Mikilvægt að hlúa að kristinfræði fyrir menningarlæsi þjóðarinnar

19. ágúst 2024

Mikilvægt að hlúa að kristinfræði fyrir menningarlæsi þjóðarinnar

Áslaug Arna í Hóladómkirkju

Hið rómaða Hólahátíðarveður sem ævinlega hefur einkennst af glampandi sól og steikjandi hita lét það vera að heimsækja staðinn að þessu sinni.

Laugardaginn 17. ágúst stóð til að ganga pílagrímagöngu yfir Heljardalsheiði, en aflýsa þurfti þeirri göngu vegna veðurs.

Hópur af vösku göngufólki gekk þó upp í Gvendarskál, sem er í Hólabyrðunni ofan við Hóla undir leiðsögn sr. Þorgríms Daníelssonar sóknarprests í Þingeyjarprestskalli.

Kl. 18:30 var helgistund í Hóladómkirkju þar sem tekið var á móti pílagrímunum og skírnarinnar minnst.

Sunnudagurinn 18. ágúst rann upp enn kaldari og rakari en laugardagurinn og hófst dagskráin með orgeltónleikum hjónanna dr. Vidas Pinkevicius og dr. Ausra Motuzaite- Pinkeviciene, en þau eru alþjóðlegir konsertmeistarar og kennarar við Háskólann í Vilníus í Litháen.

Á meðan tónleikunum stóð mátti sjá snjóflyksur í lofti og þegar þokunni létti síðar um daginn sást að snjóað hafði í fjöll.

Kl. 14:00 var hátíðarmessa þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands prédikaði, en þetta var síðasta prédikun frú Agnesar í embætti biskups Íslands, sem hún heldur í Hólasstifti.

Sr. Halla Rut Stefánsdóttir prestur í Skagafjarðarprestakalli og sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum þjónuðu fyrir altari.

Allir biskupar landsins og sr. Guðrún Karls Helgudóttir biskup electa tóku þátt í athöfninni með ritngarlestri og bæn.

Einnig lásu ritningarlestra prófastar Húnavatns og Skagafjarðarprófastsdæmis og Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmis, þau sr. Sigríður Gunnarsdóttir og sr. Jón Ármann Gíslason.

Kirkjukór Hóladómkirkju og Skagfirski kammerkórinn sungu við undirleik Jóhanns Bjarnasonar organista kirkjunnar.

Berglind Stefánsdóttir lék á þverflautu og Sigurgeir Agnarsson lék á selló.

Eftir veislukaffi á Kaffi Hólar var hátíðarsamkoma í kirkjunni þar sem sr. Guðrún Karls Helgudóttir flutti ávarp og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hélt Hólaræðuna.

Tónlist fluttu Berglind Stefánsdóttir og Sigurgeir Agnarsson.

Í ræðu sinni sagði Áslaug Arna frá því að hún hefði ávallt hrifist af sögu og menningu staðarins og upplifi mikla friðsæld á staðnum samhliða gríðarmiklum krafti.

Sagði hún að háskólastarf í dreifðum byggðum landsins hefði mikil efnahagsleg og menningarleg áhrif.

Sagði hún að hún myndi tryggja staðnum þá virðingu og viðhald sem staðurinn á skilið.

Síðan vék hún í máli sínu að mikilvægi kirkjunnar.

Sagðist hún hafa fengið að kynnast því frá fyrstu hendi hvað kirkjan sinnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi.

Orðrétt sagði hún:

„Kirkjan hefur verið griðarstaður þeirra sem hafa átt erfitt um vik, hún er athvarf í sorg, en ekki síður sá staður þar sem fólk kemur saman til að fagna á gleðistundum í sínu lífi.

Boðskapur kirkjunnar á fullt erindi við landsmenn nú eins og áður.

Það hefur enginn orðið verri af því að tileinka sér meiri náungakærleika, hjálpsemi, fyrirgefningu eða gullnu regluna.“

Sagði hún það sameiginlegt hlutverk kirkjunnar og stjórnmálanna að vinna fyrir og með fólkinu í landinu og bætti við:

„Bæði stjórnmálamenn og kirkjunnar fólk gegna þjónustuhlutverki við almenning og við þurfum að sjá til þess að þjónustan og erindið okkar eigi sér ætíð samleið með þjóðinni.

Við leiðum, en göngum í takt á sama tíma.“

Síðan vitnaði hún í orð afa síns sr. Magnúsar Guðmundssonar við vígslu Grundarfjarðarkirkju þann 31. júlí árið 1966.

Orðrétt sagði hann:

„Vér höfum lagt oss fram um að vanda gerð kirkjunnar allt frá því grundvöllur hennar var lagður hér á þessum stað.

Vér höfum líka kappkostað að gera búnað hennar allan sem bestan.

Og þó er enn margt eftir.

En ég segi í dag eins og einn af biskupum kirkju vorrar sagði þegar minnst var á að nýreista kirkju skorti enn ýmislegt.

Hann sagði: „Kirkjur eru alltaf í smíðum“.

Áslaug Arna yfirfærði þessi orð á þjóðkirkjuna í heild sinni:

„Þjóðkirkjan er alltaf í smíðum og hún verður að finna réttan samhljóm við þjóðina svo hún fái að vaxa og dafna.

Ef kirkjan miðlar boðskap sem hefur vægi og þýðingu í aðstæðum hversdagsins og gagnvart álitamálum framtíðarinnar; ef fólkið ber traust til kirkjunnar og leitar til hennar í betri og verri tíð, þá er kirkjan ekki að velja stöðnun eða breytingar.

Hún er að velja fólkið, söguna og framtíðina.“

Sagði hún að kristnin væri samofin sögu þjóðarinnar og að áhrifa trúarinnar gæti víða í daglegu lífi okkar.

Hún hlúir að hinu andlega um leið og hún kennir friðarboðskapinn og að lifa í sátt og samlyndi við Guð og menn.

Þetta hlutverk kirkjunnar er tímalaust og mun ætíð eiga samastað hjá þjóðinni.

Tungumál biblíunnar er alls staðar í málfari okkar þegar við tölum um flísina í auga náungans, að bjóða hinn vangann og kasta fyrsta steininum og bætti við:

„Þess vegna er svo mikilvægt að að hlúa áfram að kristinfræði samhliða öðrum trúarbragðafræðum, þó það væri ekki nema fyrir menningarlegt læsi þjóðarinnar.

Öll merking tapast ef við þekkjum ekki upprunann.“

Að lokum vék hún aftur að Háskólanum á Hólum og sagði:

„Fyrir dyrum liggja áform um spennandi uppbyggingu bæði hér í Hjaltadal og á Sauðárkróki meðal annars með öflugra og fjölbreyttara námi í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.

Slík tækifæri ætlum við að nýta til að efla samkeppnishæfi landsins alls og byggja spennandi framtíð á sögu og arfleifð sem við megum vera stolt af.“

Lokaorð Áslaugar Örnu voru á þessa leið:

„Sama hversu langt mitt pólitíska líf verður þá mun ég áfram vera vakin og sofin yfir því að ná árangri fyrir Ísland til framtíðar, vitandi að ég stend á öxlum fjölda fólks sem lögðu grunn að því góða samfélagi sem við þekkjum í dag.

Samfélagi þar sem hinn kristni boðskapur um frið, náungakærleika, hjálpsemi og umburðarlyndi hefur verið alltumlykjandi í rúmlega þúsund ár og við verðum saman að varðveita.“

 

slg


Myndir með frétt

  • Biskup

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Vígslubiskup

  • Biblían

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar