Fjörugar umræður um fjölgun þingsæta ungra fulltrúa á kirkjuþingi

23. september 2024

Fjörugar umræður um fjölgun þingsæta ungra fulltrúa á kirkjuþingi

Þingfulltrúar með gulu rósina

Fulltrúar kirkjuþings unga fólksins, sem haldið var í Háteigskirkju í Reykjavík síðast liðna helgi, leggja til að sóknir verði hvattar til að bregðast við ólíkum þörfum fjölskyldna með því að bjóða uppá fjölbreyttara safnaðarstarf er taki mið af barnafjölskyldum.

Biskups Íslands boðar árlega til kirkjuþings unga fólksins í samráði við forseta kirkjuþings hins almenna.

Sú stefna var tekin í vor að halda kirkjuþing unga fólksins framvegis að hausti, til þess að færa það nær hinu almenna kirkjuþingi.

Þetta þing var því eins konar framhaldsþing frá þinginu sem haldið var í vor.

Kirkjuþing unga fólksins er skipulagt af Biskupsstofu og Æskulýðssambandi þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ).

Hlutverk kirkjuþings unga fólksins er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan.

Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif á starfsemi kirkjunnar.

Biskupsstofa annast undirbúning kirkjuþings unga fólksins í samvinnu við stjórn Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) og Svæðisstjóra æskulýðsmála á höfuðborgarsvæðinu.

Sólveig Franklínsdóttir framkvæmdastjóri Æskulýðssambandsins var kosin verkefnastjóri til að annast framkvæmd þingsins haustið 2024.

Þá var Elín Elísabet Jóhannsdóttir, fræðslustjóri Biskupsstofu einnig starfsmaður þingsins.

Að sögn Sólveigar hittust þingfulltrúar á föstudeginum til að kynnast og snæða saman.

„Laugardagurinn hófst svo með morgunverði.

Því næst kynnti Guðmundur Þór Guðmundsson, starfsmaður Kirkjuþings, fundarsköp fyrir ungu þingfulltrúunum.

Helgistund var í umsjón sr. Árna Þórs Þórssonar sem jafnframt setti þingið.

Hilda María Sigurðardóttir var kosin forseti þingsins og Magnþóra Rós Guðmundsdóttir var kosin varaforseti.

Þingritar voru kosin þau Anton Bjarni Bjarkason og Sunna Marie Uwesdóttir Völkel“

segir Sólveig og bætir við:

„Þingið fór allt vel fram og var unga fólkið mjög áhugasamt um málefnin.

Fulltrúar þingsins komu víða að.

Auk þess er hluti hópsins frá Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar, en þingstörfin eru hluti af námi þeirra.

Ýmis málefni voru rædd.

Þá var tekin til frekari umræðu þingsályktun frá síðasta þingi er fjallar um þörfina á að mæta fjölskyldum með ung börn á breiðari vettvangi.

Fulltrúar KUF leggja til að sóknir verði hvattar til að bregðast við ólíkum þörfum fjölskyldna með því að bjóða uppá fjölbreyttara safnaðarstarf er taki mið af barnafjölskyldum.

Einnig fjallaði þingið um það hvernig efla megi starf ungmenna á aldrinum 16-25 ára innan kirkna landsins.

Að lokum fóru fram fjörugar umræður er varða fjölgun þingsæta ungra fulltrúa á hinu almenna Kirkjuþingi.

Þá var Hilda María Sigurðardóttir kjörin fulltrúi unga fólksins á Kirkjuþingi hinu almenna og Berglind Hönnudóttir var kjörin varafulltrúi.“

Sólveig vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í þinginu og komu að þingstörfum með einum eða öðrum hætti.


„Það er ljóst að innan kirkjunnar er öflugur hópur ungs fólks um land allt sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.

Þess má geta að í lokin fengu þingfulltrúar afhenta gula rós fyrir þátttöku þeirra á þinginu í tilefni af gulum september“ sagði Sólveig að lokum.


Með fréttinni fylgja nokkrar myndir sem teknar voru á þinginu, í pontu eru Hilda María forseti og Magnþóra Rós varaforseti.

slg


Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Biskup

  • Fundur

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Kirkjuþing

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju