Vísitasía biskups Íslands í Furufirði

15. ágúst 2024

Vísitasía biskups Íslands í Furufirði

Guðmundur Rafn, Jóhannes Finnur, Biskup Íslands, Sigurgeir og Hermann

Sunnudaginn 23. júní síðastliðinn vísiteraði biskup Íslands bænhúsið í Furufirði.

Þangað er siglt frá Norðurfirði á Ströndum.

Bænhúsið var vígt þann 2. júní árið 1902.

Furufjörður tilheyrði Grunnavíkurhreppi hinum forna sem er í Ísafjarðarsýslu.

Sóknarkirkja fólksins þar sem og í nágrannafjörðum var að Stað í Grunnavík.

Það gat reynst örðugt að koma líki þaðan til Grunnavíkur bæði á sjó og landi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina og því var brugðið á það ráð að reisa bænhúsið í Furufirði og afmarka reit fyrir kirkjugarð.

Síðast var grafið í garðinum árið 1949 en þá þegar var fólk byrjað að flytja úr hreppnum sem lagðist endanlega í eyði árið 1962.

Bænhúsið var orðið illa farið og ráðist var í endurbætur á því sem stóðu yfir í nokkur ár, en er nú að mestu lokið.

Bændur á Austurströndum eins og firðirnir austan megin í Grunnavíkurhreppi voru nefndir eru þekktir hagleikssmiðir og endurbætur voru að mestu í höndum eins afkomanda þeirra, Guðmundar Ketils Guðfinnssonar frá Reykjarfirði.

Börn síðustu ábúenda í Furufirði þeirra Sigríðar Jakobsdóttur og Guðmundar Árnasonar hafa reist sér þar veglegt bjálkahús og sinna kirkjunni af alúð.

Þetta var síðasta vísitasía frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, en síðasta vísitasíumessan fór fram í Hólskirkju í Bolungarvík á sjómannadaginn þann 2. júní síðastliðinn.

Í vísitasíunni var farið yfir viðgerðarsöguna og gripir skoðaðir og að lokum var sunginn sumarsálmur af viðstöddum.

Biskup Íslands var í för með starfsmönnum kirkjugarðaráðs þeim Guðmundi Rafni Sigurðssyni og Sigurgeir Skúlasyni sem voru að hnitmæla kirkjugarðinn í Furufirði til að kortleggja þær grafir sem þekktar eru til að tryggja að nöfn og staðsetning þeirra, sem þar liggja, og enn eru þekkt, tapist ekki.

Þessar upplýsingar fara síðan inn á gardur.is.

Jafnframt var þetta síðasti kirkjugarður landsins sem Guðmundur Rafn átti eftir að heimsækja í sínu starfi, en hann lýkur störfum sínum nú í haust.

Með í för kirkjugarðsmanna var Jóhannes Finnur Halldórsson sem hefur séð um allskonar tölfræðiútreikninga fyrir Kirkjugarðaráð.

Einnig voru með í ferðinni Hermann Björn Erlingsson starfsmaður á biskupsstofu og ritari biskups í ferðinni og Kjartan Þorbjörnsson (Golli) ljósmyndari sem tók myndir og sagði frá ferðinni í Heimildinni.

Meðfylgjandi myndir tók Hermann Björn.

 

slg



Myndir með frétt

  • Fundur

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir verður vígð til biskups í Hallgrímskirkju

31. ágú. 2024
...á morgun, sunnudaginn 1. eptember
Biskup afhendir Ingunni Aradóttur viðurkenningu fyrir að syngja í kirkjukór í 45 ár

Viðurkenningar fyrir söng í kirkjukórum og Sálmafoss

31. ágú. 2024
...á Kirkjudögum þjóðkirkjunnar
Regína Ósk og Svenni sjá um sunnudagaskólann

Friður og fjör á Kirkjudögum

30. ágú. 2024
...mikil gleði þrátt fyrir slæmt veðurútlit