Hin árlega Ábæjarmessa um helgina

31. júlí 2024

Hin árlega Ábæjarmessa um helgina

Fólk við Ábæjarkirkju við messu árið 2013

Nú nálgast verslunarmannahelgin óðfluga og mörg okkar leggja land undir fót.

Önnur kjósa að verja helginni heima við í rólegheitum og njóta menningarlífsins í borgum og bæjum.

Svo er hægt að fara til heiða eins og mörg okkar hafa gert því alltaf er messað að Ábæ í Austurdal í Skagafirði þessa helgi.

Hin árlega Ábæjarmessa verður á Ábæ sunnudaginn 4. ágúst kl. 14:00.

Sönghópurinn Vorvindar leiðir söng við undirleik Friðriks Þórs Jónssonar.

Sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur í Skagafjarðarprestakalli og prófastur í Húnavatns og Skagafjarðarprófastsdæmi prédikar og þjónar fyrir altari.

Löngum hefur þessi messa verið afar vel sótt og ekki öll komist inn í kirkjuna og því hefur fólk gjarnan setið í kirkjugarðinum og hlýtt þar á messuna.

Í ár er fólk hvatt til að taka með sér nesti og eiga góða stund saman eftir messu í einstöku umhverfi.

 

Ábæjarkirkja er kirkja á eyðibýlinu Ábæ í Austurdal í Skagafirði.

Kirkjan var byggð árið 1922 en bærinn hefur verið í eyði síðan 1941.

Kirkjan, sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins, er lítil og steinsteypt og var efni í hana flutt úr Skagafirði en viðurinn í kirkjuna sem áður var á Ábæ og byggð var 1842 var fluttur frá Akureyri inn í Leyningsdal í Eyjafirði og fluttur yfir Nýjabæjarfjall á sleðum sem dregnir voru af mönnum.

Þótti það afrek því erfitt er að komast niður af fjallinu með æki vegna þess hve bratt það er, þótt lestarferðir væru iðulega farnar þar yfir.

Kirkjunni var fyrrum þjónað frá Goðdölum en árið 1907 var hún lögð til Mælifellsprestakalls.

Þegar Mælifellsprestakall og Miklabæjarprestakall voru sameinuð var henni þjónað frá Miklabæ.

Nú hefur allur Skagafjörður verið sameinaður í eitt prestakall og því kemur það nú í hlut sóknarprestsins að messa þessa vinsælu messu.

Oft koma yfir 100 manns í messuna og lengi vel var messukaffi veitt að Merkigili, sem fór í eyði árið 1997 er Helgi Jónsson hrapaði til bana í gilinu, en hann hafði þá verið eina sóknarbarn Ábæjarsóknar í allmörg ár.

Systkini Helga gáfu kirkjunni skírnarfont til minningar um hann og er hann smíðaður úr birkitré sem óx í gili Austari-Jökulsár.

Vegslóði er fram að Ábæ sem er fær jeppum og vel útbúnum bílum.

Í þessa árlegu messu koma einnig margir ríðandi.

 

slg


  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju