Laust starf sóknarprests

25. september 2024

Laust starf sóknarprests

Patreksfjarðarkirkja

Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf þann 1. desember 2024.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Patreksfjarðarprestakall

Patreksfjarðarprestakall nær yfir sveitarfélagið Vesturbyggð.

Prestakallið nær yfir átta sóknir.

Í hverri sókn er sóknarkirkja.

Þetta eru Patreksfjarðarkirkja, Sauðlauksdalskirkja, Breiðavíkurkirkja, Saurbæjarkirkja á Rauðasandi, Bíldudalskirkja, Tálknafjarðarkirkja, Hagakirkja og Brjánslækjarkirkja.

Þessu til viðbótar eru Stóra-Laugardalskirkja, Selárdalskirkja og einnig er kapella á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.

Vísað er til þarfagreiningar fyrir prestakallið varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. 

Þjóðkirkjan hvetur öll kyn til að sækja um starfið.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Magnús Erlingsson, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 844 7153 eða á netfangið isafjardarkirkja@símnet.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 9. október 2024.

 

Þarfagreining

Patreksfjarðarprestakall nær yfir sveitarfélagið Vesturbyggð.

Vesturbyggð er samfélag í vexti þar sem meðalaldur hefur farið lækkandi.

Prestakallið nær yfir átta sóknir.

Í hverri sókn er sóknarkirkja.

Þetta eru Patreksfjarðarkirkja, Sauðlauksdalskirkja, Breiðavíkurkirkja, Saurbæjarkirkja á Rauðasandi, Bíldudalskirkja, Tálknafjarðarkirkja, Hagakirkja og Brjánslækjarkirkja.

Þessu til viðbótar eru Stóra-Laugardalskirkja, Selárdalskirkja og einnig er kapella á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.

Kirkjur prestakallsins eru allar í góðu lagi fyrir utan Breiðavíkurkirkju, sem þarfnast viðhalds.

Prestakallinu er þjónað af tveimur prestum; sóknarpresti í fullu starfi og presti í hálfu starfi.

Gert er ráð fyrir því að þeir leysi hvorn annan af.

Gott prestssetur stendur til boða á Patreksfirði.

Skammt frá prestssetrinu stendur Patreksfjarðarkirkja og hinum megin götunnar er safnaðarheimili með skrifstofu sóknarprests og góðri starfsaðstöðu.

Einnig eru safnaðarheimili og skrifstofuaðstaða á Tálknafirði og á Bíldudal.

Sveitarfélagið Vesturbyggð er barnvænt samfélag.

Þar eru þrír leikskólar.

Frístundadeildir eru við grunnskólana.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga rekur framhaldsdeild á Patreksfirði þar sem nemendur af suðursvæði Vestfjarða geta stundað nám á framhaldsskólastigi.

Áætlunarbifreiðir aka milli byggðakjarna.

Flugrúta ekur til og frá Bíldudalsflugvelli.

Patreksfjarðarprestakall er víðfemt prestakall með átta sóknum.

Þrjár þeirra eru í þéttbýli og fimm í dreifbýli.

Að auki þarf að sinna helgihaldi á heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði.

Sóknarprestur þarf því að hafa ríka samskiptahæfileika og geta unnið með mörgum samstarfsaðilum og sóknarnefndum.

Sóknarprestur þarf að hafa góða starfsorku og treysta sér til ferðalaga í vetrarveðri og vetrarfærð.

Í prestakallinu eru fimm fjallvegir.

Í fámennum sóknum, þar sem ekki er kór eða organisti, þarf sóknarprestur að geta leitt sálmasöng.

Hið sama getur einnig átt við um annað helgihald og safnaðarstarf.

Ætlast er til að sóknarprestur standi fyrir barnastarfi á Patreksfirði, Tálknafirði og Bildudal.

Þá þarf að sinna fræðslu fermingarbarna á þessum stöðum.

Á Barðaströnd eru 14 börn á grunnskólaaldri og þar er grundvöllur fyrir barnastarfi.

Æskillegt væri einnig að sóknarprestur reyndi að koma á fót starfi fyrir 10-12 ára börn og unglinga í hinum stærri sóknum.

Þá er einnig gert ráð fyrir að sóknarprestur sinni þjónustu meðal eldri borgara og fólks, sem er á hjúkrunarstofnun.

Sóknarpresturinn leiðir samstarf prestanna.

Hann sér til þess að sóknarbörn njóti prestsþjónustu við helgiathafnir á tímamótum mannsævinnar, sálgæslu, uppfræðslu og annars þess er tilheyrir almennu safnaðarstarfi.

Starfsálag getur verið mismunandi eftir árstíðum og aðstæðum.

Sóknarpresturinn þarf að vera sjálfstæður í vinnubrögðum.

Viðkomandi þarf að hafa aðgang að bifreið.

Breiðuvíkursókn er fámennust með 3 sóknarbörn.

Í Saurbæjarsókn á Rauðasandi búa 7 manns.

15 manns eiga heima í Sauðlauksdalssókn.

Í Hagasókn á Barðaströnd búa 19 manns.

Í Brjánslækjarsókn á Barðaströnd búa 47 manns.

Í þessum fimm sveitasóknum er messað í samráði við heimafólk.

Sóknirnar hafa ekki fastráðinn organista eða starfandi kóra en reynt er að safna saman kórfólki þegar athafnir eru.

Þegar organisti er ekki tiltækur eru stundum notuð önnur hljóðfæri eins og gítar eða þá að sungið er án undirleiks.

Persónuleg samskipti og heimsóknir prests eru mikilvægar í sveitasóknunum.

Í Bíldudalssókn eiga heima 292 manns.

Í Stóru-Laugardalssókn við Tálknafjörð búa 260 manns.

Patreksfjarðarsókn er fjölmennust en þar búa 791.

Á Bíldudal og Tálknafirði er sameiginlegur kór og í þessum sóknum er messað einu sinni í mánuði.

Í Tálknafirði er stundum messað í Stóru-Laugardalskirkju.

Á Patreksfirði er kirkjukór og þar er messað hálfsmánaðarlega.

Sameiginlegur organisti er fyrir sóknirnar, en stefnt er að því að bæta við öðrum organista.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

  • Prestsbústaðir

Steinunn Jóhannesdóttir á Gæðastund

Vel sóttar Gæðastundir

26. sep. 2024
...eldri borgara í Háteigskirkju
Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Guð er vinkona mín

26. sep. 2024
...hátíðahöld um helgina á 50 ára vígsluafmæli sr. Auðar Eirar
Breiðholtskirkja - miðstöð þjónustu kirkjunnar við innflytjendur

Laust prestsstarf

25. sep. 2024
...til þjónustu við innflytjendur