Litla gula peysan til styrktar sjálfsvígsforvörnum

27. september 2024

Litla gula peysan til styrktar sjálfsvígsforvörnum

Mánudagskvöldið 30. september verður prjónakaffi í Langholtskirkju kl. 20.00

Í tilefni af Gulum september ætlar fólk að hittast og eiga góða stund í sal Langholtskirkju og prjóna saman Litlu Gulu peysuna.

Litla gula peysan er hönnuð af Eddu Lilju Guðmundsdóttur.

Hún hannaði peysuna og gaf Lífsbrú, sem er Miðstöð sjálfsvígsforvarna, uppskriftina.

Peysan skartar kennimerki Lífsbrúar og er uppskriftin af henni aðgengileg hér.

Hægt er að nota peysuna, t.d. á lyklakippu eða sem hálsmen.

Edda Lilja verður á staðnum, nóg verður af gulu og bláu garni og heitt á könnunni.

Prjónar sem mælt er með að mæta með eru í stærðinni 3 mm.

Eftir samveru kvöldsins verða Litlu gulu peysurnar sem verða til, færðar Lífsbrú sem mun selja þær til styrktar sjálfsvígsforvörnum.

Samfélag prjónafólks á Íslandi er stórt og löng hefð fyrir prjónaskap.

Í prjónaskap felst núvitund sem getur verið hjálpleg fyrir geðheilsu.

Það er von þeirra sem standa að baki Litlu gulu peysunni að til verði hópur fólks sem prjóni eftir uppskrift Eddu Lilju, ýmist einir eða með öðrum.

Á þennan hátt nýtist styrkur og samvinna prjónafólks málaflokknum en verður vonandi líka til þess að tengja saman fólk og skapa góðar prjónasamverustundir.

Þau sem vilja styrkja málefnið og prjóna sjálfir fyrir utan þennan viðburð er bent á að hægt er að skila peysum í prjónabúðina Maró, Hlíðarfót 11, 102 Reykjavík hvenær sem er.

Nánar um Gulan september:

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum.

Það er von undirbúningshópsins að Gulur september auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna og sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju.

Að Gulum september standa fulltrúar frá:

Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Lífsbrú, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.


slg

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Safnaðarstarf

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söfnun

  • Forvarnir

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar