Tónleikar í borginni um verslunarmannahelgina

29. júlí 2024

Tónleikar í borginni um verslunarmannahelgina

Sumartónleikaskrá Hallgrímskirkju hefur verið afar fjölbreytt í sumar.

Nú er verslunarmannahelgin framundan og mörg eru þau sem leggja land undir fót.

Þá getur verið gott að njóta höfuðborgarinnar í ró og næði og hlusta á fallega tónlist.

Laugardaginn 3. ágúst kl. 12.00-12.30 koma fram þau Elísabet Þórðardóttir, sem er organisti Laugarneskirkju og Þórður Árnason gítarleikari.


Elísabet Þórðardóttir lauk burtfararprófi í píanóleik frá Nýja Tónlistarskólanum árið 2001 þar sem kennarar hennar voru Ragnar Björnsson og Rögnvaldur Sigurjónsson.

Árin 2001-2004 lagði hún stund á framhaldsnám í píanóleik við Musikhochschule Luzern í Sviss.

Elísabet hóf nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2012 og lauk þaðan kantorsprófi árið 2017 og einleiksáfanga árið 2018 undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar.

Hún starfar núna sem organisti Laugarneskirkju og píanókennari og undirleikari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

 

Þórður Árnason lærði upphaflega hjá Gunnari H. Jónssyni gítarkennara og árin 1976 – 1978 stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og svo 1984 –1986 við Berklee College of Music í Boston.

Þórður Árnason hefur starfað með hinum ýmsu hljómsveitum um dagana, m.a. Brunaliðinu, Þursaflokknum og Stuðmönnum og tekið þátt í fjölda annarra verkefna.

Hann hefur leikið inn á fjölmargar hljómplötur auk starfa bæði í sjónvarpi og leikhúsi.

Hann hefur einnig starfað sem gítar- og samspilskennari við M.Í.T., Tónlistarskóla F.Í.H. og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann starfar enn.

Elísabet og Þórður flytja verk eftir Bach, Saint-Saens og fleiri.


Sunnudaginn 4. ágúst kl. 17:00 leikur Thierry Escaich organisti við  Notre Dame í París á Klais orgelið í Hallgrímskirkju. 

Thierry Escaich er á meðal þekktustu konsertorganista á okkar dögum.

Hann er rómaður spunasnillingur og eftirsóttur kennari.

Hann hefur verið organisti við Saint-Étienne-du-Mont kirkjuna í París frá árinu 1997, en þar hafði Maurice Duruflé verið organisti í 57 ár.

Thierry var nýlega ráðinn sem organisti við Notre-Dame kirkjuna í París í Frakklandi.

Thierry Escaich er einnig þekkt tónskáld og hefur skrifað yfir 100 verk, mörg fyrir orgel en einnig fyrir kammerhópa og stærri hljómsveitir.

Hann hefur komið fram á orgeltónleikum víða um heim og alls staðar hrífur hann áheyrendur með leik sínum og fjölbreyttum efnisskrám sem hann setur saman með orgelverkum ýmissa orgeltónskálda, eigin verkum og spuna.

Nýlega var Escaich skipaður einn af fjórum „titulaire“ organistum Notre Dame dómkirkjunnar í París.

Hér er að finna nánari upplýsingar um Escaich á heimasíðu hans.


slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Tónlist

  • Kirkjustaðir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar