Gíraffaganga á Skagaströnd

25. september 2024

Gíraffaganga á Skagaströnd

Fermingarbörn í Hólaneskirkju

Veður var einstakt á haustjafndægri síðast liðinn sunnudag.

Svo hefur greinilega verið um allt land og vetrarstarf kirkjunnar er að komast í fullan gang alls staðar.

Á þessum fallega haustdegi var messa í Hólaneskirkju á Skagarströnd.

Messan var að nokkru sniðin fyrir fermingarbörnin og var vel sótt að sögn sr. Bryndísar Valbjarnardóttur prests í Húnavatnsprestakalli.

„ Messuliðir voru útskýrðir, æfing var í að fletta upp í sálmabókinni, farið var yfir liti kirkjuársins og helstu hátíðir.

Svo var rætt um hvað fælist í því að fermast.

Þemað var „Ég er friðflytjandi“, en það er yfirskrift efnis sunnudagaskólans í vetur.

Átta fermingarbörn eru á Skagaströnd, en nokkur voru að heiman.

Kórfélagar leiddu safnaðarsöng undir stjórn Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur og var vel tekið undir.

Gíraffaganga var listgjörningur Nes listamanna, en þeir voru að líkja eftir sjónarhorni gíraffa ef hann kæmi í bæinn með 6 metra háls!

Listamennirnir komu til messu, en gíraffinn var á beit fyrir utan meðan á messu stóð“ segir Bryndís og hlær við.

„Vetrarstarfið verður að nokkru hefðbundið.

Fermingarfræðsla er hálfsmánaðarlega og er hver fræðslustund 80 mínútur.

TTT starf 10 – 12 ára barna er afar vel sótt og er starfið einu sinni í viku.

Þá fara börnin á Löngumýri í vetur og Vatnaskóg í vor.

Sunnudagaskóli er vikulega og einu sinni í mánuði flytjum við hann á dvalarheimilið Sæborg“ segir Bryndís og bætir við:

„Heimilisfólki finnst afar gaman að fá börnin í heimsókn.

Prestur er síðan reglulega með helgistundir á heimilinu.

Kóræfingar eru líka vikulega og nú verður aldeilis tekið á því.

Næstkomandi sunnudag, þann 29. september, munu kirkjukórar í Austur-Húnavatnssýslu koma saman.

Viðburðurinn fer fram á Skagaströnd og er ætlaður bæði til að efla samhljóm milli kóra svæðisins og styrkja einstaklingshæfni söngvara.

Raddæfingabúðirnar munu innihalda fjölbreytta dagskrá, þar sem kórmeðlimir fá leiðsögn frá kórstjórum og kennurum í raddbeitingu, tónlistarlæsi og samæfingu.

Að auki verða æfð nokkur lög úr nýútkominni bók Gunnars Gunnarssonar.

Búist er við því að margir söngfuglar taki þátt og að dagurinn verði fullur af sönggleði og skapandi vinnu“ segir Bryndís Valbjarnardóttir að lokum.

Sjá myndir af "gíraffanum" hér fyrir neðan.

slg



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar