Vona að kirkjurnar verði áfram athvarf í gleði og sorg

24. september 2024

Vona að kirkjurnar verði áfram athvarf í gleði og sorg

Prófastur setur sóknarprestinn í embætti

Mikið var um að vera í kirkjum landsins um helgina, enda vetrarstarfið komið á fulla ferð víðast hvar.

Kirkjan.is sagði frá því í gær að þrír prestar hefðu verið settir í embætti í Lágafellskirkju og bæði sóknarprestur og djákni verið settir í embætti í Skálholtsdómkirkju.

Í Digraneskirkju fór líka fram innsetningarmessa og haldið var upp á 30 ára vígsluafmæli kirkjunnar.

Það var blíðskaparveður þennan dag eins og víða annars staðar á landinu.

Digraneskirkja var vígð þann 25. september árið 1994 á 17. sunnudegi eftir trinitatis og söfnuðurinn fagnaði þess vegna 30 ára afmæli kirkjunnar eins og áður segir.

Í afmælisfagnaðinum var sr. Alfreð Örn Finnsson settur inn í embætti sóknarprests Digranes- og Hjallaprestakalls.

Prófasturinn í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra sr. Bryndís Malla Elídóttir setti Alfreð inn í embætti og þjónaði við athöfnina ásamt prestum kirknanna þeim Alfreð og sr. Hildi Sigurðardóttur.

Það var góð mæting og góður andi ríkti í kirkjunni.

Prestarnir vonast til þess að kirkjurnar í Suðurhlíðum Kópavogs verði áfram athvarf fyrir sóknarbörnin í gleði og sorg.

Að sögn Alfreðs er vonin sú að börnin í hverfinu viti af kirkjunni og boðskapnum góða.

„Íþrótta og sunnudagaskólinn var vel sóttur og er það mjög dýrmætt starf í huga okkar prestanna“ segir hann.

Eftir stundirnar var boðið upp á súpu og glæsilegt kökuhlaðborð.

Hoppukastalar voru settir upp í blíðviðrinu fyrir yngri kynslóðina sem einnig gat gætt sér á grjónagraut.

Kristján Ingimarsson, tónlistarmaður og organisti Djúpavogskirkju og Heydala og Stöðvarfjarðarsókna mætti á svæðið, lék á gítar og söng.

Kristján er góður vinur Alfreðs, samstarfsaðili, smala- og veiðifélagi.

Alfreð þótti dýrmætt að hafa fulltrúa frá Djúpavogi þar sem hann þjónaði áður en hann kom í Kópavoginn.

Auk þess söng Karlakór Kópavogs við athöfnina og Gróa Hreinsdóttir organisti stjórnaði og sá til þess að allt fór vel fram í söng og tónum.

Sóknarnefndarfólk tók myndirnar sem fylgja fréttinni.


slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Barnastarf

Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings

Kirkjan þarf að mæta fjölskyldum með ung börn

25. okt. 2024
...segir forseti kirkjuþings
Gissur Páll, Kristján, Jónas og Áslákur

Troðfull Bústaðakirkja

25. okt. 2024
...stórsöngvarar sungu
Unnur Halldórsdóttir djákni

Kærleiksþjónustan er forsenda þess að kirkjan lifi

24. okt. 2024
...segir Unnur Halldórsdóttir fyrsta konan sem var vígð djákni á Íslandi