Kirkjudagar: níu málstofur í dag og kvöld
Fyrstu málstofur Kirkjudaga verða í dag mánudaginn 26. ágúst.
Dagskráin hefst með helgistund í kirkjunni kl. 17:30.
Klukkan 18:00 verða þrjár málstofur í boði.
Kirkjan:
Sálgæsla og tónlist - Tónmóðir eilífðarinnar
Umfjöllun um rannsókn á mikilvægi tónlistar við sálgæslu syrgjenda í útförum og í sorgarferli.
Einnig verður umfjöllun um þær miklu breytingar sem orðið hafa á tónlist við útfarir sl. 20 ár.
Rætt verður um nýjar áskoranir tónlistarstjóra og söngvara og mikilvægi samtals útfararstjóra, presta og tónlistarstjóra þegar kemur að skipulagningu útfararinnar.
Kirstín Erna Blöndal söngkona hefur umsjón með þessari málstofu.
Kennslustofan:
Þegar akurinn kemur til okkar
Kristniboð hefur snúist mest um að fara út um heiminn, boða fagnaðarerindið og gera Jesú þekktan meðal þjóðanna.
Nú hefur ýmislegt breyst og fólk kemur til Íslands hvaðanæva að úr heiminum.
Sumt fólk kemur til að starfa hér, annað sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eða flóttafólk sem hafa fengið hæli.
Hver er ábyrgð okkar gagnvart þessu fólki?
Hvernig mætum við því og styðjum við bak þess sem margt hvert hefur sára og erfiða reynslu að baki?
Kristniboðssambandið hefur m.a. boðið útlendingum ókeypis íslenskukennslu í níu ár.
Því fylgir önnur kærleiksþjónusta af ýmsu tagi, þar á meðal sálgæsla og stuðningur.
Sum óttast að vera send heim aftur.
Hvað getum við gert?
Hvernig getur við stutt við bak þessa fólks?
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri innanlandsstarfs Kristniboðssambandsins sér um þessa málstofu.
Safnaðarheimili:
Umhyggja, samfylgd og sálgæsla
Að bregðast við áföllum í barna og æskulýðsstarfi.
Fjallað verður um verklag í kringum áföll sem verða í barna- og æskulýðsstarfi.
Umsjónaraðilar deila reynslu sinni og munu í gagnvirkri umræðu við þátttakendur á staðnum fjalla um hvað hefur gefist vel og annað sem reynslan sýnir að betur hefði mátt fara.
Sr. Guðni Már Harðarson og sr. Dís Gylfadóttir sjá um þessa málstofu.
Kl. 19:00 verða eftirfarandi málstofur á dagskrá:
Kirkjan
Fjölskyldur í sorg og áföllum
Hér verður farið í mikilvæga þætti í vinnu með fjölskyldum í kringum áföll og missi.
Mikilvæg grunnstef verða áréttuð og dæmi tekin úr reynslu í starfi.
Gert er ráð fyrir samtali við þátttakendur á staðnum.
Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og sr. Vigfús Bjarni Albertsson, forstöðumaður Sálgæslu og fjölskylduþjónustu kirkjunnar sjá um þessa málstofu.
Kennslustofan
Innri friður
Hvernig geta bænaaðferðir úr kristinni hugleiðsluhefð stuðlað að innri friði?
Fjallað verður um Kyrrðarbæn, Fagnaðarbæn og Lectio Divina.
Sr. Bára Friðriksdóttir, Bylgja Dís Gunnarsdóttir og sr. Henning Emil Magnússon sjá um þessa málstofu.
Safnaðarheimilið
Sálgæsla í söfnuði - rótfesti og friður í hjarta
Gefin verður innsýn í umfang, fjölbreytni og eðli sálgæslu í söfnuðum Þjóðkirkjunnar.
Ásta Ágústsdóttir djákni og sr. Sigurður Arnarson sjá um þessa málstofu.
Klukkan 20:00 verða eftirfarandi málstofur í boði:
Kirkjan
Sálgætir er verkfæri
Hér verður horft inn á við og skoðað hvað á sér stað innra með þeim sem sinnir sálgæslu.
Því er haldið fram að þar liggi grunnur sálgæslu, í móti hjartans, að hafa þrek til að vera í þjáningu og vera meðvitaður um hvað gerist í manni sjálfum er við styðjum aðra.
Sr. Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og sr. Vigfús Bjarni Albertsson, forstöðumaður Sálgæslu og fjölskylduþjónustu kirkjunnar sjá um þessa málstofu.
Kennslustofan
Sálgæsla, nærvera, snerting
Fjallað verður um það hvernig þessir þrír þættir fléttast saman í samfylgd á erfiðum stundum sem og í daglegu lífi varnarleysis okkar þegar við horfum á þjáningu ástvinar eða náungans og hvernig stuðningur lítur út.
Anna Hulda Júlíusdóttir djákni sér um þessa málstofu.
Safnaðarheimilið
Starf Sorgarmiðstöðvar
Sagt verður frá starfsemi Sorgarmiðstöðvarinnar og þeirri þjónustu sem er í boði fyrir syrgjendur, en þar má m.a. nefna stuðningshópastarf, jafningjastuðning, sálgæsluviðtöl, námskeið og fræðslu fyrir vinnustaði, skóla og stofnanir.
Jóhanna María Eyjólfsdóttir fagstjóri sér um þessa málstofu.
slg