Davíðsmessa um verslunarmannahelgina

30. júlí 2024

Davíðsmessa um verslunarmannahelgina

Davíðshús við Bjargarstíg 6 á Akureyri

Nú er verslunarmannahelgin framundan og mörg verða á faraldsfæti, þó önnur kjósi að vera heima í rólegheitum.

Margt er í boði á höfuðborgarsvæðinu í menningarlífinu, en einnig í öðrum bæjum landsins.

Akureyri hefur oft verið kölluð höfuðstaður Norðurlands, enda mikill menningrbær.

Af kirkjulegum vettvangi er það að frétta að sr. María G. Ágústsdóttir sóknarprestur í Fossvogsprestakalli mun taka við afleysingu í Glerárprestakalli þann 1. ágúst og mun hún þjóna þar fram til áramóta.

Sr. María er þegar farin að undirbúa starfið og er að skipuleggja Davíðsmessu í Davíðshúsi , sem er við Bjargarstíg 6 á Akureyri.

 

Í kynningu á viðburðinum segir sr. María:

„Sá einn er skáld sem þögull getur þráð og þakkað Guði augnabliksins náð“

"Þannig orti Davíð Stefánsson í Kvæðinu um fuglana.

Í mörgum ljóða skáldsins frá Fagraskógi er að finna trúarleg stef, trúarglímu og andlega leit, en líka trúartraustið sem ber andann uppi á náðarstund í návist Guðs, eins og Davíð orðar það sjálfur í sama kvæði.

Á sunnudegi í verslunarmannahelgi, sem að þessu sinni ber upp á 4. ágúst, er boðið upp á helgi- og ljóðastund í Davíðshúsi á Akureyri kl. 11:00.

Listafólkið Birkir Blær, Eyþór Ingi Jónsson og Rakel Hinriksdóttir flytja ljóð Davíðs Stefánssonar í tali og tónum.

Sr. María G. Ágústsdóttir leiðir stutta íhugun út frá kvæðum Davíðs.

Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir annast meðhjálparastörf og Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, opnar húsið.

Davíð Stefánsson á einn sálm í sálmabók þjóðkirkjunnar sem ber heitið Á föstudaginn langa og óhætt er að segja að við þekkjum flest með lagi Guðrúnar Böðvarsdóttur.

Í eldri sálmabókum voru fimm erindi þessa magnaða trúarljóðs en átta erindi eru birt í nýju sálmabókinni.

Þar á meðal er þetta:

Þú ert hinn góði gestur

og Guð á meðal vor,

og sá er bróðir bestur

sem blessar öll þín spor

og hvorki silfri safnar

né sverð í höndum ber

en öllu illu hafnar

og aðeins fylgir þér.“

 

Um listafólkið:

Birkir Blær er 24 ára tónlistarmaður frá Akureyri en hann hefur verið búsettur í Stokkhólmi undanfarin ár.

Hann er söngvari, lagasmiður, hljóðfæraleikari og pródúsent.

Hann vill ekki festa tónlistina sína í einum ákveðnum flokki, heldur fær hann innblástur úr öllum áttum en allra helst frá soul, blues og r&b.

Birkir er reyndur tónlistarmaður, hann hefur haldið ótal tónleika og komið fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónlistarhátíðum.

Hann hefur gefið út tónlist sem hefur nú verið streymt tæplega 6 milljón sinnum á Spotify.

Hann er sennilega þekktastur fyrir að hafa unnið sænsku Idol keppnina árið 2021.

Birkir starfar nú sem tónlistarmaður bæði á Íslandi og í Svíþjóð.

Eyþór Ingi Jónsson er auk þess að vera organisti við Akureyrarkirkju, freelance tónlistarmaður við fjölbreytt tónleikahald og stjórnandi Hymnodiu.

Hann stundar einnig náttúruljósmyndun, fuglamerkingar og fræðslu um fugla af mikilli ástríðu.

Rakel Hinriksdóttir fæddist á Húsavík og ólst upp á Laugum í Reykjadal.

Rakel er með menntun í grafískri hönnun frá University of Bridgeport USA.

Hún útskrifaðist frá Mennaskólanum á Akureyri.

Rakel er fjölmiðlakona, skáld og listakona og hefur unnið að gerð spjallþátta fyrir N4 á Akureyri.

Hún vinnur nú að félagsstörfum fyrir öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri.

Rakel býr á Eyrinni á Akureyri með tveimur sonum sínum og tveimur kisum og hefur gefið út 3 ljóðabækur.

Fyrsta bókin hennar kom út árið 2020.

Hún heitir Aðstandandi.

Þar yrkir hún um þá sáru reynslu hvernig það er að missa sinn nánasta.

Tveimur árum seinna kom út ljóðabókin Andlega algebra og árið 2023 ljóðabókin Hringfari.

María Guðrúnar. Ágústsdóttir starfar, sem áður segir, sem prestur í Glerárkirkju frá 1. ágúst til áramóta.

Hún hefur þjónað á ýmsum stöðum í Reykjavík frá því hún vígðist til prests fyrir rúmum 30 árum, síðustu sjö árin í Grensáskirkju og Fossvogsprestakalli.

María ólst upp í Skagafirði og er komin til Akureyrar til að vera nálægt syni sínum og tengdadóttur sem eignuðust sitt fyrsta barn fyrr á þessu ári.

Á bernskuheimili hennar hljómaði oft rödd Davíðs Stefánssonar af hljómplötu í eigu föður hennar, síra Ágústar M. Sigurðssonar sem var alinn upp á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Davíð var góðvinur foreldra hans og gisti oft á prestsetrinu.


slg

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Kirkjustarf

Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju
Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu
Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins