Biskupskápa hönnuð og saumuð af íslenskum konum

17. september 2024

Biskupskápa hönnuð og saumuð af íslenskum konum

Kristín og Steinunn

Biskup Íslands Guðrún Karls Helgudóttir var færð í fagurbláa biskupskápu við vígslu hennar þann 1. september s.l.

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona og Steinunn Sigurðardóttir hönnuður og þjóðfræðingur hönnuðu kápuna og Þórdís Jónsdóttir útsaumslistakona kom að hönnun og saumaði hana af miklu listfengi.

Kristín og Steinunn voru gestir hjá Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Þar sagði Kristín:

„Mér fannst þetta gott skref hjá Guðrúnu.

Það kom mér á óvart fyrst að hún vildi nýja biskupskápu fyrir þessa vígslu af því það hefur ekki verið gerð ný biskupskápa á þessari öld, en með nýrri biskupskápu fann maður á vígsludeginum, sem var ákaflega hátíðlegur, að þetta markar ákveðna stöðu.

Þetta er skýrt innlegg.“

Og Steinunn bætti við:

„Guðrún mælti sér mót á skrifstofu minni og kom til mín.

Við ræddum málin og mér fannst þetta náttúrulega skemmtilegt verkefni af því að gera svona flík er ákveðin áskorun, í því að búa til eitthvað sem þú hefur ekki gert áður.

Tíminn var hins vegar naumur.“

„Stuttu eftir að Steinunn er tilbúin í þetta samstarf hefur Guðrún samband við mig og spyr hvort ég sé til í að hanna og teikna táknin á kápunni,“ segir Kristín.

„Á meðan hún er að tala við mig í símanum sá ég bara Guðrúnu í kápunni og sá að hún var blá.

Ég vissi ekkert um þeirra samtöl á undan og að Guðrún hefði þá óskað að hafa bláa kápu sem er sjaldgæfur litur á biskupskápu.“

Úr varð að blái liturinn varð fyrir valinu.

„Það passaði líka fyrir hana.“

 

Óhrædd við kirkjuna og táknmyndir hennar

„Ég er að mörgu leiti alin upp í kirkju og þekki vel kirkjustarf"

segir Kristín.

„Ég er búin að vera í klaustri og sjá ótal hempur og seremóníur og hef oft velt fyrir mér hvaða hugsun er að baki þeim sem setja táknin á.“

Hún segir hefðina innan kirkjunnar og listasögunnar bjóða upp á fjölbreyttar táknmyndir á biskupskápum.

„Guðrún kom ekki með neinar ákveðnar hugmyndir en vildi hafa þetta látlaust og einfalt og að ég myndi bera undir hana og Steinunni hugmyndirnar.“

„Ég hef ákveðið sjálfstraust innan helgimyndagerðar“

segir Kristín.

„Ég er óhrædd við þetta.

Ég þekki þetta vel og hef mikinn, mikinn áhuga á þessu og ég veit það sem er persónulegt er gott af því öll djúp reynsla mannsins tengist og snýst um að betrumbæta sig og í þessu tilfelli fylgja hinni kristnu leið, sem ég samþykki.“

 

Hversdagslegt og ekki upphafið

„Mig langaði að hafa grunntákn kristninnar: krossinn og heilagan anda“

segir Kristín.

„Svo fæðist það í samstarfi við Steinunni, sem kemur með hugmynd og sýnir mér silfraðar birkigreinar, þá vissi ég eins og skot.

Auðvitað er þetta birki.“ segir hún.

„Ég vildi hafa það íslenskt, úr nánasta umhverfi og hversdagslegt ekki upphafið.“

Á boðungum kápunnar og á baki hennar eru saumaðar birkigreinar úr ull og ullþræði.

Efst á baki kápunnar er saumaður kross í formi trjágreina og neðst á baki logar gylltur logi heilags anda.

„Sem listamaður verður maður að koma með eitthvað sem er nýtt innlegg inn í þessa gerð listaverka, því auðvitað er biskupskápa listaverk,“ segir Kristín.

„Hún þjónar ekki mér.

Hún þjónar öðrum:

Þjónar Guðrúnu, kirkjunni og þeirra sem horfa á.“

Þegar Kristín og Steinunn voru viðstaddar vígsluna fundu þær hvað kápan sendi sterk og góð skilaboð.

„Þetta er skýrt innlegg:

Nú er þetta svona“

segir hún.

„Það verður skýrt að það sé að koma eitthvað nýtt inn.“

„Ég held að þetta séu skilaboð um að þó að embætti sé eins þá eru kannski nýjar hefðir að mæta inn“

segir Steinunn.

„Ég sé það kannski þannig að liturinn komi með eitthvað fallegt og nýtt sem við höfum ekki séð áður og þurfum á að halda núna.

Smá breyting í þessari stofnun.“

 

Gæsahúð þegar þær sáu kápuna í kirkjunni

Kápan er í raun ókláruð og lifandi því hugsunin er að með tíð og tíma megi bæta við táknmyndum á hana.

„Það er hefð fyrir því í listasögunni að kápur hafi verið unnar þannig“

segir Kristín.

„Hún heldur áfram að vaxa og dafna með embættinu.“

„Þessi kápa er gerð öll af konum og með mýkt að leiðarljósi“

segir Kristín.

„Krossinn er líka úr birkigreinum.

Þetta er hógværð og úr íslenskum sálargarði.

Hún er að mæta feðraveldi fortíðar þessar stofnunar“

segir hún.

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa tekið þátt í því.“

Sem fyrr segir voru þær viðstaddar vígsluna og segja það magnaða stund að ganga inn í Hallgrímskirkju og sjá biskupskápuna liggja á altarinu.

„Það kom yfir mann hvað þetta hafi þrátt fyrir allt mikið gildi og mikið vægi“

segir Kristín.

„Þetta var alveg móment fyrir mér“

tekur Steinunn undir

„ég fékk gæsahúð.“

 

Sjá myndir hér fyrir neðan af kápunni að aftan og að framan, svo og tákn krossins og tákn heilags anda.

Auk þess er mynd af Guðrúnu þegar hún útdeilir sakramentinu til forsetahjónanna.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • List og kirkja

  • Trúin

  • Biskup

processed-B35E206B-E00E-4BE7-B644-52F5433144D5.jpg - mynd

Níu hlutu styrk úr tónlistarsjóði kirkjunnar og STEF

23. des. 2024
Verkefnin sem hlutu styrk eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Fjölmargar sterkar umsóknir bárust að þessu sinni sem þykir bera gróskumiklu tónlistarstarfi innan Þjóðkirkjunnar gott vitni.
Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði