Hausttónleikaröð tekur við af sumartónleikaröð

4. september 2024

Hausttónleikaröð tekur við af sumartónleikaröð

Í allt sumar var gæsileg sumartónleikaröð í Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Nú tekur við tónleikaröðin Haust í Hallgrímskirkju.

Hún hefst næstkomandi laugardag, þann 7. september kl. 12:00 með tónleikum Guðnýjar Einarsdóttur organista og söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Guðný  flytur verk eftir tónskáldin Arngerði Maríu Árnadóttur, Báru Grímsdóttur og Þorkel Sigurbjörnsson.

Þau vísa öll á einn eða annan hátt til íslenskrar náttúru sem er full af andstæðum og er bæði stórbrotin og viðkvæm.

Á sama tíma hafa öll verkin trúarleg tengsl.

Á tónleikunum verður frumfluttur hluti úr verki eftir Báru Grímsdóttur sem heitir Flóra.

Það er skírskotun í íslensku flóruna þar sem flestar plönturnar eru lágvaxnar en einstaklega litríkar, fíngerðar og fallegar þó að margar þeirra búi við hrjóstrugar aðstæður.

Nöfnin á köflum verksins eru heiti á plöntum úr íslenskri flóru sem minna á eða vísa til ritningarstaða og helgisagna og saman flétta þau blómsveig um fagnaðarerindi Jesú Krists.

Guðný Einarsdóttir stundaði orgelnám á Íslandi hjá Marteini H. Friðrikssyni, fyrrverandi organista við Dómkirkjuna í Reykjavík, við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá Lasse Ewerlöf, Hans-Ole Thers og Bine Bryndorf og í París hjá Eric Lebrun og Sophie-Veronique Cauchefer-Choplin.

Samhliða náminu í Kaupmannahöfn stjórnaði hún kammerkórnum Stöku.

Guðný hefur komið fram bæði hérlendis og erlendis sem einleikari, meðleikari og kórstjóri.

Hún hefur einbeitt sér að flutningi íslenskrar kirkjutónlistar bæði með kórum og sem einleikari á orgel og hefur frumflutt nokkur íslensk verk.

Árið 2017 var útgáfa hennar á geisladiski með orgelverkum Jóns Nordal tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna.

Guðný hefur bæði kennt á píanó og orgel og haft frumkvæði að því að kynna orgelið fyrir börnum.

Guðný samdi tónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi ásamt tónskáldinu Michael Jón Clarke og teiknaranum Fanney Sizemore þar sem orgelpípurnar sem búa í orgelhúsinu eru persónur sögunnar.

Guðný hefur ásamt Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, organista haldið ýmsa tónleika og námskeið fyrir börn.

Guðný hefur starfað sem organisti og kórstjóri um árabil hér á landi, síðast í Háteigskirkju í Reykjavík, en er nú söngmálastjóri þjóðkirkjunnar og skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar.

 

Opnun á sýningunni Hallgrímshorfur

Sunnudaginn 8. september kl. 12:00 verður opnuð myndlistarsýning á verkum Hallgerðar Hallgrímsdóttur, unnin út frá lífi og list Hallgríms Péturssonar og samþætt sex kirkjustöðum sem tengjast honum.

Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir.

Hallgrímskirkja í Reykjavík er helguð minningu prestsins og listaskáldsins Hallgríms Péturssonar.

Minningarár – 350 er yfirskrift dagskrár í kirkjunni sem heldur á lofti þeim arfi sem Hallgrímur hefur skilað til samfélagsins en 27. október eru 350 ár liðin frá dánardægri hans.

Arfleifð hans birtist á endurnýjaðan hátt í fjölbreyttri miðlun.

Einn liður þessarar dagskrár er fyrrnefnd myndlistarsýning Hallgerðar.

Hún ferðast innanlands til þeirra staða og kirkna sem sterklega eru tengdar Hallgrími Péturssyni, en þær eru Grafarkirkja á Höfðaströnd þar sem Hallgrímur fæddist, Hóladómkirkja í Hjaltadal þar sem hann ólst upp, Hvalsneskirkja á Reykjanesi þar sem hann fékk sitt fyrra prestsembætti, Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem var hans síðara brauð og Hallgrímskirkja sem áður stóð í Saurbæ en er nú í Vindáshlíð í Kjós.

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti sem helguð er minningu Hallgríms Péturssonar verður umgjörðin um sýninguna sem sett verður upp í fordyri og kirkjuskipi hennar.

 

Á vef Hallgrímskirkju segir meðal annars:

„Hallgerður er mjög meðvituð um eiginleika ljósmyndunar sem miðils, sögu hennar og tækifærin sem tæknin veitir.

Af tilfinninganæmi, látleysi og einlægni fangar hún augnablik með ljósmynd sem hún útfærir á einstakan hátt og veitir áhorfendum aðgang að hugleiðingum um líf og list tveggja einstaklinga mjög svo ólíkra tímaskeiða.

Verk Hallgríms lifa enn með þjóðinni og mörg ljóða hans hafa verið tónskáldum innblástur til tónsmíða, en nú er sjónum beint að því hvernig líf hans og list endurspeglast í myndlist á 21. öld.

Einnig verður gefin út sýningarskrá, vitnisburður um metnaðarfullt framlag til 350 ára ártíðar Hallgríms, sem lifa mun sýninguna.

Sýningin verður opnuð sunnudaginn 8. september að lokinni messu kl. 11:00.

Á Hallgrímshátíð 21. – 27. október verður efnt til málþings í hádeginu þriðjudaginn 23. október þar sem Hallgerður mun meðal annars segja frá sýningunni og svara spurningum.

Sýningin mun standa fram að aðventu.

Hallgerður lauk MA gráðu í myndlist frá Valand listaháskólanum í Gautaborg og hafði áður lokið námi frá listaháskólanum í Glasgow með áherslu á ljósmyndun."

 

slg


Myndir með frétt

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samstarf

  • Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar

  • Tónlist

  • Tónskóli þjóðkirkjunnar

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar