leynist Hamas liðar.

Í lokin sagði hann að þetta stríð gæti þróast þannig að Vesturbakkinn væri næstur á dagskrá í áætlun Ísrael.

Dr. Magnús Þorkell sem er bæði sagnfræðingur og guðfræðingur og prófessor í sögu Mið-Austurlanda rakti sögu átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs alveg frá árinu 1948.

Sýndi hann runu ártala þar sem alvarleg átök höfðu átt sér stað.

Kom þá í ljós að átökin verða æ þéttari og alvarlegri.

Þau hafa stigmagnast allt frá aldamótum og aldrei verið eins alvarleg og nú.

Skotmörkin í þessu stríði séu ekki hernaður, heldur almennir borgarar.

Hann segir að hugsunarhátturinn sé þessi hjá Ísrael:

Ég get þetta og þá má ég gera þetta.

Álit hans er að ef Vesturlönd sýni ekki meiri andstöðu þá muni Ísrael ganga lengra og lengra.

Hann taldi afar mikilvægt að bæði Evrópulönd og Bandaríkin sýni meiri andstöðu við stigmagnandi átök fyrir botni Miðjarðarhafs.

Að lokum bar hann upp eftirfarandi spurningar okkur til umhugsunar:

Hvað er framundan:

Vopnahlé/mannúpðarhlé. Hlé?

Ábyrgð alþjóðasamfélagsins/SÞ?

Hernám Ísraela

Tveggja ríkja lausn? Eitt ríki?

Uppbygging Palestínu

Samfelld ríki („parallel states“)

 

Bogi Ágústsson formaður stjórnar Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar setti málþingið og sr. Matthildur Bjarnadóttir, prestur í Garðaprestakalli og stjórnarkona í stofnuninn stýrði umræðum.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biblían

  • Fundur

  • Guðfræði

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Ráðstefna

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • Alþjóðastarf

Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju
Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu
Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins